Fréttasafn  • Prósentumerki

3. okt. 2012

Hægari efnahagsbati – óbreyttir vextir

Seðlabanki Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir þessa ákvörðun ekki koma á óvart í ljósi efnahagsþróunar. Gengi krónunnar hefur veikst nokkuð síðustu vikur og eykur það á verðbólguþrýsting sem að óbreyttu ætti að kalla á hærri vexti. Verðbólgan er ennfremur vel yfir markmiði og verðbólguhorfur á seinni hluta ársins ekkert sérstaklega góðar.
 

„Á móti kemur að minni bati virðist vera í efnahagslífinu en áður var talið. Nýverið voru hagvaxtatölur fyrir síðasta ár færðar niður auk þess sem framleiðslutölur á fyrri helming ársins benda til hægari vaxtar. Við sjáum einnig að vinnumarkaðurinn er enn nokkuð veikur, atvinnuleysi hátt og enga fjölgun starfa. Hagkerfið er þannig ekki að taka jafn skarpt við sér og áður var talið og það kallar á minna aðhald peningastefnunnar“, segir Bjarni Már.