Fréttasafn



  • Kyr_a_beit

27. maí 2013

Á að afnema búvernd?

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um búvernd og hafa sumir kallað eftir afnámi slíkrar verndar, einkum á hvítu kjöti. Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir áhrif þess ekki hafa verið hugsuð til enda og að nauðsynlegt sé að setja umræðuna í samhengi við íslenskan landbúnað í heild sinni.

Vaxandi samkeppni og hagræðing

Á þeim aldarfjórðungi sem Steinþór hefur starfað í greininni hafa orðið miklar breytingar. „Þegar ég hóf störf hjá SS var sauðfé slátrað í fjörtíu og níu sláturhúsum. Síðastliðið haust voru þau átta en þyrftu sennilega ekki að vera nema fjögur. Stórgripum er slátrað á tíu stöðum en það þyrftu ekki að vera nema þrjú til fjögur stórgripasláturhús.“ Steinþór segir vandann liggja í því að sláturhúsin séu í eigu mismunandi aðila og samkeppnisyfirvöld líti á innanlandsmarkað sem sérmarkað sem takmarki möguleika á samþjöppun. „Ég tel að á okkar litla markaði þurfi að leyfa fækkun eininga og samþjöppun til að hægt sé að lækka kostnað enda stöndum við frammi fyrir vaxandi erlendri samkeppni og það er okkur nauðsynlegt að geta hagrætt meira. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að mikil hagræðing á sér stað erlendis og við höldum ekki í við þá þróun nema geta gengið lengra. Hvíta kjötið hefur verið gert að fyrsta skotmarki hjá þeim sem vilja afnám tollverndar og því meira að segja verið gefið nafnið „farþegar“ sem er greinilega samið af almannatengslafyrirtæki eins og þessi áróður allur. Því hefur verið rækilega svarað að eins og hvítt kjöt er framleitt á Íslandi er það hluti af landbúnaðinum og styður við aðrar greinar og kjötvinnsluna.“ Segir Steinþór.

Sérhæfing og verkaskipting

Steinþór segir að kenningar hagfræðinnar um sérhæfingu og verkaskiptingu þjóða virki í fullkomnum heimi þar sem frelsi og traust ríki. „Líklega væri hagkvæmast að margt í veröldinni væri framleitt í Kína og við veiddum fisk og framleiddum endurnýjanlega orku. En heimurinn er ekki fullkominn. Af þessum sökum vilja flest lönd heimsins geta séð um stóran hluta af framleiðslu á matvælum fyrir þegna sína og beita til þess margvíslegum aðferðum, ýmist með beinum eða óbeinum styrkjum eða innflutningstakmörkunum.“ Steinþór segir að í tilfelli Íslendinga sé þetta afstaða sem verði að taka - hvort fólk vilji innlendan landbúnað eða ekki. „Við munum aldrei geta keppt í verði við erlenda aðila og það mun kosta 20-40% meira í vöruverði að viðhalda innlendum landbúnaði en ef opnað væri fyrir innflutning sem mun leiða til hruns innlends landbúnaðar. Ef við fórnum landbúnaðinum þá fylgir fleira. Bændur eru vörslumenn landsins og við verðum ekki með sama land til að selja ferðamönnum ef hluti af sveitum landsins fer úr byggð. Það liggur fyrir að á komandi áratugum verður erfitt að framleiða næg matvæli fyrir æ stækkandi mannkyn og þegar er orðinn skortur á vatni víða. Það væri því að mínu viti mjög misráðið að fórna íslenskum landbúnaði fyrir stundargróða og gráta það síðar“, segir Steinþór að lokum.