Fréttasafn  • Mannvirki

11. des. 2012

Ákvæði í nýrri byggingarreglugerð þarfnast nánari skoðunar og endurbóta

Umhverfisráðherra hyggst bregðast við ákalli um að draga úr kostnaði vegna nýrra byggingarreglugerðar. Samtök iðnaðarins hafa sent umsögn um breytingarnar til Mannvirkjastofnunar.

Þó að að mjög margt sé til bóta í breytingartillögum á reglugerðinni eru enn ákvæði í henni sem þarfnast nánari skoðunar.

Að mati SI er það ekki þjóðhagslega hagkvæmt að gerð sé krafa um að nánast öll mannvirki skuli hönnuð á grunni „algildrar hönnunar“. SI hafa í því sambandi bent á að skynsamlegra sé að haga málum þannig að hægt verði að hanna og byggja mannvirki eftir einhverskonar flokkun. Það er skoðun samtakanna að þó fallið sé frá ýmsum umdeildum ákvæðum, t.d. um loftræstingu og aukið umfang mannvirkja vegna rýmiskrafna og einangrunar, hefði mátt hugsa málið á heildstæðari hátt.

Það er álit SI að undanþágan sem bráðabirgðaákvæðið heimilar sé afar matskennd, að auki sé hún alfarið í höndum leyfisveitenda sem hingað til hafa hagað málum sínum með mjög mismunandi hætti. SI óttast að þetta geti aukið á óreiðuna í kerfinu.

Vegna óvissu undanfarinna vikna við afgreiðslu leyfa á grunni undanþágunnar og fjölda mála sem nú eru til afgreiðslu óska samtökin eftir því að fresturinn til að sækja um verði framlengdur til 30. júní hið minnsta.

Samtökin leggja einnig ríka áherslu á að sá hópur sérfræðinga sem fjallað hefur um byggingarreglugerðina undanfarið í tengslum við verkefnið „Samstarf er lykill að árangri“ verði falið að yfirfara hana eftir áramót. Þannig getur hin fjölbreytilega byggingagrein öðlast sameiginlegan skilning á þessari viðamiklu og flóknu reglugerð og unnið saman að því að móta hana til framtíðar á eins nytsamlegan hátt og framast er unnt.

Lesa má umsögn SI í heild hér.

Meðal þess sem verið hefur til umfjöllunar í tengslum við hina nýju byggingarreglugerð er kostnaðaraukningin sem hún hefur í för með sér. Samtök iðnaðarins og Búseti létu óháðan aðila, Hannarr ehf., gera kostnaðargreiningu sem leiddi í ljós 10% kostnaðaraukningu. Mannvirkjastofnun hefur ekki verið sammála þessari greiningu. Sigurður Ingólfsson hjá Hannarr ehf. skrifar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Hér má sjá grein Sigurðar.