Fjármögnunarleigusamningar Landsbankans í raun lánasamningar skv. dómi Héraðsdóms Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag í máli Flugastraums ehf. gegn Landsbankanum að fjármögnunarleigusamningar Landsbankans (áður SP Fjármögnunar) væru í raun lánasamningar og því væri gengistrygging þeirra ólögleg. Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að SP fjármögnun hafi í raun veitt Flugastraumi ehf. lán til kaupa á dráttarvél sem SP fjármögnun kaus að klæða í búning leigusamnings til tryggingar réttindum sínum. Dómsmál þetta er eitt af fjölmörgum málum er Samtök iðnaðarins hafa staðið að með ýmsum fyrirtækjum.
Samtök iðnaðarins krefjast þess að fyrirtæki á fjármálamarkaði virði niðurstöður dómstóla og leiðrétti þegar í stað þúsundir ólöglegra fjármögnunarleigusamninga.
Talið er að fjármögnunarleigur hafi gert ólöglega lánasamninga við 2.500 fyrirtæki. Heildarsamningsfjárhæð er óþekkt en leiðréttingar í kjölfar þessara dómsmála hlaupa engu að síður á milljörðum króna. Alls er talið að fjármögnunarleigusamningar hafi verið á bilinu 10 til 15 þúsund.
Dómurinn er samhljóða dómi Hæstaréttar frá 20. október 2011 þegar samningar Íslandsbanka voru dæmdir ólöglegir. Vafaatriði varðandi vaxtaútreikning ólöglegra lána hafa tafið fyrir lokauppgjöri við lántakendur.
SI telja þessa bið allsendis óviðunandi. Skuldastaða fyrirtækja er óljós. Fyrirtækjum er gert ómögulegt að kaupa eða selja framleiðslutæki og tól. Þessi langvarandi óvissa og kyrrstaða er íslensku atvinnulífi fjötur um fót. Fjármálafyrirtækjum ber tafarlaust að endurreikna hin ólöglegu lán miðað við Seðlabankavexti með fyrirvara um betri rétt lántakenda og endurtaka þá útreikninginn ef dómar falla á þá lund. Óvissa vegna þessara mála sl. þrjú ár er hamlandi og tefur fyrir nauðsynlegri endurreisn íslensks atvinnulífs.
„Þessi síðasti dómur kemur okkur hjá Samtökum iðnaðarins alls ekki á óvart. Dómstólar hafa ítrekað komist að sömu niðurstöðu varðandi ólögmæta gengistryggða kaup- og fjármögnunarleigusamninga. Ítrekað hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að þessir leigusamningar hafi í raun verið dulbúnir lánasamningar í erlendri mynt og því dæmdir ólöglegir. Fjármögnunarleigufyrirtækjunum ber því að endurreikna þá án frekari tafa. Samningar Landsbankans voru að engu leyti frábrugðnir öðrum ólögmætum gengistryggðum samningum“ segir Árni Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs SI. „Dómurinn hefur áhrif á viðgang fjölmörg fyrirtæki í alls kyns atvinnugreinum. Samningar af þessu tagi er algengir í framleiðsluiðnaði, verktöku, landbúnaði, fiskvinnslu og svo má lengi telja.“ segir Árni.
HÉR má lesa dóminn
Nánari upplýsingar veita Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs SI, sími 824 6119 og Sigurður B. Halldórsson, lögfræðingur SI, sími 824 6125.