Fréttasafn



  • Mannvirkjagerd2

24. sep. 2013

Héraðsdómur fallinn í máli Suðurverks gegn Lýsingu

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dag í máli Suðurverks gegn Lýsingu að fjármögnunarleigusamningar Lýsingar væru ekki kaupleigusamningar og því ekki ólögmætir lánasamningar. Dómurinn er ekki í samræmi við fyrri dóma um ólögmæti gengistryggðra fjármögnunarleigusamninga Íslandsbanka og Landsbankans.

Í dómnum er fallist á að sannað sé að samið hafi verið um kauprétt Suðurverks á tækjunum við lok samningstíma. Dómurinn taldi hins vegar umsaminn kauprétt Suðurverks ekki fela í sér kaupskyldu af hans hálfu. Með þessum rökum fer dómarinn hins vegar gegn forsendum Hæstaréttar í svokölluðum Kraftvélaleigudómi, en þar segir Hæstaréttur orðrétt um skil fjármögnunarleigusamninga og kaupleigusamninga: 

„Einn helsti skilsmunur kaupleigusamninga annars vegar og fjármögnunarleigusamninga hins vegar er sá að með kaupleigusamningi eignist leigutaki þann hlut sem er andlag samningsins við lok samningstíma eða eigi kauprétt að honum en við lok lágmarksleigutíma fjármögnunarleigusamnings verði leigutaki ekki eigandi hlutarins án þess að til frekari samninga komi.“

Þá virðist dómarinn einnig fara gegn forsendum dóms Hæstaréttar í svokölluði Smákranamáli þar sem Hæstiréttur segir m.a. orðrétt: 

„Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðilanna.“

Í máli Suðurverks var sannað að samið hafi verið um að fyrirtækið myndi eignast tæki í lok samningstíma gegn ákveðinni greiðslu; Það er niðurstaða dómarans. Sú niðurstaða er í andstöðu við ofangreindar forsendur í Smákranamálinu, sem eru mjög skýrar að það mál hefði unnist ef félagið hefði fært fyllri sönnur á að félagið myndi eignast tæki í lok samningstíma fyrir greiðslu lokagjalds. Á það var fært sönnur í máli Suðurverks og dómarinn því sammála. Dómur hans er því í andstöðu við forsendur þessara tveggja dóma. 

Máli þessu verður strax áfrýjað til Hæstaréttar.