Fréttasafn  • Tækni- og hugverkaþing 2013

5. júl. 2013

Félagsfundur tækni- og hugverkagreina ályktar

Tækni- og hugverkagreinar innan SI sendu í gær ályktun um nýsköpun, nýtingu vaxtartækifæra og eflingu útflutningsgreina framtíðarinnar til allra þingmanna. Samtökin innan þessara greina ásamt Samtökum iðnaðarins óska eftir áframhaldandi samstarfi við stjórnvöld og lýsa sig reiðubúin að að starfa með nýrri ríkisstjórn að vexti og framgangi greinanna.

Í ályktuninni er vísað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a.: „öflugt atvinnulíf er undirstaða vaxtar og velferðar. Ríkisstjórnin mun leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar, auk þess að tryggja jafnræði gagnvart lögum“.

Hlutur tækni- og hugverkaiðnaðar á Íslandi hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og nemur nú um 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Hundruðir frumkvöðla- og sprotafyrirtækja hafa sprottið upp og tugir tæknifyrirtækja hafa náð góðri fótfestu á alþjóðlegum mörkuðum á fjölbreyttum sérsviðum. Aðgangur að náttúruauðlindum takmarka ekki vöxt þessara fyrirtækja – sem fyrst og fremst byggja á mannauði, þekkingu, menntun og alþjóðlegum markaðstengslum. Þrátt fyrir góðan árangur í uppbyggingu þessara fyrirtækja hér á landi er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi fjölda fólks og fyrirtækja á leið úr landi. Þeirri þróun þarf að snúa við hið snarasta áður en í óefni er komið. Gjaldgengur gjaldmiðill án hafta, samkeppnishæft starfsumhverfi og virk tengsl við helstu markaðssvæði gegna þar lykilhlutverki. Stöðvun verkefna t.d. varðandi umbætur í hagtölugerð sem til stóð að fjármagna með IPA-stuðningi væri ekki til þess fallin að bæta upplýsingar um stöðu og þróun greinarinnar.

Framtíðarsýn greinanna er að Ísland verði aðlaðandi miðstöð tækni- og hugverkafyrirtækja sem grunnstoð í útflutningi og jákvæðum viðskiptajöfnuði og samtökin vekja athygli stjórnvalda á 10 verkefnum sem þau hafa lagt til að ráðist verði í til að skapa forsendur fyrir að þessi sýn verði að veruleika.

HÉR má lesa ályktunina í heild.

Umfjöllun um tækni- og hugverkaþing sem haldið var 15. febrúar