Fréttasafn



  • Einbýlishús

12. nóv. 2013

Illframkvæmanlegt og óskynsamlegt réttlæti

Fyrir síðustu kosningar voru verðtryggð lán heimila sem höfðu stökkbreyst eitt helsta kosningamálið. Stjórnmálin hafa síðan að verulegu marki einkennst af umræðu um hvernig eigi að efna þetta loforð og fæstir eru nokkru nær. Nýtt fjárlagafrumvarp gefur engin fyrirheit og nýleg skýrsla Seðlabankans um fjármálastöðugleika víkur ekki orði að þessu jafnvel þótt fjármálastöðugleiki og stórfelld niðurfærsla verðtryggðra skulda séu sannarlega ekki ótengd fyrirbæri. Forsætisráðherra hefur þó sagt nýlega að undirbúningur að þessu verkefni sé á ætlun.

Átti ekki að koma á óvart

Enginn vafi leikur á því að verðbólgan og verðtrygging lék fjárhag heimilanna grátt eftir fall krónunnar árið 2008. En þeir sem tóku verðtryggð lán vissu vel að þetta gæti gerst. Þegar fólk tók verðtryggðu lánin vissu allir að höfuðstóll þeirra myndi hækka ef verðbólgan ykist mikið. Og það var skrifað í skýin að verðbólgan myndi á einhverjum tímapunkti rjúka upp. Venjuleg húsnæðislán eru jafnan til 25-40 ára og aldrei í sögunni hafa svo löng tímabil liðið á milli verulegra verðbólguskota. Þetta var því óhjákvæmilegt á einhverjum tímapunkti – þannig er eðli krónunnar. Þeir sem tóku erlendu lánin vissu líka að þau myndu rjúka upp þegar gengi krónunnar félli. Það var líka skrifað í skýin enda er saga krónunnar í reynd samfelld hrakfallasaga þótt krónan hafi átt ágæta spretti um skamma hríð. Stökkbreyting á erlendum skuldum átti því ekki að koma neinum á óvart þótt vissulega hafi þetta verið mikil hækkun á skömmum tíma. Ennfremur gleymist það gjarnan að stór hluti þess vanda sem skuldaleiðréttingu er ætlað að laga er ekki tilkominn vegna verðbólgu og gengisfalls krónunnar heldur vegna óhóflegrar skuldsetningar og rangs mats á greiðslugetu og áhættu.

Úr einni tegund óréttlætis í aðra

En hvers vegna varð skuldaniðurfærsla verðtryggðra skulda heimila heitasta kosningamálið? Skýringin liggur öðru fremur í réttlætiskennd fólks. Það er einfaldlega rangt í hugum flestra að sumir fái niðurfellingu á sínum húsnæðisskuldum á meðan aðrir sitja uppi með þær óskertar. Framsóknarflokkurinn sópaði til sín fylgi fólks með þessa réttlætiskennd og þeirra sem renndu hýru auga til slíkrar leiðréttingar. Þetta er bæði réttlátt og skiljanlegt í hugum flestra. Vandinn er hins vegar sá að það er sennilega óframkvæmanlegt að ná fram þessu réttlæti og í þjóðhagfræðilegum skilningi óskynsamlegt. Skoðum fyrst hið síðarnefnda. Ímyndum okkur að ríkissjóður sé af einhverjum óskilgreindum ástæðum aflögufær um 200 milljarða. Hvernig væri skynsamlegast að nýta þá fjármuni? Ef efna ætti kosningaloforðin kæmi aðeins eitt til greina – að lækka verðtryggðar skuldir þeirra sem urðu fyrir skakkaföllum á árunum 2008-2010. Berum þá nýtingu saman við lækkun á skuldum ríkissjóðs sem er skuldum vafinn og þjakaður af vaxtagreiðslum. Slík aðgerð myndi nýtast öllum landsmönnum jafnt í formi lægri skatta eða meiri þjónustu frá ríkinu. Skynsemin og réttlætið segir manni að allir landsmenn ættu heimtingu á sömu fjármunum frá ríkinu. Hvaða réttlæti væri fólgið í því að afhenda þeim hópi fólks sem tók verðtryggð lán á vissum tíma fjármuni umfram aðra? Væri svona aðgerð ekki bara til þess fallin að flytja samfélagið úr einni tegund óréttlætis yfir í aðra? Niðurfærsla skulda er að miklu leyti aðgerð sem er fólgin í að færa peninga úr einum vasa í annan án þess að nokkur hagnist. Jafnvel þó að það tækist að láta útlendingana borga, þá vakna spurningar um skynsama nýtingu á því fé.

Ósjálfbær hagvaxtarhvetjandi aðgerð

Segjum nú að það sé hægt sé að fara út í skuldaleiðréttingar án þess að valda mikilli samfélagslegri röskun og víðtæk sátt náist um útfærslu. Hver verða efnahagslegu áhrifin og verða þau öll jákvæð? Einkaneyslan er veigamesti þátturinn í landsframleiðslunni og breyting hennar er einn af drifkröftum hagvaxtar. Eitt helsta hreyfiafl einkaneyslu er eigna- og skuldastaðan. Neysla í dag byggir m.a. á væntingum um þróun kaupmáttar, eigna og skulda í framtíðinni. Skuldaniðurfellingar munu óhjákvæmilega kynda undir einkaneyslu í beinu samhengi við umfangið – einkaneyslan verður drifin áfram af auðsáhrifum. Vissulega myndi hagvöxtur aukast en það myndi verðbólga einnig gera. Hækkun vaxta væri líklega óumflýjanleg. Vandinn við þessa tegund hagvaxtar er að hann byggir ekki á aukinni framleiðni eða framleiðslugetu samfélagsins. Svona hagvöxtur mun ekki auka fjárfestingar að neinu ráði sem er forsenda aukinnar framleiðslugetu til framtíðar. Svona hagvöxtur mun heldur ekki geta grundvallað raunverulegar kjarabætur nema að takmörkuðu leyti. Hér yrði fyrst og fremst um að ræða einskiptis hagvaxtar- og neyslubólu sem myndi skila takmörkuðu framlagi inn í framtíðina. Ennfremur er ekkert sem kemur í veg fyrir að skuldir geti ekki stóraukist aftur vegna verðbólgu.

Hvað á þá að gera?

Þáverandi formaður Evrópuráðsins Jean Claude Junker sagði eitt sinn um stöðuna í efnahagsmálum: „Við vitum allir hvað þarf að gera. Hins vegar vitum við ekki hvernig við ætlum að ná endurkjöri ef við gerum það.“ Að mörgu leyti á það við um stöðuna í skuldamálum heimilanna á Íslandi. Lausnir sem tryggja hag heimilanna til lengri tíma felast fyrst og fremst í tryggja efnahagslegan stöðugleika og koma í veg fyrir stökkbreytingu á skuldum. Í pólitískri umræðu er hins vegar takmarkaður áhugi á slíku enda gætu slíkar aðgerðir falist í því að endurskoða stöðu íslensku krónunnar. Það hagsmunamál heimilanna er hins vegar ekki á dagskrá.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI

Birt á mbl.is 8. nóvember 2013