Fréttasafn



  • Borgartún 35

3. okt. 2012

Örvum fjárfestingar á Íslandi

Sigmar Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda og formaður Samtaka sprotafyrirtækja hefur verið að skrifa greinar í Morgunblaðið um starfsumhverfi fyrirtækja. Önnur grein hans um málefnið birtist á mbl.is í dag.

Örvum fjárfestingar á Íslandi

Auknar fjárfestingar í atvinnulífinu skila sér fljótt til samfélagsins í formi fjölgunar starfa og þar með aukinna skatttekna, er því eftir miklu að seilast. Fjárfestingartækifæri á Íslandi mættu vera mun fleiri. Erlendum aðilum gefst ekki kostur á að fjárfesta í orkuiðnaði, virkjunum né sjávarútvegi. Með tilkomu auðlindagjalds ætti að verða auðveldara að leyfa slíkar fjárfestingar. Með réttu stjórntækjunum er hægt að örva fjárfestingar í landinu.

Skattar og hvatar
Skattar á fyrirtæki og einstaklinga hanga saman. Ef skattar lækka á einstaklinga þá dregur úr launapressunni á fyrirtækin og lækkun skatta á fyrirtæki gerir þeim kleift að gera betur við starfsfólk.

Í dag er það þannig að það fjármagn sem einstaklingar setja inn í fyrirtæki er margskattlagt; fyrst þegar viðkomandi einstaklingur aflar sér tekna, hagnaður fyrirtækisins er svo skattlagður og loks eru arðgreiðslur út úr fyrirtækinu skattlagðar. Til þess að upphafleg fjárfesting skili sér að fullu aftur til einstaklingsins þarf arðsemi fjárfestingarinnar því að vera afar góð.

Slík skattlagning gerir óraunhæfar væntingar/kröfur til fyrirtækja nema til mjög langs tíma. Fá fyrirtæki munu standa undir slíkum kröfum um hækkun hlutabréfaverðs. Þetta er ekki raunhæft nema að til komi skattahvatar, öðruvísi er ekkert vit í því fyrir einstaklinga að kaupa hlutabréf. Skattaafsláttur á hlutabréfakaup á því við og skattfrjáls endursala á hlutabréfum starfsmanna, hafi þeir átt bréfin samfellt í þrjú ár. Með tilkomu skattaafsláttar við kaup á hlutabréfum þá má ná þessu hrópandi ósamræmi niður í eðlilegra horf, sem um leið verður hvetjandi fyrir einstaklinga að fjárfesta í hlutabréfum til stuðnings við atvinnusköpun í landinu.

Hafa mætti einnig í huga að hægt væri að sleppa eða draga verulega úr auðlegðarskatti af hlutbréfum til þess að hvetja til virkari þátttöku í atvinnulífinu. Kannski gæti það einnig orðið til þess að draga úr búferlaflutningum eigenda hlutbréfa úr landi vegna auðlegðarskatts. Hafa ber auk þess í huga að arðgreislur skattleggjast í því landi sem viðkomandi býr í, er því um tvöfaldan ávinning um að ræða fyrir samfélagið, auknar fjárfestingar í atvinnulífinu, höldum frekar hluthöfum í landinu og þar af leiðandi verða aðrgreiðslur skattlagðar hér á landi.

Í umræðunni um ný lög ríkisstjórnarinnar um skattahvata til að efla fjárfestingu í hlutabréfum hefur fyrst og fremst verið rætt um að einungis ný hlutabréf mundu njóta njóta skattfrádráttar. Spyrja má hvers vegna reglurnar eigi ekki að gilda um allt hutafé sem gengur kaupum og sölu? Á móti væri hægt að setja skorður á ákveðna þætti eins og:

  • Skattafsláttur veittur yfir þriggja ára tímabil.
  • Sala á hlutabréfum sem starfsmenn eignast og eiga í 3 ár verða skattfrjáls við sölu.

Mikilvægt er að örva alla starfsmenn, sem hafa áhuga á að gerast meðeigendur í fyrirtækjunum, því þarf að skapa réttan farveg fyrir slíkar fjárfestingar.

Mismunun í skattakerfinu
Opinberir sjóðir greiða ekki skatt af arði, á meðan aðrir gera það, en keppa á sama markaði! Opinberir sjóðir greiða ekki skatt af sölu hlutabréfa, en það gera aðrir, en keppa á sama markaði! Væri ekki ráð að leggja af skatt á arðgreiðslum og sölu á hlutabréfum svo hægt sé að jafna hlutina, ríkið fær sitt gegnum skattlagningu launa þegar upp er staðið.
Íslenskum fjárfestum er mismunað í samanburði við erlenda, þar sem Seðlabankinn veitir þeim sem koma inn í landið afslátt á krónum. Ættu þá ekki allir sem geta komið með fjármagn til landsins, eins og fjárfestar, fyrirtæki í útflutningi og aðrir að njóta sömu kjara ef þau nota tekjurnar til að fjárfesta fyrir?

mbl.is 3. október 2012