Fréttasafn



  • sykur

10. des. 2012

Íslensk iðnfyrirtæki munu bera stærstan hluta vörugjalda á matvæli

Samkvæmt nýju frumvarpi um breytingu á lögum um vörugjald og tollalög er lagt til að vörugjöld á matvæli grundvallist á sykurinnihaldi þeirra. Samtök iðnaðarins deila ekki þeirri skoðun, sem fram kemur í frumvarpinu, að skattlagning sykurs sé vænleg leið til að breyta neysluvenjum þjóðarinnar. Ákveði ríkisvaldið hins vegar að afla tekna með sérstakri skattlagningu matvæla geta SI tekið undir það sjónarmið að skattlagning alls sykurs sé sanngjarnari leið en sú sem nú er við lýði að því gefnu að takist að leggja sambærileg gjöld á sykur í tilbúnum vörum og á sykur sem hráefni.  

 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn samtakanna um frumvarpið. 

Breytt fyrirkomulag við innheimtu vörugjalda af sykruðum matvælum breytir ekki þeirri staðreynd að íslensk iðnfyrirtæki munu bera stærstan hluta vörugjalda á matvæli. Framkvæmd kerfisins sem lagt er til í frumvarpinu er afar flókin og því skiptir öllu að vandað verði til uppskiptingar tollskrárnúmera og álagningar á tilbúnar vörur til að komast hjá mismunun milli framleiðenda og vörutegunda. Eins og frumvarpið er lagt fram hefur þetta alls ekki tekist.

Til að koma í veg fyrir ofangreinda mismunun er bæði framleiðendum og innflytjendum boðið upp á tvær leiðir til að standa skil á vörugjaldinu. Hugmyndin er góðra gjalda verð en gallinn er sá að framleiðendur eru mjög misjafnlega í stakk búnir til að nýta sér þessa valkosti. Í því samhengi benda SI sérstaklega á minni fyrirtæki eins og bakarí sem hingað til hafa ekki þurft að standa skil á vörugjaldi nema að takmörkuðu leyti.

Eins og frumvarpið er lagt fram er ljóst að sykurinn kostar mun meira sem hráefni til framleiðslu heldur en innihald í fullunninni vöru. Því er óhjákvæmilegt að fara rækilega yfir viðauka með vörugjaldslögum og lagfæra þessi hlutföll þar sem þess er þörf. SI leggja til að tíminn fram að gildistöku laganna verði nýttur til þeirrar vinnu og eru tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu.

SI leggja áherslu á mikilvægi þess að draga úr flækjustigi framkvæmdarinnar eins og mögulegt er og telja að besta leiðin til þess sé að sjá til þess að öll innheimta fari fram hjá tollinum en hvati til að framleiðendur innheimti sjálfir og skili vörugjöldum verði í lágmarki. 

Samtökin lýsa yfir vanþóknun á starfi hins svokallaða starfshóps um endurskoðun vörugjalda á matvæli. Fagþekking þátttakenda í hópnum var ekki nýtt til að ná fram faglegri umræðu um markmið og leiðir við álagningu vörugjalda á matvæli. Þess vegna er þessi breyting á kerfinu ekki eins vel undirbúin og hægt hefði verið. 

Umsögnina má lesa í heild sinni hér.