Fréttasafn  • cleantech-logo

26. okt. 2012

Mikil tækifæri í grænni tækni

CleanTech Iceland, Samtök fyrirtækja í grænni tækni, kaus nýja stjórn á aðalfundi félagsins. Formaður var kosinn KC Tran, Carbon Recycling International og situr hann áfram frá fyrra ári. Aðrir stjórnarmenn eru Eiríkur Sveinn Hrafnsson, Greenqloud, Guðný Reimarsdóttir, Eco Nord , Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorka og Hilmir Ingi Jónsson, ReMake Electric. Úr stjórn gengu Ásbjörn Torfason og Ingvar Kristinsson og voru þeim þökkuð vel unnin störf.

 

Á síðasta starfsári CTI var lögð áhersla á nokkur verkefni, þ.e. fjármögnun fyrirtækja, markaðssetningu og erlent samstarf ásamt innri uppbyggingu félagsins. Unnið hefur verið að kynningu á greininni gagnvart sjóðum og fjárfestum. Gestur fundarins var Helga Valfells, framkvæmdastjóri NSA. Hún ræddi um samstarf sem tekist hefur milli CTI og sjóðsins um stuðning félagsins við greiningu og þekkingaruppbyggingu á fjárfestingartækifærum í grænni tækni. Félagið telur að auka megi skilning á sérstöðu greinarinnar og þeim miklu tækifærum sem liggja í grænni tækni. Gríðarleg tækifæri til atvinnusköpunar felast þar enda er græn tækni ört vaxandi svið um allan heim. Hérlendis er góð reynsla á sviði hreinnar orku og því lag að byggja á þeirri þekkingu og ímynd. Á fundinum kynnti Bala Kamallakharan, framkvæmdastjóri GreenQloud, upphaf og framtíðarsýn Start-up Iceland, sem er áhugaverð leið til að aðstoða frumkvöðla við fyrstu skrefin.

Félagið hefur á undanförnu ári komið víða komið við í samstarfi sem varðar græna tækni og má þar nefna Grænu orkuna – Vistorka í samgöngum sem og Íslenska jarðvarmaklasann.  Félagið vinnur þannig að bættum skilyrðum fyrir starfsemi fyrirtækja í greininni. Einnig hefur félagið tekið þátt í norrænu samstarfi, m.a. um greiningu á tækifærum og markaðssetningu á grænni tækni.   

CTI sem var stofnað 1. júní 2010 hefur nú lokið sínu öðru starfsári.  Á félagaskrá CTI eru 15 fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að vinna að þróun umhverfisvænna tæknilausna.