Efla kennslu í tölvuleikjagerð
Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP mun næstu fimm ár kosta stöðu prófessors í tölvuleikjagerð við Háskólann í Reykjavík (HR). Prófessorinn mun bæði sinna rannsóknum og kennslu sem tengjast tölvuleikjagerð.
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir að fyrirtækið hafi síðustu ár notið góðs af samstarfi við háskólana og vilji nú taka samstarfið skrefi lengra. „Við höfum unnið mikið með háskólunum í gegnum tíðina og tókum sem dæmi þátt í myndun áherslusviðs um þróun tölvuleikja við tölvunarfræðideildina í HR. Við höfum verið mjög ánægð með þetta samstarf sem hefur skilað okkur betur undirbúnu starfsfólki auk þess sem okkar fólk sem hefur komið að kennslu hefur lært mikið af því. Von okkar með þessu skrefi er að fleiri líti á þennan farveg sem mögulegan starfsvettvang og þá viljum við styrkja umhverfi tölvuleikjagerðar á Íslandi,“ segir Hilmar um samstarfið.
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir samstarfið smellpassa við stefnu skólans. „HR hefur frá stofnun lagt áherslu á gott samstarf við atvinnulífið. Bæði með því að mennta fólk sem uppfyllir þarfir atvinnulífsins og með því að skapa nýja þekkingu með rannsóknum og nýsköpun,“ segir Ari.
Samkvæmt samningum sem skrifað var undir á föstudag fær HR 10 milljónir króna frá CCP til að koma prófessorsstöðunni á fót og mun CCP svo kosta hana næstu fimm ár. Þá mun CCP veita HR stuðning á tímabilinu, svo sem með aðstoð frá starfsfólki og notkun á tengslaneti fyrirtækisins.
Ari segir að samstarfssamningurinn geri HR kleift að bjóða upp á ýmis námskeið og jafnvel námsbrautir sem skólinn hafi hingað til ekki getað boðið upp á vegna skorts á sérþekkingu.
Á síðustu árum hefur nokkuð farið fyrir umræðu hér á landi um skort á tæknimenntuðu starfsfólki í atvinnulífinu. Spurður hvort CCP sé að bregðast við þeirri stöðu svarar Hilmar: „Algjörlega. Maður getur ekki verið að kvarta endalaust heldur þarf stundum að sýna frumkvæði. Þetta er liður í því enda höfum við ítrekað bent á þessa stöðu sem hefur verið viðvarandi frá því á 10. áratugnum hið minnsta.“