Fréttasafn24. okt. 2013

Málstofa líftæknifyrirtækja

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja – SÍL og Samtök iðnaðarins - SI efna til málstofu um líftækni á morgun 25. október á Grand Hótel Reykjavík kl. 8.15 – 12.00.

Á annan tug líftæknifyrirækja segja frá rannsóknum sínum og starfsemi á málstofunni. Hér er því kjörið tækifæri til að kynna sér fjölbreytileika líftæknifyrirtækja og tækifærin í greininni.

Um allan heim sækjast þjóðir eftir að byggja upp atvinnugreinar sem krefjast hás menntunarstigs, geta staðið undir háum launum og fela í sér hátt hlutfall afleiddra starfa. Líftækni er dæmi um slíka atvinnugrein. Hér á landi eru hugvit og auðlindir fyrir hendi til að byggja upp fjölbreytta og öfluga starfsemi með margháttuð samlegðaráhrif fyrir aðrar atvinnugreinar. Líftæknin er alþjóðlegt vaxtarsvið með möguleika á verðmætasköpun sem getur aflað mikilla gjaldeyristekna fyrir þjóðfélagið.

Líftæknin spannar vítt svið allt frá matvælarannsóknum, heilsu- og rannsóknavörum, lyfjafræði, læknisrannsóknum, vistvænni iðnferlum og hátækniþjónustu. Líftækni nær nú þegar til flestra þátta nútímasamfélags þótt fáum sé það ef til vill ljóst. Einkennandi fyrir líftæknina er að greinin byggist á mikilli þekkingaröflun, rannsóknum og áralangri þróun afurða eða þjónustu. Góð skilyrði fyrir líftæknifyrirtæki eru því samtvinnuð skilyrðum til rannsókna í lífvísindum og tækniþróun. Með þær alþjóðlegu rætur sem íslenska vísindasamfélagið sækir þrótt sinn í, gott tengslanet við útlönd, ásamt frumkvöðlaanda og eljusemi, eru Íslendingar vel settir til að marka sér stöðu meðal annarra þjóða í líftækni.

Dagskrá og skráning