Fréttasafn



  • Hæstiréttur Íslands

24. okt. 2012

Félagsmenn SI geta krafið fjármálafyrirtæki um endurgreiðslu

Óheimilt að endurreikna ólögleg gengistryggð lán á íslenskum seðlabankavöxtum afturvirkt

Með dómi Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka sl. fimmtudag hafnaði rétturinn þeirri málsástæðu bankans að dómafordæmi Hæstaréttar í svokölluðu Mendez-máli ætti eingöngu við um lánasamninga einstaklinga við fjármálafyrirtæki. Var það mat réttarins að augljós aðstöðumunur væri á bankanum og sveitarfélaginu í viðskiptum þeirra.

Í kjölfar fyrri dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengislána var lán Borgarbyggðar endurreiknað aftur í tímann eins og hagstæðustu vextir Seðlabankans hefðu gilt um það í stað samningsvaxta. Í málinu krafðist Borgarbyggð þess hins vegar að samningsvextir yrðu látnir gilda þar sem afborganir sveitarfélagsins hefðu talist fullnaðargreiðslur. Með fullnaðarkvittun er átt við að greiðsla höfuðstóls og vaxta telst fullnaðargreiðsla og skuldari verður ekki krafinn um frekari vexti ef móttakandi hefur tekið við greiðslunni án athugasemda.

Samkvæmt dóminum er óheimilt að endurreikna ólögleg gengistryggð lán á íslenskum seðlabankavöxtum afturvirkt eins og lög 151/2010 (Árnapálsögin) kveða á um, óháð því hvort um er að ræða lán til fyrirtækja eða einstaklinga. Að mati SI er nú ekkert því til fyrirstöðu að fjármálafyrirtækin hefji tafarlaust endurútreikning á lánum með þeirri aðferðarfræði sem lýst er í dómi Hæstaréttar.

Reikniaðferðin skv. dómi Hæstaréttar felur í sér að allar afborganir skuldar sem inntar hafa verið af hendi koma að fullu til frádráttar höfuðstól. En höfuðstóllin skal hvorki bera gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga. Fjárhæð vaxta hafi ekki áhrif svo fremi sem þeir hafi verið að fullu greiddir fyrir viðkomandi tímabil.

SI hvetja félagsmenn sína sem þegar hafa gert upp gengisbundin ólögleg lán  að gera sem fyrst kröfu á viðkomandi fjármálastofnun til að tryggja rétt sinn þar sem kröfurnar bera ekki dráttarvexti fyrr en þær eru settar fram.

Þau tilvik sem falla undir þennan dóm geta verið margvísleg og má nefna nokkur sem eru félagsmönnum SI vel kunn:

  • Kaupleigusamningar sem hafa verið endurreiknaðir í íslenskum krónum.
  • Fjármögnunarleigusamningar sem hafa verið dæmdir ólögleg lán og hafa verið endurreiknaðir. Einnig þeir fjármögnunarleigusamningar sem hafa verið dæmdir ólöglegir en endurreikningur hefur ekki verið gerður (Íslandsbankasamningar).