Fréttasafn6. sep. 2013

Upplýsingar um hættuleg efni

Löggjöf um efnavörur hefur breyst mikið undanfarin ár. Segja má að aðferðafræði við hættumat efna hafi verið umturnað og nú er ábyrgð á áhættumati á hendi framleiðenda og innflytjenda en ekki stjórnvalda eins og áður var. Í viðskiptum með efni og efnavörur skal upplýsingum um hættueiginleika komið áfram til viðtakenda efnanna, hvort sem þeir nota þau til framleiðslu á eigin vörum eða selja áfram. Á fundi Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Umhverfisstofnunar, þann 5. september var rætt um upplýsingagjöf um efnavörur og skyldur þeirra sem framleiða, flytja inn eða selja efni.

Veistu hvað þú ert með í höndunum?

Bryndís Skúladóttir hjá Samtökum iðnaðarins sagði að sá sem setur efni og efnavörur á markað ber ábyrgð á að þekkja það sem hann er með í höndunum. Öryggisupplýsingar skulu fylgja efnunum og allir þurfa að þekkja efnin sem þeir afhenda eða nota; Framleiðandi, innflytjandi, eftirnotandi, dreifingaraðili, seljandi og notandi. Upplýsingaflæði í aðfangakeðjunni tryggir að allir séu upplýstir. Samskipti við birgja eru mikilvæg til að upplýsingar berist. Þeir sem nota efnin í atvinnuskyni skulu tryggja að upplýsingar um áhættu við notkun efna séu til staðar og fylgja leiðbeiningum um örugga notkun.

Öryggisblöð fá aukið vægi

Maria O‘Shea sem starfar á þjónustuborði ECHA, Efnastofnun Evrópu, kynnti hvernig staðið er að skráningu á hreinum efnum. Það er dýrt og langt ferli að skrá efni og reynslan sýnir að einungis stærri aðilar ráða við það. Varðandi efnavörur þá er það framleiðandi, eða sá sem flytur hana inn á EES svæðið, sem skal afla upplýsinga um hættueiginleika og hvernig nota megi vöru á öruggan hátt. Setja skal upplýsingar fram í öryggisblaði eins og verið hefur um áratugaskeið. Öryggisblöð hafa fengið aukið vægi og farið er fram á ítarlegri upplýsingar en verið hefur. Fyrir sum efni þarf einnig að fylgja öryggisskýrsla þar sem lýst er mismunandi notkunarsviðum.  Öryggisblöð skal útbúa fyrir efni sem flokkast hættuleg. Þau skulu vera á íslensku og afhendast þeim sem nota efnin í atvinnuskyni. Ekki er skylt að afhenda almennum notendum öryggisblöð, þar duga varnaðarmerkingar á vörunni sjálfri sem skulu vera á íslensku.

Ný efnalög

Bergþóra Hlíðkvíst Skúladóttir hjá Umhverfisstofnun fór yfir breytingar í nýjum efnalögum. Þeir sem höndla með efnavörur þurfa að vera meðvitaðir um hvaða vöru þeir eru með og hvaða reglur gilda. Hér að ofan er fjallað um reglur sem gilda um hættuleg efni en því til viðbótar gilda sérstakar reglur um snyrtivörur, sæfivörur, ósoneyðandi efni, varnarefni og fleira. Þar eru ákvæði um m.a. leyfi til markaðssetningar, kröfur um vottanir og bann við notkun tiltekinna efna. Auk þess þarf að sækja um sérstök leyfi til að setja  varasömustu efnin á markað, s.s. krabbameinsvaldandi efni. Eftirlit með efnavörum, skráningar og leyfisveitingar verða að mestu í höndum Umhverfisstofnunar.

Breyttar merkingar

Sú breyting sem almennir notendur munu helst taka eftir er ný varnaðarmerki. Allir þekkja appelsínugulu varnaðarmerkin á umbúðum hættulegra efna. Þau munu víkja fyrir rauðum tígli utan um mynd sem gefur til kynna hvaða hætta er á ferð. Framleiðendur þurfa að huga að endurnýjun á merkingum en gömlu merkin eiga að vera horfin úr hillunum um mitt ár 2017. Nýja kerfið er samræmt milli Evrópu, Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Sá sem markaðssetur hættuleg efni skal tryggja að umbúðir séu merktar á íslensku en söluaðili ber einnig ábyrgð því óheimilt er að selja vanmerktar vörur.

Vakin var athygli á að mikið er til af upplýsingum og kynningarefni á heimasíðum ECHA og Umhverfisstofnunar. Efni frá fundinum má nálgast hér:

Implementing REACH - safer chemicals in Europe - Maria O‘Shea, Efnastofnun Evrópu

Veistu hvað þú ert með í höndunum? - Bryndís Skúladóttir, Samtök iðnaðarins

Ný efnalög og skyldur þeirra sem markaðssetja efni, efnablöndur og hluti sem innihalda efni -Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, Umhverfisstofnun