Fréttasafn  • Borgartún 35

23. júl. 2012

Hagrænt sjálfshól

Efnahagsráðherra hafði hárrétt fyrir sér þegar hann í kvöldfréttum RÚV hinn 17. júlí sl. benti á að íslensku hagkerfi stafaði rík hætta af hnignandi efnahagshorfum helstu viðskiptaþjóða okkar. Fá þróuð ríki flytja jafnmikið út af eigin framleiðslu og Ísland. Við öflum gjaldeyris með því að selja hugverk, fiskafurðir, ferðaþjónustu og orku, sem að mestu er flutt út í formi áls. Aðeins hluti þessara afurða getur talist nauðsynjavörur. Sumar nálgast jafnvel að falla undir munaðarvöru. Við erum því afar næm fyrir samdrætti hjá viðskiptavinum okkar.

Efnahagsráðherra notaði tækifærið og lýsti þeirri skoðun sinni að réttmætur beygur okkar af versnandi horfum í heiminum staðfesti hvernig allt stæði í blóma hér á landi, sökum framúrskarandi hagstjórnar undanfarinna ára.

Útflutningur mikilvægastur

Fagna ber hve margar greinar íslensks atvinnulífs hafa staðið vel af sér hremmingar undanfarin misseri. Íslensk ferðaþjónusta er í geysiörum vexti ár eftir ár. Þar hafa stjórnvöld lagt ýmislegt fram en sú vænlega þróun á helst rætur að rekja til óvenju lágs raungengis síðastliðin ár og öflugs markaðsstarfs greinarinnar erlendis. Þá varð gosið í Eyjafjallajökli óvænt að verðmætari auglýsingaherferð en við hefðum nokkurn tíma getað kostað sjálf.

Ýmis hugverkafyrirtæki eru í örum vexti og margar tæknigreinar eiga frekari sigra í vændum. Hins vegar er ekki sjálfgefið að geta nýtt slík viðkvæm tækifæri. Nýsköpun er vandratað ferli þar sem lítið má út af bregða. Um þessar mundir felst stærsti vandinn í skorti á starfsfólki á sérhæfðum sviðum. Um langt skeið hefur áhersla í menntamálum ekki beinst nægilega að menntagreinum sem mest þörf er fyrir í atvinnulífinu, svo sem náttúruvísindum, tækni-  og iðngreinum. Samtök iðnaðarins eiga hins vegar mjög gott og náið samstarf við menntamálaráðuneytið, samtök sveitarfélaga og fleiri til að að reyna að brúa menntagjána í landinu til langframa.

Í stórum útflutningsgreinum hefur okkur gengið vel. Álútflutningur hefur reynst öflug undirstaða og dempað áhrif kreppunnar, en frekari þróun þess iðnaðar hérlendis hefur mætt fjölmörgum manngerðum hindrunum. Rammaáætlun hefur ekki ratað í lög þrátt fyrir sífelld fyrirheit þar um. Stjórnvöld tóku áætlunargerðina úr fimmtán ára löngu faglegu ferli sem sátt ríkti um en freistuðu þess í stað að ná einhliða fram pólitískum markmiðum um að nýta ekki nærtækustu orkukosti. Gagnaverin eru ung og orkufrek iðngrein hér á landi en hún komst, illu heilli, ekki á legg fyrr en löngu síðar en þurft hefði. Þá töf má fyrst og fremst rekja til andstöðu í fjármálaráðuneytinu á árunum 2009 og 2010 við að samstilla nokkur skattatæknileg atriði við fyrirkomulag helstu samkeppnisþjóða okkar.  Google og Facebook ákváðu að reisa gagnaver í Finnlandi og Svíþjóð árið 2010. Stjórnendur þessara risavöxnu tæknifyrirtækja tóku sérstaklega fram að Ísland kæmi ekki til greina vegna leggjabrjóta í íslenskri skattalöggjöf.

