Fréttasafn  • Borgartún 35

6. feb. 2013

Styrkir og fjármögnun til fyrirtækja

Í síðasta tölublaði Íslensks iðnaðar eru kynntir tveir áhugaverðir kostir til styrkja og fjármögnunar. Annars vegar er um að ræða NOPEF, stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina, og hins vegar verkefnið Átak til atvinnusköpunar, styrkáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Styrkir og fjármögnun til fyrirtækja sem vilja hasla sér völl erlendis

Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn - Nopef hefur að markmiði að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum og efla norrænt samstarf.

Nopef er stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina býður vaxtalaus skilyrt lán og styrki til undirbúningsrannsókna þegar fyrirtæki hyggjast hasla sér völl erlendis og til beinna fjárfestinga í löndum fyrir utan ESB- og EFTA-svæðið. Verkefni eru hafin í  Rússlandi, Kína, Indlandi, Tælandi, Víetnam, Brasilíu, Bandaríkjunum og víðar.

Nopef styður fyrst og fremst verkefni sem efla grænan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra þróun. Verkefnisumsókn skal falla undir a.m.k. eitt af forgangssviðum Nopef sem eru:

  • Grænn hagvöxtur, umhverfistækni og endurnýjanleg orka
  • Nýsköpun, tækni og norrænar framtíðargreinar
  • Heilsa og velferð

Lítil og meðalstór fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn og minni veltu en 50 milljón evrur geta sótt um fjármögnun. Nopef styrkir starfandi fyrirtæki með traustan fjárhag og sem geta sýnt fram á að þau ráði við verkefnið.

Umsóknarfrestir eru 7. febrúar, 4. maí, 24. ágúst og 12. nóvember. Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar eru á vefsíðu Nopef: www.nopef.com

Átak til atvinnusköpunar

Átak til atvinnusköpunar er styrkáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með umsóknarferlinu fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Markmið verkefnisins er að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta. Auk þess að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla og sprotafyrirtækjum. Styrkir geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnisins.

Opnað verður fyrir umsóknir 1. febrúar 2013. Umsóknarfrestur verður til kl. 12 að hádegi 28. febrúar.  Sótt eru á vefsíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á www.nmi.is.