Fréttasafn



  • Borgartún 35

29. maí 2013

Að hengja bæði bakara og smið

Hið mæta fólk, þau Margrét Kristmannsdóttir og Andrés Magnússon, forystumenn Samtaka verslunar og þjónustu annars vegar, og Guðni Ágústsson, formaður samtaka fyrirtækja í mjólkur- og kjötiðnaði innan Samtaka iðnaðarins hins vegar, hafa undanfarið deilt á síðum Morgunblaðsins um verslun á Íslandi, landbúnað, iðnað, tolla, matvælaverð og önnur tengd mál. Hefur verið skemmtilegt og fróðlegt að lesa þessi kjarnyrtu skrif og hafa þau öll ýmislegt til síns máls. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem um þessi grundvallarmál er deilt, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í veröldinni.

Atvinnumennska í átökum

Ég hafði ekki ætlað mér að lengja þessa greinaröð, enda er ég ekki viss um að opinbert reipitog milli atvinnugreina færi okkur nær framtíðarlausn í svo mikilvægum málum. Ég skal til dæmis fúslega taka það til okkar, sem vinnum að hag íslensks iðnaðar, að barátta okkar samtaka seint á síðustu öld fyrir sérstakri skattlagningu á aðra atvinnugrein, þ.e. sjávarútveg, reyndist iðnfyrirtækjum ekki til framdráttar. Hið gamla baráttumál um þetta var réttilega aflagt á sameiginlegum vettvangi iðnaðar, en kom samt sem áður til framkvæmda hjá ríkisvaldinu löngu síðar. Hitti það iðnfyrirtækin sjálf verst fyrir, því við þessar breytingar kippti sjávarútvegur að sér höndum og dró úr fjárfestingum og uppbyggingu. Sú kyrrstaða kom beint niður á iðnfyrirtækjum í veiðarfæragerð, búnaðarframleiðslu, málmtækni, hugbúnaði, verktöku og ýmiss konar viðhaldsþjónustu.

Ríkisafskipti um víða veröld

Fyrrgreindar skylmingar milli atvinnugreina, sem að lokum allir töpuðu á, minna um margt á baráttu kollega minna Margréta og Andrésar nú. Af mikill samviskusemi og með markvissum hætti beita þau sér fyrir tiltekinni breytingu á umgjörð landbúnaðarins. Ég er hjartanlega sammála grunnstefi þeirra Margrétar og Andrésar, að skipulag verslunarfrelsis sé vænlegasta umgjörð atvinnugreina og það fyrirkomulag sem líklegast sé til að laða fram verðmætasköpun og hagsæld. Samtök iðnaðarins og forverar þeirra hafa löngum verið í fararbroddi þeirra sem vilja auka slíkt frelsi á sem flestum sviðum, allt frá baráttunni fyrir inngöngu Íslands í EFTA á sjöunda áratug síðustu aldar. Hins vegar er erfitt að finna raunverulegt viðskiptafrelsi, þegar kemur að landbúnaði og matvælaframleiðslu honum tengdri. Á Vesturlöndum er engin atvinnugrein sem hið opinbera skiptir sér jafn mikið af en einmitt landbúnaðarframleiðsla, hún er alls staðar styrkt af skattfé og ýmiss konar sérreglur og vernd gilda um hana. Ákvörðun um að leggja einhliða af tolla eða ríkisstyrki til þessarar greinar á Íslandi væri því ákvörðun um að skattgreiðendur annarra landa greiddu með vörum hingað komnar, án þess að við fengjum aukinn aðgang að öðrum mörkuðum á móti. Við þyrftum því ekki að standa í því sjálf að halda úti landbúnaði. Vera kann að slík skipan sé talin eftirsóknarverð, en þá þarf að segja það upphátt og ræða hreinskilið. Ég átta mig á að Margrét og Andrés eru ekki beinlínis að leggja til að íslenskur landbúnaður verði lagður af, en rétt er að vera raunsæ og skýr um afleiðingar einstakra tillagna.

