Fréttasafn  • Ian-Pepper

17. des. 2012

Sæfiefni - markaðsleyfi fyrir sótthreinsiefni, viðarvarnarefni og önnur sæfiefni

Vænta má mikilla breytinga á sölu og framleiðslu sæfiefna á næstu árum og tímabært er fyrir fyrirtæki að hefja undirbúning fyrir nýjar reglur um markaðsleyfi. Því er spáð að fjöldi aðila muni hætta að versla með vörur sem falla undir sæfiefnalöggjöf vegna þess hve umfangsmiklar og kostnaðarsamar leyfisveitingar eru. Framleiðendur og innflytjendur sæfivara þurfa að gera upp við sig hvort þeir ætla að taka þennan slag og vera áfram á markaði. Þetta kom fram hjá Ian Pepper á kynningarfundi um nýja löggjöf um sæfiefni, sem haldinn var á vegum SI, SVÞ og Umhverfisstofnunar. Ian Pepper starfar sem ráðgjafi og hefur margra ára reynslu af störfum á sviði varnar- og sæfiefna hjá alþjóðlegum fyrirtækjum.   

 

Sæfiefni (biocides) eru sótthreinsiefni, viðarvarnarefni, rotvarnarefni, útrýmingarefni og gróðurhindrandi efni. Óheimilt verður að markaðssetja án leyfis ýmis algeng sótthreinsandi efni, t.d til nota í matvælaframleiðslu, iðnaði og innan heilbrigðisgeirans. Sama gildir um viðarvarnarefni og rotvarnarefni sem tryggja geymsluþol efna, annarra en matvæla. Nú þegar þarf leyfi fyrir sum sæfiefni, svo sem skordýraeyða og nagdýraeitur, en auknar kröfur verða varðandi upplýsingagjöf.

Tímafrekt leyfisferli

Huga þarf að því að markaðsleyfi þarf fyrir allar vörur sem innhalda sæfiefni, svo það er ekki nægilegt að leyfi sé fyrir virka efninu. Sækja þarf um leyfi í hverju landi fyrir sig á evrópska efnahagssvæðinu og sér Umhverfisstofnun um leyfisveitingar hérlendis. Markaðsleyfi eru veitt fyrir vörur eftir að virku efnin hafa verið áhættumetin og þau komin á svokallaðan jákvæðan lista sem birtur er í reglugerðum. Ian Pepper lagði áherslu á að íslensk fyrirtæki kanni hvort framleiðendur sæfiefna sem þeir versla með ætli að skrá virku efnin því búast má við að einhver efni fari af markaði. Gera þarf samkomulag við framleiðendur um aðgang að gögnum sem nauðsynleg eru vegna umsókna um leyfi hérlendis.  

Einföldun á löggjöf væntanleg

Ian Pepper benti á að strangar reglur um markaðsleyfi hafi gengið ágætlega fyrir skordýraeitur og efni til að nota í garðyrkju enda vöruúrval takmarkað og framleiðendur gjarnan alþjóðleg stórfyrirtæki. Annað gildi um sótthreinsiefni og viðarvarnarefni sem eru víða framleidd af litlum fyrirtækjum sem vinna á nærmarkaði og þau geta síður ráðið við tæknilegar prófanir og kostnað sem fylgir svo umfangsmikilli leyfisveitingu. Fjöldi vara hleypur á hundruðum þúsunda og markaðurinn stendur ekki undir því að skrá þær allar. Fyrirtæki þurfi að vega og meta kosti og galla þess að vera leyfishafi sæfivara. Nýlegum breytingum á löggjöfinni er ætlað að koma til móts við lítil fyrirtæki og væntingar standa til að það auðveldi þeim ferlið.  

Glærur Ians Pepper 

Á fundinum var einnig fjallað um löggjöf hérlendis og starfsemi Umhverfisstofnunar.

Glærur Umhverfisstofnunar