Fréttasafn



  • Borgartún 35

13. sep. 2012

Ályktun stjórnar SI um fjárlagafrumvarpið fyrir 2013

Á stjórnarfundi Samtaka iðnaðarins í dag var samþykkt eftirfarandi ályktun um fjárlagafrumvarpið fyrir 2013 sem að mati SI veldur miklum vonbrigðum.
 
Fjárlagafrumvarp fyrir 2013 veldur vonbrigðum

 

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 veldur Samtökum iðnaðarins verulegum vonbrigðum. Samtökin lýsa þó yfir ánægju sinni með aukningu framlaga til Tækniþróunarsjóðs, en það hefur verið áherslumál SI um langt skeið. Í fjölmörgum öðrum atriðum gengur frumvarpið hins vegar gegn veigamiklum hagsmunum íslensks iðnaðar. Jafnframt ber frumvarpið þess glöggt vitni að stjórnvöld hyggjast ganga á bak fyrri orða sinna og samninga. Í heild eru hefðbundnar skattahækkanir valdar til að reyna fylla fjárlagagatið en um leið er dregið úr getu atvinnulífsins til að skapa hagvöxt, störf og þar með að lokum einnig tekjur fyrir ríkissjóð.

Óásættanlegt að tryggingagjald lækki ekki

Samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í baráttu gegn atvinnuleysi hefur gengið vel í gegnum átaksverkefnin Nám er vinnandi vegur og Vinnandi vegur. Með markverðum hætti hefur dregið úr atvinnuleysi. Þátttaka atvinnulífsins byggðist á að minnkandi atvinnuleysi myndi draga úr álögum í gegnum tryggingagjaldið. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 í tengslum við gerð kjarasamninga segir „miðað við spár um 5,5% atvinnuleysi gæti atvinnutryggingagjaldið lækkað um 0,3% til viðbótar í ársbyrjun 2013.“ Ekki verður annað séð en að ríkisstjórnin sé að ganga á bak orða sinna.

Óásættanleg og ómarkviss neyslustýring

Samtök iðnaðarins hafna með öllu þeim ásetningi stjórnvalda að afla 800 m.kr. árlega með því að skattleggja vörur með vörugjöldum sem að þeirra mati teljast óhollar. Óskynsamlegt er að leggja skatta á vörur vegna óljósra tengsla neyslu og holdafars. Hækkun vörugjalda á margvíslegar sykraðar vörur mun ekki hafa áhrif á heilsu- eða holdafar landsmanna en mun leggjast hart á samkeppnishæfa innlenda framleiðslu.

Óásættanleg vinnubrögð stjórnvalda vegna orkuskatts

Árið 2009 var undirritað samkomulag milli stjórnvalda, SA og stórnotenda raforku um fyrirframgreiðslu tekjuskatts og tímabundna álagningu orkuskatts gegn því að hann félli niður að þremur árum liðnum. Ef fjárlagafrumvarpið verður að lögum er ljóst að þetta samkomulag er að engu orðið, einmitt þegar iðnaðurinn hefur staðið við allan sinn hluta þess. Ljóst er að trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda í gerð fjárfestingarsamninga við erlenda aðila bíður verulegan hnekki til langs tíma gangi þessi fyrirætlan eftir.

Ályktun stjórnar Samtaka iðnaðarins samþykkt á stjórnarfundi 13. september 2012