Fréttasafn



  • Borgartún 35

22. mar. 2013

Könnun meðal félagsmanna

Samtök iðnaðarins gerðu könnun fyrir Iðnþing meðal félagsmanna þar sem spurt var út í margvísleg atriði er varða viðhorf til samtakanna, starfsskilyrði, efnahagsmál og Evrópumál.

Samkvæmt könnuninni, sem Outcome gerði, segja 54% aðspurða að samtökin standi sig vel en 36% hvorki vel né illa. Um 10% telja SI standa sig illa. Þetta er nokkru betri niðurstaða en sambærileg könnun frá 2012 gefur til kynna en á árunum 2004-2007 var einnig spurt með þessum hætti. Á þeim tíma virðist nokkru meiri ánægja vera með samtökin en segja má að nokkuð sterk fylgni sé á milli ánægju með samtökin og efnahagsástands á hverjum tíma. Einnig var spurt um traust til samtakanna og kemur í ljós að 59% félagsmanna bera frekar eða mjög mikið traust á sama tíma og um 10% bera frekar lítið eða lítið traust.

Útkoma úr margvíslegum bakgrunnsbreytum vekja líka athygli. Um 63% fyrirtækja innan SI eru á höfuðborgarsvæðinu og 37% eru á landsbyggðinni. Rúm 70% fyrirtækja starfa eingöngu á innanlandsmarkaði og tæp 30% flytja út vörur og þjónustu, í mismiklu mæli þó.

Aðstæður í efnahagslífinu

Kannað var hvernig félagsmenn meta aðstæður í efnahagslífinu núna. Tæp 65% félagsmanna telja að aðstæður í efnahagslífinu fyrir atvinnurekstur séu frekar eða mjög slæmar. Um fjórðungur telur aðstæður hvorki góðar né slæmar en 8,4% að aðstæður séu góðar. Þegar spurt var um horfur á  næstu 6-12 mánuðum kemur í ljós að 53% telja að aðstæður muni ekki breytast en 22,5% að þær muni verða nokkru betri. 24% telja að aðstæður verði verri en þær eru núna.

Spurt var hversu mikil eða lítil áhrif gjaldeyrishöftin hafa á rekstur fyrirtækja. Alls segja 29% að höftin hafi hvorki mikil né lítil áhrif, en 49% að áhrifin séu lítil eða engin. Aðeins tæp 20% segja að gjaldeyrishöftin hafi mikil mikil áhrif á reksturinn. Í ljós kemur að þeim mun hærra sem hlutfall útflutnings af heildarumsvifum fyrirtækisins er þeim mun meiri áhrif hafa höftin. 

Spurt var hversu vel eða illa krónan hentar sem gjaldmiðill fyrir þinn atvinnurekstur. Alls sögðust 26% að krónan hentaði vel, 41,2% hvorki vel né illa en 29% illa. Í ljós kemur að fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði telja frekar að krónan henti illa en annars er lítill munur eftir öðrum greinum. Greinilegur munur er á milli byggðarlaga – þannig eru fyrirtæki á landsbyggðinni sáttari með krónuna en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. 

Evrópumálin

Samkvæmt könnun um Evrópumálin sem Capacent Gallup fyrir Samtök iðnaðarins voru um 58,8% landsmanna andsnúnir aðild að Evrópusambandinu en 25,1% hlynnt aðild. Þegar félagsmenn SI eru spurðir með sambærilegum hætti kemur í ljós að 52,8% segjast andvígir aðild en 33% hlynntir. Í báðum hópum eru 15% aðspurðra hvorki hlynntir né andsnúnir. 

Þegar kannað er viðhorf  til aðildaviðræðna kemur nokkur munur í ljós á viðhorfum. Á meðan 54,3% félagsmanna SI eru hlynnt því að ljúka aðildarviðræðum er hlutfallið meðal almennings 43,5%. Á meðal félagsmanna vilja 34,8% hætta viðræðum en 44,6% almennings.

Í könnuninni fyrir samtökin var spurt hvort aðild að Evrópusambandinu væri hagstæð eða óhagstæð fyrir fyrirtækið. Tæp 30% segja að aðild yrði hagstæð en 33% að hún yrði hvorki hagstæð né óhagstæð. Hins vegar segja 14,4% að aðild yrði frekar óhagstæð en 15,3% mjög óhagstæð. 

Í könnun Capacent var spurt hvernig þú myndir greiða atkvæði ef aðild yrði borin undir þjóðaratkvæði núna. Í þeirri könnun sögðust 70% vera á móti aðild en 30% með. Félagsmenn SI voru ekki spurðir þessarar spurningar en óhætt er að gera ráð fyrir á munur á viðhorfum sé ekki mikill. 

Forgangsröðun verkefna

Félagsmenn voru loks spurðir út í forgangsröðun á helstu verkefnum sem samtökin vinna að. Settur var fram listi málflokka og félagsmenn spurðir hversu mikla eða litla áherslu þeir telji að samtökin eigi að leggja á þá. Iðn- og verkmenntun hlaut hæstu einkunn en fast á eftir fylgja vaxta- og peningamál. Ekki má þó túlka niðurstöður þannig að verkefni sem eru neðar á listanum, s.s. umhverfismál, Evrópumál, staðlar o.fl. eigi ekki að vera forgangsverkefni enda skipta skipta ólík verkefni suma félagsmenn miklu máli þó þau vegi minna þegar á heildina er litið.

Ljóst er að að menntamál og almenn efnahagsmál eru félagsmönnum hugleikin. Stefna og áherslur í starfi samtakanna mun taka mið af þessum niðurstöðum og aðferðafræðin nýtt við að fá félagsmenn til að taka aukinn þátt í stefnumótun samtakanna.