Fréttasafn



  • HR-lógó

14. sep. 2012

HR gagnrýnir niðurskurð til háskóla

Framlög til háskóla á Íslandi hafa verið skorin niður í þrjú ár í röð. Mest hefur hefur verið skorið niður til tæknimenntunar á háskólastigi og ráðgert er að skera þar enn frekar niður. Háskólinn í Reykjavík hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem niðurskurðurinn er harðlega gagnrýndur.

 

Yfirlýsing frá Háskólanum í Reykjavík

Í október verða 4 ár liðin frá hruni íslensku bankanna og upphafi þeirrar djúpu kreppu sem því fylgdi. Strax í kjölfarið komu skýr skilaboð frá sérfræðingum í Svíþjóð og Finnlandi, sem reynslu höfðu af djúpum kreppum, um að standa skyldi vörð um menntun og þá sérstaklega háskólamenntun, enda væri öflugur menntaður mannauður grunnurinn að þeim hagvexti sem nauðsynlegur væri til að komast út úr djúpri kreppu.

Þvert á ráðleggingar þessara sérfræðinga hafa framlög til háskóla á Íslandi verið skorin niður þrjú ár í röð. Mest hefur verið skorið niður til tæknimenntunar á háskólastigi og er nú ráðgert að skera þar enn frekar niður. Undanfarin ár hefur viðvarandi skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi staðið í vegi fyrir vexti fyrirtækja í þekkingariðnaði, sem hefur komið niður á verðmætasköpun og hagvexti. Í þessu samhengi má benda á niðurstöðu nýlegrar könnunar sem gerð var meðal 400 fyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt henni þurfa fyrirtækin um 2000 tækni- og háskólamenntaða starfsmenn á næstu árum til að styðja við vöxt sinn og þróun. Langmest er þörfin fyrir raunvísinda-, tækni- eða verkfræðimenntað fólk.

Háskólinn í Reykjavík er stærsti og öflugasti háskóli landsins þegar kemur að tækni, viðskiptum og lögum. HR menntar tvo af hverjum þremur sem ljúka tæknimenntun á háskólastigi, helming allra sem ljúka viðskiptamenntun og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi. Enn fremur er HR skilvirk menntastofnun því hann útskrifar 18% þeirra sem ljúka háskólamenntun en fær aðeins um 14% þeirra framlaga sem hið opinbera leggur til kennslu á háskólastigi. Háskólinn í Reykjavík er einnig öflugur rannsóknarháskóli, enda eru um 14% þeirra fræðigreina sem koma frá íslenskum háskólum og birtast í hinum virtu ISI tímaritum frá HR, þó svo að einungis um 9% rannsóknarframlaga hins opinbera sé veitt til HR.

Í ljósi þessara styrkleika og mikilvægs hlutverks sem Háskólinn í Reykjavík gegnir fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf, er með ólíkindum að horfa til þess að einna mest hafi hlutfallslega verið skorið niður í framlögum til HR. Þetta er enn alvarlegra í ljósi þess að skortur á tæknimenntuðum einstaklingum hefur staðið í vegi fyrir vexti íslenskra fyrirtækja á sviði tækni og hugbúnaðar á Íslandi en Háskólinn í Reykjavík hefur unnið markvisst að því að fjölga einstaklingum með tæknimenntun á háskólastigi.

Til að koma Íslandi út úr kreppunni þarf viðvarandi og öflugan hagvöxt. Sé ætlunin að byggja hagvöxt á fleiri stoðum en nýtingu náttúruauðlinda þarf atvinnulífið að byggja á þekkingu og hugviti sem skapa verðmæti til útflutnings. Öflugt háskólastarf í virkum tengslum við atvinnulífið og þá sér í lagi öflug menntun og nýsköpun á sviðum tækni, viðskipta og skyldra greina, er forsenda þess að ný og verðmæt þekking verði til á Íslandi.

Íslenskir háskólar máttu ekki við niðurskurði, enda voru þeir svo illa fjármagnaðir fyrir hrun að hverjum háskólanema á Íslandi fylgdu aðeins um 56% þeirra framlaga sem fylgdu meðalháskólanema á Norðurlöndum. Ísland ver hlutfallslega háu hlutfalli landsframleiðslu til menntunar og stendur þar framarlega meðal OECD landa, en sökum þess hve litlum hluta þess er varið til háskóla er Ísland vel fyrir neðan meðaltal þegar kemur að háskólamenntun.

Fjárfesting í menntun og þá sérstaklega í háskólamenntun í tæknigreinum er bein fjárfesting í hagvexti og auknum skatttekjum ríkissjóðs. Fjöldi starfa í þekkingariðnaði getur vaxið verulega og þannig aukið verðmætasköpun á Íslandi, en skortur á tæknimenntuðu fólki kemur í veg fyrir að fyrirtækjum takist að ráða fólk til starfa. Þessi staðreynd hefur neytt mörg fyrirtæki til að leita erlendis eða að takmarka mjög umsvifin á Íslandi. Sé ætlunin að snúa þessari þróun við og vinna markvisst að viðvarandi hagvexti verður að efla tæknimenntun á Íslandi fremur en að skera hana niður við trog. Hvert ár niðurskurðar til háskóla leiðir til margfalds taps í verðmætasköpun, hagvexti og skatttekjum ríkisins.