Fréttasafn18. sep. 2013

Tækifæri í tækni- og hugverkafyrirtækjum rædd á fundi með ráðherrum

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins og Hátækni- og sprotavettvangs (HSV) funduðu á dögunum með forsætisráðherra, fjármála-  og efnahagsráherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Tilgangur fundarins var að kynna HSV sem öflugan samstarfsvettvang, framtíðarsýn tækni-  og hugverkagreina, verkefni tengd framtíðarsýninni, stöðu greinarinnar, farsæla uppbyggingu og tækifæri í tækni- og hugverkafyrirtækja.

Miðstöð tækni- og hugverkafyrirtækja

Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI gerði grein fyrir HSV samstarfsvettvangnum og mörgum góðum málum sem þar hafa unnist. En vettvangurinn hefur skilað virkari upplýsingamiðlun og samstarfi á milli nýsköpunarfyrirtækja og stjórnvalda.

Svana sagði hlut tækni- og hugverkaiðnaðar á Íslandi hafa vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og nemur hann nú um 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Hundruð frumkvöðla- og sprotafyrirtækja hafa sprottið upp og tugir tæknifyrirtækja hafa náð góðri fótfestu á alþjóðlegum mörkuðum á fjölbreyttum sérsviðum.  „Aðgangur að náttúruauðlindum takmarkar ekki vöxt þessara fyrirtækja – sem fyrst og fremst byggir á mannauði, þekkingu, menntun og alþjóðlegum markaðstengslum. Þrátt fyrir góðan árangur í uppbyggingu þessara fyrirtækja hér á landi er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi fjölda fólks og fyrirtækja á leið úr landi. Þeirri þróun þarf að snúa við hið snarasta – við höfum þegar tapað allt of mörgum fyrirtækjum og allt of mörgum dýrmætum einstaklingum úr landi. Við blasir minni hagvöxtur þetta ár en spár gerðu ráð fyrir, um 1%, sem er hættulega lítill hagvöxtur og gefur til kynna grafalvarlegt ástand í atvinnumálum þjóðarinnar.“

Svana sagði mestu skipta að hafa gjaldmiðil án hafta sem gjaldgengur sé á alþjóðamarkaði, samkeppnishæft starfsumhverfi og virk tengsl við helstu markaðssvæði. Stöðvun verkefnis sem felur í sér bætta hagtölugerð um íslenskan iðnað sem til stóð að fjármagna með IPA-stuðningi væri ekki til þess fallin að bæta upplýsingar um stöðu og þróun greinarinnar.

Í stefnumótun tækni- og hugverkaiðnaðarins kemur fram sú framtíðarsýn að Ísland verði aðlaðandi miðstöð tækni- og hugverkafyrirtækja sem grunnstoð í útflutningi og jákvæðum viðskiptajöfnuði. Fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði hafa mörg hver góða möguleika á vexti og útflutningi og þau hafa möguleika á að skapa verðmæt og vel launuð störf séu réttar forsendur fyrir hendi.

Árangur í uppbyggingu og framtíð tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi

Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri InfoMmentor, sagði frá starfsemi Infomentors og hvað hefur virkað í uppbyggingu fyrirtækisins í íslensku starfsumhverfi og hvað ekki?

InfoMentor hefur nú þegar skapað sér sérstöðu í Evrópu hvað varðar lausnir, stjórnkerfi fyrir skóla, kennara, nemendur og foreldara. Vilborg sagði að það væru gífurleg tækifæri og spennandi verkefni framundan. Fyrirtækið væri í örum vexti og þyrfti viðbótarfjármagn, helst fjármagn með þekkingu, „strategiskt“ fjármagn. Hingað til hafi fjármögnun verið í gegnum NSA, Frumtak og Tækniþróunarsjóð. „Það fjármagn hefur nýst mjög vel og verið algjör forsenda fyrir uppbyggingu Mentors en fyrirtækið hefur ekki burði til að stækka frekar án utan að komandi fjármagns.“ Núna þurfi meira til og því miður væri aðstæður á Íslandi að skemma fyrir, þ.e. gjaldeyrishöft, óvissa og gjaldmiðill sem erlendir fjárfestar treysta ekki. Þegar rætt væri við erlenda fjárfesta væri krafan að flytja höfuðstöðvar fyrirtækisins til útlanda.