Alþjóðlegt úrlausnarefni

Vesturlönd hafa á vettvangi WTO og áður GATT reynt að koma sér saman um aukið gagnkvæmt tollfrelsi og minnkandi ríkisafskipti í greininni. Misvel hefur gengið að þoka málum í þessa átt, en þó hefur við og við tekist að rýmka ýmsa þætti. Lönd sem yfirleitt berjast fyrir viðskiptafrelsi og takmörkuðum ríkisafskiptum, eins og Bandaríkin og lykillönd í Evrópu, eru hins vegar jafnan með annan fót á bremsunni þegar kemur að þessari grein. Ber nokkuð á tvískinnungi Vesturlanda gagnvart þróunarríkjum, sem mörg hver eiga helst möguleika á að keppa í sölu landbúnaðarafurða á alþjóðlegum markaði. Vesturlönd verja miklu fé til þróunarhjálpar, en hafa samhliða haldið mörkuðum sínum býsna lokuðum fyrir landbúnaðarafurðum þróunarríkja, til verndar eigin landbúnaði. Viðskipti með landbúnaðarafurðir gætu þó verið mun markvissari leið fyrir fátækari ríki að brjótast til bjargálna, en þróunarhjálp, sem fer til misgóðra nota. Þær deilur sem um ræðir nú hér á landi snúast hins vegar að mestu um viðskipti milli þróaðra ríkja.

Hafa verktakar dávald?

Mínir góðu kollegar, þau Margrét og Andrés, seildust að mínu mati nokkuð langt þegar þau héldu því fram að verslunarfyrirtæki hafi í raun ekki tekið sjálf ákvarðanir um húsnæði sitt. Mikil umræða hefur skapast undanfarið um hve húsnæði íslenskrar verslunar er ofvaxið og margfalt meira en á öðrum Norðurlöndum. Margrét og Andrés segja eina helstu ástæðuna þá að byggingarverktakar hafi í stjórnsemi sinni og í samsæri með skipulagsyfirvöldum troðið öllu þessu rými upp á verslunina. Ég umgengst verktaka afar mikið og þar fara klárlega engar mélkisur, sem maður segir nei við að óathuguðu máli. Hins vegar á ég bágt með að trúa því að kaupahéðnar í verslun séu slíkar geðlyddur, að verktakar hafi getað teymt þá í stórfellda offjárfestingu, gegn þeirra eigin vilja. Heimili og fyrirtæki í hinum ýmsu greinum, sem stækkuðu um of við sig í lánabólunni, geta varla kennt þeim um sem seldu þeim eignirnar eða byggðu þær. Sem fyrr þá efast ég mjög um þá hugmyndafræði að gera eina atvinnugrein ábyrga fyrir mögulegum vandræðum annarrar. Það er ekki svo að ef ein grein tapar þá hljóti önnur að hagnast, nema síður sé.

Sameiginlegt verkefni

Landbúnaðarkerfi Íslendinga er ófullkomið og þarfnast margvíslegra umbóta til lengri tíma litið. Sagan sýnir að slíkar breytingar gerast ekki á einni nóttu né í tómarúmi, aðskildar frá alþjóðlegri þróun á þessu sviði. Væntingar um að lækka megi vöruverð um meira en þriðjung í einu vetfangi, án þess að nokkuð annað láti undan síga, eru fullkomlega óraunsæjar að mínu mati. Nýr formaður SA hefur rætt opinskátt um þessi margbrotnu viðfangsefni og réttilega bent á að íslensk matvælaframleiðsla þurfi að takast á við aukna samkeppni og halda áfram hagræðingu. Hann hefur þó ekki gefið til kynna að hægt sé að smella fingrum og lofa stórkostslegri kjarabót. Er ekki rétt að ný ríkisstjórn, bændur, vinnumarkaðurinn og almenningur reyni sameiginlega að finna farveg fyrir málið, í stað þess að atvinnugreinar kunngjöri syndaregistur hver annarrar?