Fréttasafn



  • Viðhald fasteigna

4. des. 2012

Ný reglugerð - Kostnaðaráhrif

Síðasti fundurinn í velheppnaðri fundaröð SI og fleiri aðila um nýja byggingarreglugerð var haldinn á Suðurlandi sl. föstudag. Tryggvi Þórhallsson, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hélt erindi á fundinum þar sem hann fjallaði um stefnumörkun sambandsins og skyldur til að koma á virkum leigumarkaði. Hann vill að fylgst verði náið með áhrifum nýrrar byggingarreglugerðar á byggingarkostnað húsnæðisfélaga og að inn í nefnd sem fylgist með kostnaðaráhrifum
komi
fulltrúar frá byggingariðnaðinum. Nálgast má upptökur af fundinum á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.
 

Meðal þess sem fjallað hefur verið um á fundunum er kostnaðaraukningin sem fylgir nýjum mannvirkjalögum og byggingareglugerð. Samtök iðnaðarins, ásamt Búseta, létu óháðan aðila gera kostnaðargreiningu. Niðurstaðan er tæplega 10 prósenta hækkun kostnaðarverðs.

Friðrik Á. Ólafsson, SI og Guðrún Ingvarsdóttir, verkefnastjóri þróunarverkefna hjá Búseta skrifuðu grein um málið sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Ný reglugerð - kostnaðaráhrif

Þann 28. mars sl. sendu Samtök iðnaðarins og Búseti húsnæðissamvinnufélag erindi til Mannvirkjastofnunar þar sem óskað var eftir mati á kostnaðaráhrifum nýrrar byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í erindinu var vísað til 6. gr. reglugerðar nr. 812/1999 um eftirlitsreglur hins opinbera og lög um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999 þar sem kveðið er á um að yfirvöldum beri að meta kostnaðaráhrif af breytingum á lögum og reglugerðum.

Til viðmiðunar fylgdu erindinu hönnunargögn vegna húss við Litlakrika 1 í Mosfellsbæ. Húsið var tekið í notkun hjá Búseta 2010 og var valið vegna þess að það er dæmigert þriggja hæða íslenskt fjölbýlishús, steinsteypt, einangrað að innan, steinað og með viðsnúnu þaki.

Er 10% hækkun óveruleg?
Svar barst þann 19. október frá Mannvirkjastofnun. Þar kom fram að kostnaðarauki á hinum ýmsu liðum væri ýmist enginn eða óverulegur. Að mati fulltrúa SI og Búseta var svarið ófullnægjandi, spurningum ekki svarað nema að hluta og niðurstöður því ekki marktækar. Því fengu SI og Búseti óháðan aðila, Hannarr ehf., til að kostnaðarreikna húsið út frá nýrri reglugerð.

Niðurstaða kostnaðarútreiknings er að byggingakostnaður við sambærilegt mannvirki hækki um 9,6% að lágmarki vegna verulega aukinna krafna um einangrun, stækkun rýma, loftræstingu o.fl. Þá er undanskilinn kostnaðarauki vegna margra atriða sem nákvæmar forsendur liggja ekki fyrir um enn þá, s.s. brunahönnun, hljóðvist, merkingar o.fl. Þá ber að geta þess að hönnun hússins er í mörgum tilvikum vel umfram lágmarksákvæði fyrri reglugerðar. Þar má nefna stærðir rýma, aðgengismál og lyftu í húsinu þó ekki hafi verið krafa um slíkt í eldri reglugerð. Því er ljóst að kostnaðarhækkun hefði orðið enn meiri ef reiknað væri út frá „lágmarkshúsi" skv. eldri reglugerð.

Forgangsröðun
Þau markmið sem fram eru sett í hinni nýju reglugerð lýsa um margt metnaði og framtíðarsýn og ber að hrósa því. Höfundar telja hins vegar að hér sé of stórt skref stigið og ekki hafi verið gefinn nægjanlegur tími til að vinna reglugerðina vel. Nauðsynlegt er að hægja á ferðinni og að markmiðum og breytingum reglugerðar sé forgangsraðað í takt við hagrænar aðstæður. Endurskoðun er ekki síst nauðsynleg með hliðsjón af óhjákvæmilegum og verulegum áhrifum á neysluverðsvísitölu, kaupmátt og skuldsetningu íslenskra heimila. Þá er mikilvægt að horfa til þess umhverfis sem blasir við íslenskum byggingariðnaði, en umfang hans nemur broti af meðalári miðað við síðastliðna áratugi og hafa spár um viðsnúning ekki gengið eftir. Ljóst er að frekari slaki á fasteignamarkaði mun aðeins auka líkur á bólumyndun á komandi árum, en stórir árgangar eru á næstu árum að koma út á íbúðamarkaðinn. Þá er vert að nefna umhverfislega þætti en umfang byggingarefnis eykst að óbreyttu verulega og skýtur það nokkuð skökku við í reglugerð sem ætlað er að tryggja vistvænar áherslur. Hér er mikilvægt að horft verði til séríslenskra aðstæðna, bæði hvað varðar orkunotkun og hvað varðar menningarstefnu yfirvalda í mannvirkjagerð.

Nauðsynlegt er að framlengja bráðabirgðaákvæði 1 sem gefur húsbyggjendum heimild til að byggja mannvirki á ákvæðum eldri reglugerðar. Með þessu gefst ráðrúm til frekari úrvinnslu og aðlögunar reglugerðar. Erindi þess efnis hafa þegar verið send umhverfisráðuneytinu af Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Arkitektafélagi Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands.
Skýrsla Hannarrs ehf. með kostnaðarútreikningum hefur verið afhent forstjóra Mannvirkjastofnunar en það er von SI og Búseta að hún geti nýst sem innlegg í nauðsynlega vinnu við umbætur á nýrri reglugerð. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna á heimasíðum SI og Búseta.

4. desember 2012, Fréttablaðið