Fréttasafn28. okt. 2013

Þáttaskil í líftækni

Fyrirtæki í líftækniiðnaði hafa vaxið hratt á undanförnum árum og hafið markaðssetningu á fjölbreyttum vörum erlendis. Segja má að þáttaskil séu að verða í líftækni iðnaði nú þegar nokkur fjöldi fyrirtækja hefur þróað tilbúnar vörulínur sem seldar eru víða um heim. Forsendur til vaxtar eru því góðar en huga þarf vel að stuðningsumhverfi greinarinnar. Þetta kom fram á Málstofu líftæknifyrirtækja sem Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja héldu en þar kynntu 15 fyrirtæki starfsemi sína.

Ágústa Guðmundsdóttir, formaður SÍL, sagði í erindi sínu að nauðsynlegt sé að efla þekkingu á síðari stigum nýsköpunar, sérstaklega varðandi markaðssetningu. Annars sé hætta á að missa áratuga þekkingu úr landi og að fyrirtækin haldi erlendis. Líftæknigeirinn er ört vaxandi atvinnugrein sem krefst hás menntunarstigs og felur í sér hátt hlutfall afleidda starfa. Samhliða þessu eru möguleikar á verðmætasköpun miklir. „Þessi fyrirtæki munu taka stökkið, það er bara spurning hvort að þau geri það héðan eða erlendis frá“ sagði Ágústa.

Það einkennir líftækni að rannsóknir og þróun taka langan tíma. Fyrirtækin sem kynntu starfsemi sína eiga mörg hver áratuga langa sögu um rannsóknarstarf og eiga gjarnan rætur í háskólaumhverfi. Góð skilyrði fyrir líftæknifyrirtæki eru því samtvinnuð skilyrðum til rannsókna í lífvísindum og tækniþróun. Aukin áhersla á frumkvöðlaþjálfun á háskólastigi og tenging háskóla við atvinnulíf getur auðveldað ungum vísindamönnum að ná fótfestu í atvinnulífinu. 

Fyrirtækin starfa á ólíkum sviðum, nokkur þeirra framleiða snyrtivörur, heilsuvörur, skráðar lækningavörur eða lyf. Önnur vinna á sviði matvæla, orkulíftækni eða sinna rannsóknarþjónustu. Tenging við aðrar atvinnugreinar er áberandi, s.s. við heilbrigðisgeirann, orkugeira og sjávarútveg. Miklar væntingar eru um betri nýtingu auðlinda og framleiðsla er hafin á verðmætum afurðum úr hráefni sem áður var fargað. En það krefst sérhæfðrar þekkingar að markaðssetja hátæknivörur og byggja þarf upp þekkingu á því sviði hérlendis.

Nú þegar greinin horfir fram á vaxtaskeið blasir við skortur á rannsóknarfé og styrkjum hér á landi. Ágústa telur að aðkoma lífeyrissjóðanna að nýsköpun ætti að vera mun meiri. „Ef að fyrirtæki þurfa að fara í auknu mæli út fyrir landsteinanna þá er alltaf sá möguleiki að þau verði þar eftir. Það er hætta á að missa þessa þekkingu. Það væri í rauninni hálf sorglegt ef við missum þau á síðari stigum þegar þau eru við það að fara að mynda mikinn arð.“

Stjórn SÍL kynnti á fundinum áherslur samtakanna sem finna má hér.

Umfjöllun um fundinn í fjölmiðlum:

mbl.is um Prokatin

mbl.is um Lifeind

mbl.is um SagaMedica

visir.is um líftækni