Fréttasafn



  • Okkar_bakari3

8. mar. 2013

Breytingar í stjórn LABAK

Aðalfundur Landssambands bakarameistara var haldinn laugardaginn 2. mars. Auk venjulegra aðalfundarstarfa kom Guðmundur Kjerúlf, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu, á fundinn og flutti erindi um vinnuvernd í fyrirtækjum. Markmið með vinnuverndarstarfi er að stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn heilsutjóni sem kann að stafa af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum, að stuðla að því að starfsmenn fái verkefni við hæfi, stuðla að góðri andlegri og líkamlegri líðan og draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað. Allir vinnustaðir eiga að gera áhættumat. Áhættumatið á að vera skriflegt og aðgengilegt öllum starfsmönnum.

Ýmis hjálpargögn eru til á vef Vinnueftirlitsins, s.s. gátlistar, bæklingar, eyðublöð og fleira, þ.á.m. sérstakir gátlistar fyrir bakarí og ýmislegt sem varðar veitingahús og mötuneyti, ýmsan matvælaiðnað, líkamsbeitingu og félagslegan og andlegan aðbúnað sem bakaríin geta nýtt sér. Guðmundur lagði áherslu á að til að koma vinnunni af stað ættu menn að byrja á einföldum hlutum en taka síðan fyrir stærri og flóknari mál.

Breytingar í stjórn

Jóhannes Felixson var endurkjörinn formaður félagsins. Hjálmar E. Jónsson og  Vilhjálmur Þorláksson voru kornir í stjórn til eins árs og Sigurður Enoksson og Sigþór Sigurjónsson til tveggja ára. Hafliði Ragnarsson og Jón Rúnar Arilíusson gengu úr aðalstjórn en voru kosnir varamenn til eins árs.