Fréttasafn



  • Mannvirki

10. jan. 2013

Helstu breytingar á byggingarreglugerð

Um áramót tóku gildi allmargar breytingar á nýju byggingarreglugerðinni. Allt frá því að reglugerðin leit dagsins ljós í febrúar hafa Samtök iðnaðarins ásamt aðildarfélögum og fleiri hagsmunaaðilum unnið að því að kynna reglugerðina, greina breytingarnar og meta vægi þeirra á byggingarkostnað. Þessari umfangmiklu vinnu lauk nú skömmu fyrir jól, þegar ráðherra gaf út mildandi breytingar. SI hafa tekið saman yfirlit yfir þær helstu.

Ráðherra gaf út að skipaður verður vinnuhópur sem á að fara yfir reglugerðina í heild sinni og skila tillögum í byrjun apríl. Endanleg byggingarreglugerð á að liggja fyrir 15. apríl 2013 þegar bráðabirgðaákvæðið fellur úr gildi.

SI mun eiga fulltrúa í vinnuhópnum.

SI mun koma á framfæri nauðsyn þess að viðhalda fjölbreytni og sveigjanleika í hönnun eða gerð mannvirkja. Þá munu samtökin leggja áherslu á að öll mannvirki þurfi ekki að uppfylla algilda hönnun. Mikilvægt sé að hugsa til allra hópa, t.d. fyrstu íbúðakaupenda og að halda framleiðslukostnaði í lágmarki.

Ef félagsmenn hafa ábendingar til vinnuhópsins um frekari breytingar eru þeir beðnir um að koma þeim til tengiliða sinna innan SI sem fyrst.

Kröfur til einangrunar verða þær sömu og í gömlu reglugerðinni

Ákvæði um einangrun í 13. kafla reglugerðarinnar breytast og verða efnislega eins og þau voru í eldri byggingarreglugerð. Skýrt er kveðið á um að útreikningur á heildarleiðnitapi skuli ávallt fylgja hönnunargögnum sem afhent eru leyfisveitanda.

Kröfur um loftræstingu sem næst óbreyttar

Skýrari framsetning ákvæða um loftgæði og loftræstingu í 10. hluta reglugerðarinnar. Að stærstum hluta er horfið aftur til eldri reglugerðar.

Bráðabirgðaákvæðinu framlengt til 15. apríl

Heimild bráðabirgðaákvæðis sem leyfir að fylgt sé ákvæðum eldri byggingarreglugerðar með tilteknum skilyrðum er framlengd til 15. apríl 2013 en gildistíminn var til 31.desember sl. 

Aukinn sveigjanleiki vegna breytinga á eldra húsnæði

Við grein 6.1.5 Breyting á þegar byggðu mannvirki eða breyttri notkun er bætt við nýrri málsgrein sem ætlað er að auka sveigjanleika vegna umsókna um breytingar á þegar byggðum mannvirkjum. Leyfisveitandi getur, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita.

Dregið úr kröfum til bílastæða

Stærð bílastæða hreyfihamlaðra minnkar og skal að lágmarki vera 3,8m x 5,0m. Eitt af hverjum fimm bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þó aldrei færri en eitt, skal vera 4,5m x 5,0m með 3m löngu athafnasvæði við endann. 

Sett eru skýrari ákvæði um bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslum. Slík stæði skulu vera til staðar í bílageymslum sem almenningur hefur aðgang að. Meta skal hverju sinni hvort unnt er að koma þeim fyrir í sameiginlegum bílageymslum íbúðarhúsa í samræmi við fyrirkomulag eignarhalds í bílageymslunni. Fækka má bílastæðum á lóð mannvirkis sem nemur fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílageymslu, enda sé tryggt að gestkomendur hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna. 

Breytt orðalag um íbúðarherbergi og sveigjanleiki aukinn

Fellt er niður ákvæði um að a.m.k. eitt svefnherbergi í íbúðum sem eru stærri en 55 m2 skuli vera 14 m2. Stærð skal vera í samræmi við þær innréttingar og húsgögn sem gert er ráð fyrir að verði í viðkomandi herbergi.  

Aðrar breytingar :

  • Ákvæði um breidd gönguleiðar að mannvirkjum breytist og skal vera að lágmarki 1,6m en 1,8m þar sem vænta má mikillar umferðar. 
  • Ákvæði um breidd dyra/hurða eykst úr 0,87m á breidd og minnst 2,07m á hæð í 0,90m á breidd x 2,10m á hæð. Skiptar skoðanir eru meðal byggingamanna hvort þetta ákvæði dragi úr kostnaði eða ekki, en til lengri tíma má ætla að draga muni úr kostnaðaraukanum ef einhver verður. 
  • Lágmarkslengd milli svæða til mætingar hjólastóla (1,8m x 1,8m) á göngum bygginga sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar, þar sem umferð telst fremur lítil, lengist úr 5m í 10m. 
  • Fellt er niður ákvæði um að anddyri íbúða sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skuli vera 1,8m x 1,8m að stærð. Áfram gildir almenna reglan um að í anddyri skuli vera hindrunarlaust svæði a.m.k. 1,5m x 1,5m að stærð.
  • Lítilsháttar breytingar á ákvæðum um breidd stiga – aðeins dregið úr kröfum.
  • Kröfur um lágmarksstærð aukalyftu eru felldar niður en áfram kveðið á um að þær skuli henta til notkunar fyrir fólk í hjólastól.
  • Krafa um viðbótarsnyrtingu í íbúðum stærri en 110 m2 (nettó) er felld niður.
  • Ákvæði um tiltekna lágmarksstærð sameiginlegra bað- og þvottaherbergja felld niður, en sýnt skal fram á að kröfur um aðgengi hreyfihamlaðra séu uppfylltar.
  • Breytt ákvæði um fjölda salerna í skólum, samkomustöðum, á veitingastöðum og í öðrum byggingum sem almenningur hefur aðgang að.
  • Lítilsháttar breytingar voru gerðar á ákvæðum um stúdentagarða.