Býsna óvæntar og gleðilegar gæftir hafa verið í makríl- og loðnuveiðum. Þá hafa fiskafurðir okkar almennt selst á háu verði undanfarin misseri. Núverandi stjórnvöld geta þó ekki eignað sér almennt sterka eftirspurn í viðskiptalöndum okkar undanfarin ár, ekki frekar en að versnandi horfur þar séu þeim að kenna. Þau geta heldur ekki gumað af vænlegri samkeppnisstöðu okkar eigin afurða. Hún byggist á þróunarstarfi fyrirtækjanna sjálfra og langvinnri markaðssókn þeirra með gæðavörur erlendis. Slík langtímahugsun og áralöng fjárfesting var gerleg vegna fyrirsjáanlegs stjórnkerfis fiskveiða sem núverandi stjórnvöld reyna ítrekað að hnekkja. Í reynd hefur margsinnis verið valinn ófriður í auðlindamálum þegar sátt hefur verið í boði. Sú hugmyndafræðilega barátta hefur ratað út fyrir sjálfar auðlindagreinarnar og haft alvarlegar aukaverkanir í ýmsum tæknifyrirtækjum í auðlindanýtingu sem leitast við að nýta heimamarkað til að skapa lausnir til útflutnings.

Innviðir rýrna

Fjárfesting í hagkerfinu hefur verið sögulega lítil árum saman og nú er svo komið að greinendur á markaði telja að hún sé í raun orðin neikvæð þegar raunverulegar fyrningar eru teknar með í reikninginn. Í stað þess að byggja upp höfuðstól til að skapa verðmæti til framtíðar, sé gengið á núverandi höfuðstól þar sem eðlilegri endurfjárfestingu er ekki sinnt. Til að mynda er enginn sparnaður fólginn í að fresta svo viðhaldi og uppfærslu vegakerfisins að síðar þurfi að kosta miklu meira til við viðgerðir. Þá má nefna þann öryggisskort sem slík stefna skapar en ekki síður þá verkþekkingu og þann búnað til mannvirkjagerðar sem flyst úr landi á meðan brýnum verkefnum í þessu efni er ekki sinnt.

Stjórnvöld hafa í orði kveðnu sagst vilja afnema gjaldeyrishöft hið fyrsta. Hefur hugur fylgt máli? Ef vel gengur erlendis en illa hér á landi, er jafnan sagt að okkur sé búið mikið skjól í höftunum. Þegar rofar til hér en horfur versna ytra, verður aftur mikið skjól að finna í höftunum. Í stuttu máli sagt er aldrei rétti tíminn til að hefja afnám hafta. Þess í stað hefur embættismönnum Seðlabankans verið eftirlátið að halda hinu meinta afnámsverkefni gangandi. Þótt þeir væru allir af vilja gerðir er vita vonlaust að reyna að afnema gjaldeyrishöft án pólitískrar forystu og samhæfingar við helstu hagrænu gerendur í landinu. Kjarni máls er einmitt sá að ríkissjóður nýtur nú til skamms tíma afar góðs af höftunum, t.d. með því að geta gengið óáreittur í vaxandi fé lífeyrissjóðanna. Þeir mikilvægu sjóðir allra landsmanna mega ekki fjárfesta nýtt fé erlendis vegna haftanna og vænlegum fjárfestingarverkefnum hefur ekki verið fyrir að fara innanlands. Eignasafn lífeyrissjóðanna verður því sífellt einhæfara og áhættusamara. Bólur myndast í ýmsum eignaflokkum og ávöxtun sjóðanna rýrnar. Landsmenn greiða þennan reikning á ævikvöldi sínu.

„Það varð hrun“

Núverandi ríkisstjórn tók við afar erfiðu búi fyrir þremur og hálfu ári. Stjórnvöld eru líka sérlega dugleg að benda á þessa staðreynd. Það veitir þó ekki endalausa afsökun fyrir að hægja á sköpun verðmæta hér á landi. Rifja má upp að í byrjun árs 2009 hafði þegar orðið til efnahagsáætlun í samstarfi við AGS. Hvað sem um samvinnuna við AGS má segja að öðru leyti, er sannleikurinn sá að hefði þeirri upphaflegu áætlun verið fylgt og hún gengið eftir, væri íslenskt hagkerfi að minnsta kosti orðið 100 milljörðum stærra á næsta ári en núverandi þjóðhagsspá gerir ráð fyrir. Gróft talið vantar þar 10.000 störf. Efnahagsráðherra telur að hagræn fagurfræði stjórnvalda sé misskilin list. Það sem skorti séu upplýstir áhorfendur. Sá málflutningur minnir óþægilega á boðskap íslensku bankanna árin fyrir hrun. Það eina sem hrjáði bankana á þeim tíma var kynningar- og ímyndarvandi, en staðreyndir máls voru þeim allar í vil.