Fréttasafn



18. sep. 2013

13Al+ Tækifæri sem felast í álframleiðslu á Íslandi

Á ráðstefnunni 13Al+ sem haldin var í Arion Banka 28. ágúst sl. var litið til núverandi stöðu og framtíðar möguleika sem felast í framleiðslu á áli á Íslandi. Ráðstefnan var lokapunktur álverkefnisins 13Al+.

13Al+ hefur að markmiði að efla þekkingu og skilning á efninu áli, með áherslu á umhverfi, nýsköpun, hönnun og tæknimiðlun. Því er ætlað að miðla þekkingu á tækni, iðnaði og iðnaðarframleiðslu milli norrænu landanna en Svíþjóð, Ísland og Noregur eru þátttakendur. Verkefninu er auk þess ætlað að vekja athygli á því að íslenskt ál er framleitt á umhverfisvænni hátt en annars staðar með notkun hreinna orkugjafa.

Ræðumenn voru á meðal þeirra fremstu á sviði viðskipta, álframleiðslu og hönnunar.

Garðar Eyjólfsson hönnuður og verkefnisstjóri 13Al+ fyrir hönd Íslands steig fyrstur á stokk og kynnti myndband sem hann vann um verkefnið.

Jan Stavik, framkvæmdarstjóri hönnunarráðs í Noregi fjallaði um hvernig nota má iðnhönnun sem drifkraft í nýsköpun og viðskiptum.

Rosa M. Garcia Pineiro er framkvæmdastjóri umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismála í frumframleiðslu Alcoa. Hún fjallaði um starfsemi Alcoa á Íslandi og kynnti nýjustu framleiðsluvörur fyrirtækisins.

Johannes Torpe er einn af fremstu hönnuðum Dana. Torpe er þekktur fyrir djarfa, frumlega og framúrstefnuleg hönnun sem spannar frá grafískri hönnun til innanhús- og húsgagnahönnunar. Hann flutti kraftmikinn fyrirlestur um hvernig ál er notað í framleiðslu á hágæða sjónvarps- og hljómflutningstækjum Bang & Olufsen.

Hans Reich fjallaði um Production Leap, þróunarverkefni fyrir minni og meðalstór fyrirtæki sem byggir á hugmyndarfræði um Lean production aðferðafræði - að horfa fram hjá öllu nema því sem skiptir verulegu máli og viðhalda verðmætum með minni vinnu.

Að loknum erindum var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku ræðumanna.

Fundarstjóri var Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Um 13Al+

13Al+ er sam-norrænt og þverfaglegt samstarfsverkefni á milli íslenskra hönnuða og sænskra álframleiðslufyrirtækja sem hófst 2012 og gengur út á að skoða frekari möguleika sem felast í álframleiðslu á Íslandi.

Fimm íslenskir hönnuðir Sigga Heimis, Þóra Birna, Snæbjörn Stefánsson, Garðar Eyjólfsson og Katrín Ólína fóru til Möbelriket og Design Region Småland í Svíþjóð þar sem þau öðluðust frekari verkkunnáttu á áli. Þá þekkingu nýttu hönnuðurnir síðar í samstarfi við íslenska og sænska framleiðendur. Afurðir þeirra voru til sýnis á ráðstefnunni.