Verðmætasköpun og fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði m.a. að kjósendur sem hann hefur verið í sambandi við kölluðu á framkvæmdir um allt land sem skapaði verðmæti og hefðu vaxtarmöguleika. Hann greindi frá nokkrum málum sem unnið er að til bæta starfsskilyrði fyrirtækja. Til að mynda er nú unnið er að því að kortleggja stöðuna í heilbrigðismálum til að finna leiðir til að styrkja heildbrigðisþjónustuna og eins er verið að skoða þau mál sem tengjast gjaldeyrishöftunum. Þar kæmi margt til sem gerði málið flókið, það væru ekki eingöngu aflandskrónurnar, heldur einnig uppgjör þrotabúa bankanna og endurfjármögnun bankanna og atvinnulífsins. Bjarni sagði ríkisstjórnina vongóða um að hægt sé að koma þessum málum á hreyfingu en mikilvægt væri að byggja upp traust eftir óstöðugleika síðustu ára. Nú væri unnið að gerð nýrra laga varðandi fjármögnun ríkis og sveitarfélaga þar sem þörf er á meiri aga.

Bjarni var því sammála að nauðsynlegt sé að fjölga stoðunum í íslensku atvinnulífi, fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði hefðu tækifæri til vaxa erlendis en til þess þurfi fjármagn sem skorti sárlega, sérstaklega í minni fyrirtækjum. Það þurfi að gera lífeyrissjóðum kleift að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum með breytingum á lögum.

Það gerði Bjarni að umtalsefni þær hindranir sem felast í reglum frá EES en svo virðist sem meiri kröfur séu gerðar til Íslands en annara landa sem geta gert mun meira til að styðja fyrirtæki í nýsköpun. Ætlunin væri að heimsækja ESA til að fá betri skilning á þessum málum til hagsbóta fyrir Ísland.  

Áherslur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis

Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnu og nýsköpunarraðherra sagði stærsta viðfangsefnið núna vera hvernig við getum tryggt að fólksflótti verði stöðvaður. Starfsumhverfið þurfi að vera þannig að fyrirtæki geti vaxið. Gjaldeyrishöftin séu hindrun og spurning hvað hægt sé að gera þar til að þeim verður aflétt.

„Það sem greinilega er að virka núna er Tækniþróunarsjóður og endurgreiðslan á R&Þ. Mikilvægi þessara mála er ótvíræð. Við þurfum að einbeita okkur að því sem er virka og einfalda regluverkið.“ Ragnheiður nefndi dæmi af fyrirtæki sem er að fara af stað í ferðaþjónustu og þurfti að  leggja inn 55 umsóknir. Reglur um ívilnanir þurfi að endurskoða en búið er að skemma fyrir þeim með undanþágum. Þá þurfi einnig að setja lög og reglur sem eru einfaldar en standast lög EU. „Við þurfum að bæta starfsskilyrði og koma okkur ofar í samanburði við önnur lönd.“ Sagði Ragnheiður að lokum. 

Umræður

Að loknum framsögum var efnt til umræðna þar sem Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdastjóri SAGA MEDICA, sagði m.a. frá flóknu kerfi varðandi klínískar rannsóknir hér á landi og benti á nauðsyn þess að lyfjalögum væri breytt.

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania nefndi flækjur varðandi tvísköttunarsamninga lagði áherslu á að bæta þyrfti samkeppnishæfni Íslands. 

