Fréttasafn



  • gamathjonustan-iso-vottun

11. apr. 2013

Gámaþjónustan fær ISO 14001 vottun á umhverfisstjórnunarkerfi

Gámaþjónustan hf. hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi hjá fyrirtækinu samkvæmt staðlinum ISO 14001. Fyrirtækið hlaut vottun á umhverfisstjórnunarkerfinu í mars síðastliðnum. Vottunin er staðfesting þess að Gámaþjónustunni hefur tekist að fylgja eftir umhverfismarkmiðum sínum sem koma fram í slagorði fyrirtækisins um bætt umhverfi og betri framtíð. 

Notkun umhverfisstjórnunarkerfis er vaxandi krafa í viðskiptum. Á stefnumótunarfundi starfsmanna sem haldinn var í byrjun árs 2012  kom fram mikill áhugi á verkefninu og naut það mikils fylgis. Í framhaldi af því tók stjórn fyrirtækisins ákvörðun um að hefja innleiðingu á kerfinu.

Gunnar Bragason markaðs- og gæðastjóri Gámaþjónustunnar segir að fyrirtækið hafi ekki mætt verulegum hindrunum í innleiðingarferlinu. Góð kynning á verkefninu fyrir starfsfólk fyrirtækisins sé nauðsynleg því undirbúningur innleiðingar geri kröfu um breytt vinnubrögð og vinnuframlag margra starfsmanna. „Það getur reynst erfitt að breyta viðhorfi starfsmanna, en það reyndist okkur ekki hindrun“ segir Gunnar.

Ávinningurinn af umhverfisstjórnunarkerfi er að sögn Gunnars margvíslegur og ber þar helst að nefna fjárhagslegan ávinning, aukna umhverfisvitund starfsmanna, aukið upplýsingaflæði og samskipti innan fyrirtækis, aukin tækifæri til markaðssetningar auk þess sem starfsmenn eru stoltir af innleiðingunni og breiða út boðskapinn.

Gunnar segir þetta lærdómsríkt ferli sem krefjist fullrar þátttöku allra starfsmanna. „Þrátt fyrir að mikil vinna fari í innleiðinguna í upphafi þá er þetta ferðalag mikill lærdómur fyrir alla starfsmenn.“ Verkefninu í raun aldrei lokið og mikilvægt að fylgja því eftir. Eftir innleiðingu er mikilvægt að vinna að stöðugum umbótum“ segir Gunnar.

Umhverfisstefna Gámþjónustunnar er  sett fram í fimm liðum:

  • Gámaþjónustan er í fararbroddi í flokkun og endurvinnslu úrgangs á Íslandi og stuðlar þannig að aukinni flokkun og endurvinnslu úrgagns viðskiptavina sinna.
  • Gámaþjónustan tekur tillit til umhverfismála og leitast við að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.
  • Gámaþjónustan fylgir lagalegum kröfum á sviði umhverfismála og vinnur eftir umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001 til að tryggja stöðugar umbætur.
  • Í rekstri Gámaþjónustunnar er leitast við að fara vel með auðlindir og tekið er tillit til umhverfissjónarmiða við innkaup.
  • Gámaþjónustan einsetur sér að kynna viðskiptavinum fyrirtækisins gildi úrgangsflokkunar, endurvinnslu og endurnýtingar með það að markmiði að auka flokkun úrgangs og bæta nýtingu auðlinda.

Umhverfisstefnan endurspeglast í öllum verkferlum fyrirtækisins við innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfinu.

Að sögn Gunnars þá er næsta skref að innleiða umhverfisstjórnunarkerfi hjá dótturfélögum Gámaþjónustunnar sem eru víðsvegar um land.