• cleantech-logo

26. okt. 2012

Mikil tækifæri í grænni tækni

CleanTech Iceland, Samtök fyrirtækja í grænni tækni, kaus nýja stjórn á aðalfundi félagsins. Formaður var kosinn KC Tran, Carbon Recycling International og situr hann áfram frá fyrra ári. Aðrir stjórnarmenn eru Eiríkur Sveinn Hrafnsson, Greenqloud, Guðný Reimarsdóttir, Eco Nord , Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorka og Hilmir Ingi Jónsson, ReMake Electric. Úr stjórn gengu Ásbjörn Torfason og Ingvar Kristinsson og voru þeim þökkuð vel unnin störf.

 

Á síðasta starfsári CTI var lögð áhersla á nokkur verkefni, þ.e. fjármögnun fyrirtækja, markaðssetningu og erlent samstarf ásamt innri uppbyggingu félagsins. Unnið hefur verið að kynningu á greininni gagnvart sjóðum og fjárfestum. Gestur fundarins var Helga Valfells, framkvæmdastjóri NSA. Hún ræddi um samstarf sem tekist hefur milli CTI og sjóðsins um stuðning félagsins við greiningu og þekkingaruppbyggingu á fjárfestingartækifærum í grænni tækni. Félagið telur að auka megi skilning á sérstöðu greinarinnar og þeim miklu tækifærum sem liggja í grænni tækni. Gríðarleg tækifæri til atvinnusköpunar felast þar enda er græn tækni ört vaxandi svið um allan heim. Hérlendis er góð reynsla á sviði hreinnar orku og því lag að byggja á þeirri þekkingu og ímynd. Á fundinum kynnti Bala Kamallakharan, framkvæmdastjóri GreenQloud, upphaf og framtíðarsýn Start-up Iceland, sem er áhugaverð leið til að aðstoða frumkvöðla við fyrstu skrefin.

Félagið hefur á undanförnu ári komið víða komið við í samstarfi sem varðar græna tækni og má þar nefna Grænu orkuna – Vistorka í samgöngum sem og Íslenska jarðvarmaklasann.  Félagið vinnur þannig að bættum skilyrðum fyrir starfsemi fyrirtækja í greininni. Einnig hefur félagið tekið þátt í norrænu samstarfi, m.a. um greiningu á tækifærum og markaðssetningu á grænni tækni.   

CTI sem var stofnað 1. júní 2010 hefur nú lokið sínu öðru starfsári.  Á félagaskrá CTI eru 15 fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að vinna að þróun umhverfisvænna tæknilausna.

Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.