Fréttasafn  • Nýbyggingar

14. des. 2012

Bráðabirgðaákvæði 1 framlengt til 15. apríl 2013

Umhverfis- og auðlindaráðherra tilkynnti í dag ákvörðun um að verða við kröfum Samtaka iðnaðarins og fleiri hagsmunaaðila um að framlengja bráðabirgðaákvæði 1 í nýrri byggingarreglugerð til 15. apríl 2013.  

 

Vegna ágalla á mörgum ákvæðum reglugerðarinnar og óvissu við afgreiðslu leyfa á grunni undanþágunnar sem bráðabirgðaákvæðið heimilar höfðu samtökin áður óskað eftir því í umsögn að fresturinn til að sækja um yrði framlengdur til 1. janúar 2014 hið minnsta.  

Samtök iðnaðarins hafa beitt sér mjög fyrir því að byggingarreglugerðin verði endurskoðuð og meiri tími og vinna lögð í að gera hana sem best úr garði með samráði stjórnvalda og atvinnulífs. Því fagna samtökin þessari ákvörðun ráðherra og því að skipaður verður vinnuhópur til að rýna í byggingarreglugerðina og vinna að endurbótum á ýmsum ákvæðum hennar. SI gerir ráð fyrir að eiga fulltrúa í þessum vinnuhópi, enda hafa samtökin verið leiðandi í að koma þeim breytingum á sem nú þegar hafa verið gerðar. 

Ráðherra hefur nú ákveðið að koma til móts við þessar kröfur og hefur framlengt bráðabirgðaákvæðinu til 15. apríl. Samtökin hefðu óskað þess að þessi umfangsmesta reglugerð sem sett hefur verið á Íslandi hefði fengið lengri tíma í undirbúning. Með þessu móti gefst þó lágmarksráðrúm til frekara samráðs og jafnframt gefst hönnuðum og byggingaverktökum svigrúm til að laga sig að nýjum reglum.

Að mati SI er það afar brýnt að nýta þennan stutta tíma á eins markvissan hátt og unnt er.