Dr. Ágústa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri þróunarsviðZYMETECH sagði frá uppbyggingu síns fyrirtækis og mikilvægi Tækniþróunarsjóðs og endurgreiðslunnar fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

Svana Helen óskaði eftir skýrari svörum frá Bjarna um hvenær væri stefnt að því að leggja fram frumvarp um skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa og við hverju mætti búast varðandi framlög í Tækniþróunarstjóðs. Bjarni sagði að fjármögnun fjárfestingaráætlunarinnar frá fyrri ríkisstjórn hefði ekki gengið eftir og Tækniþróunarsjóður hefði átt að fá fjármagn úr henni. Lög um skattaafslátt ætti að klárast fyrir áramót. Bjarni sagðist fylgjandi hugmyndinni um skattaafslátt til handa fyrirtækjum og leyfileg upphæð til frádráttar þyrfti að vera hærri en núverandi tillögur gera ráð fyrir.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri dró fundinn saman og sagði m.a. ýmis tækifæri framundan, t.d. að finna brú á milli fyritækja og lífeyrissjóða, finna leiðir að strategísku fjármagni og koma í framkvæmd áhersluverkerkenfum tækni- og hugverkaiðnaðarins.

Áhersluverkefni tækni- og hugverkagreina til ársins 2016

 • Samstarfsvettvangur hugverkagreina
  Markmið: Tryggja árangursríkt samstarf hugverkagreina, stjórnvalda og þingmanna með markvissa uppbyggingu atvinnulífs að leiðarljósi.
 • Bætt hagtölugerð
  Markmið: Bæta íslenska hagtölugerð, ekki síst í nýjum vaxtargreinum.
 • Tækniþróunarsjóður efldur í 4 milljarða – efling Brúarstyrkja
  Markmið: Efla vænleg og arðsöm rannsókna- og þróunarverkefni fyrirtækja með verðmætasköpun að leiðarljósi. Næsta stórvirkjun þjóðarinnar.
 • Menntastefna til stuðnings atvinnustefnu
  Markmið: Að móta menntastefnu til stuðnings atvinnustefnu. Þannig að menntastefnan og það fjármagn sem til ráðstöfunar er styðji hvort annað og uppfylli um leið þarfir atvinnulífsins.
 • Ímynd - Inspired by Icelandic Innovation
  Markmið: Laða fólk, fyrirtæki og fjárfesta til Íslands og skapa jákvæða ímynd bæði innan lands sem utan. Vefkynning m.a. innan netsamfélaga á íslenskum hugverkaiðnaði, starfsumhverfi og tengslaneti.
 • Laða hæfileikaríkt fólk til starfa á Íslandi – hvatar t.d. í skattakerfinu
  Markmið: Sporna við brottflutningi fyrirtækja og fólks frá Íslandi. Skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir sérfræðinga og sérhæft starfsfólk til að flytja til Íslands – styðja við uppbyggingu fyrirtækja sem þarfnast fólks með sérhæfða þekkingu og hvetja þau til áframhaldandi uppbyggingar á Íslandi.
 • Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum og nýsköpunarsjóðum
  Markmið: Bæta aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að hlutafé, opna möguleika fyrir einstaklinga og sjóði að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum í traustu, heilbrigðu og virku umhverfi. Koma á skipulögðum hlutabréfamarkaði - uppbyggingarmarkaði - fyrir nýsköpunarfyrirtæki.
 • Klasaáætlun um betri þjónustu fyrir minna fé
  Markmið: Að skapa betri og hagkvæmari lausnir til að uppfylla þarfir í mennta-, heilbrigðis- og orkukerfinu og skapa um leið tækifæri til þróunar á lausnum sem eiga erindi á alþjóðlegan markað.
 • Samkeppnissjóðir um betri þjónustu fyrir minna fé í tengslum við fjárlög
  Markmið: Að skapa grundvöll og hvatningu fyrir þróun nýrra lausna í þjónustu hins opinbera og draga úr sóun í formi fastrar áskriftar á fjárlögum án viðleitni til nýsköpunar og umbótastarfs.
 • Afnám gjaldeyrishafta - Höfuðstöðvar íslenskra fyrirtækja á Íslandi – draga úr áhrifum  neikvæðum áhrifum á útflutning frá Íslandi
  Markmið: Að skapa grundvöll fyrir íslensk fyrirtæki í útflutningi að halda höfuðstöðvum sínum á Íslandi og skapa gjaldeyristekjur. Halda fólki og fyrirtækjum á hér á landi.