Fréttasafn



  • Lög

10. okt. 2012

Lýsingu stefnt vegna fjármögnunarleigusamninga

Samtök iðnaðarins vilja koma í veg fyrir að hundruð viðskiptavina Lýsingar þurfi að höfða dómsmál til að fá lánasamninga sína leiðrétta.

Samtök iðnarins hafa áður sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að samtökin telja dóm Hæstaréttar í máli Smákrana (Hrd 652/2011) frá því í vor hafa takmarkað fordæmisgildi. Í því tiltekna máli taldi Hæstiréttur ósannað að samið hefði verið um að Smákranar myndu eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans.

Niðurstaða Hæstaréttar gekk þvert á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu sem og niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðu Kraftvélaleigumáli frá 20. október 2011.

Að mati SI ræðst niðurstaða Hæstaréttar í Smákranamálinu fyrst og fremst af skorti á sönnun um tiltekið atriði og því telja SI dóminn hafa takmarkað fordæmisgildi. Ljóst er að þau fyrirtæki sem fjármögnuðu tækjakaup sín með sambærilegum hætti og greinir í fyrrgreindum dómsmálum gerðu það út frá þeirri forsendu að þau myndu eignast tækin að samningstíma loknum.

SI hafa því ákveðið að reka prófmál fyrir hönd sinna félagsmanna gegn fjármálafyrirtækjum þar sem leitast verður við að sanna að samkomulag hafi legið fyrir milli aðila um kaup á tækjum í lok samningstíma. Hafa Samtök iðnaðarins ráðið Þorstein Einarsson hrl. til að reka þessi mál og voru þingfestar í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur stefnur í tveimur málum gegn Lýsingu. Stefnt er fyrir hönd tveggja stórfyrirtækja og gerðar kröfur um að viðurkennt verði að samningar fyrirtækjanna við Lýsingu séu að efni til lánssamningar og að ákvæði samninganna um „leigugrunn“ að tiltekinni fjárhæð tengdri gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla sé ólögmætt og óskuldbindandi fyrir fyrirtækin. 

Samtök iðnaðarins vilja með þessu eyða réttaróvissu og forðast þá stöðu að hundruð viðskiptavina Lýsingar þurfi að höfða dómsmál til að fá samninga sína leiðrétta.