Trúin á manninn
Við erum til orðin vegna annarra. Sjálf áttum við engan þátt í því. Okkur hlotnaðist lífið sem gjöf og allt í lífinu er fengið að láni. Okkur er skammtaður tími. Um þetta hugsum við gjarnan á allra heilagra messu sem nú er nýliðin, og þá einnig um allt það góða fólk sem gengið er og við minnumst fyrir allt það sem það gerði fyrir okkur, allt sem það var okkur í lifanda lífi. Við slíkar hugrenningar styrkist með okkur það hlutverk að vera sjálf eftir bestu getu öðrum til gagns og gleði.
Heimspekin glímir við að útskýra hver maðurinn er. Er hann agnarlítill í gangverki alheimsins, eins og hann virðist vera í augum stjarnfræðingsins? Eða er hann meistaraverk, eins og Hamlet Danaprins segir í verki Shakespeare´s?
Matið á manninum og hlutverki hans hefur löngum verið mótsagnakennt. Viðmið og mælikvarðar hafa verið með ýmsu móti. Svo langt aftur sem rekja má sögu mannsins hafa öfgar togast á í huga og atferli hans. Hann hefur gert sér grein fyrir smæð sinni í stórum heimi og eigin dauðleika. Maðurinn hefur numið veröld sína með hjálp vitsmuna sinna. Í huga sér hefur hann jafnframt eignast enn aðra heima, rýmri en þá jörð sem hann byggir og stjörnum hærri.
Í kristnum skilningi er maðurinn skapaður af Guði og hefur þegið af honum vald yfir náttúrunni. Maðurinn á, innan sinna takmarkana, að bera mót höfundar síns og líkjast honum. Verk hans eiga að vera góð og leiða til góðs. Trúin á manninn er eitt af höfuðeinkennum kristindómsins og hornsteinn kristinnar bjartsýni. „Trúðu á tvennt í heimi, tign sem æðsta ber, Guð í alheims geimi, Guð í sjálfum þér,“ orti skáldið Steingrímur Thorsteinsson. Kristur boðaði takmarkalausa möguleika mannsins og hann var bjartsýnn á eðli hans. Ef lifað er samkvæmt kristnum gildum hljótum við því að vera bjartsýn á framtíð mannsins.
Að stofna eigið fyrirtæki
Það er ekki síst í rekstri fyrirtækja sem skiptir máli að vera bjartsýnn og sjá lífið með jákvæðum augum. Að sjá færar leiðir og lausnir, sjá tækifæri og möguleika. Lífsviðhorf manns sem þannig hugsar er líklegra til að skila honum fram á við en hins sem aðeins sér hindranir og hræðist ógn. Við fæðumst bjartsýn og forvitin um lífið, þótt með árunum dofni þessir þættir hjá flestum. Framkvæmdagleðin og frumkvöðlaeðlið er oftast greinilegra hjá ungu fólki en því eldra. Áhuginn á að gera hugmyndir að veruleika og bæta um leið heiminn er dýrmætur eiginleiki mannsins. Viðleitni hans til nýsköpunar er andsvar við stöðnun og hrörnun. Nýsköpun er hægt að ástunda á öllum sviðum lífsins, í eigin lífi til frekari þroska jafnt og til eflingar og vaxtar í fyrirtækjum.
Það eru góðar fréttir sem nú berast okkur á Íslandi að ungar konur og karlar hafi jafnan áhuga á að stofna eigiðfyrirtæki. Slíkur áhugi gefur ástæðu til bjartsýni um framtíð lands og þjóðar. En miklu varðar að ungu fólki sem vill sækja fram séu búin sem best skilyrði til starfa. Þar er menntakerfið mikilvægt og þá sömuleiðis að gera sér grein fyrir að unga fólkið okkar menntar sig til starfa sem geta verið afar frábrugðin þeim sem við höfðum sjálf í huga við okkar starfsval. Könnun sem fyrirtækið Capacent gerði nú í september fyrir Samtök atvinnulífsins leiðir í ljós að tæpur helmingur fólks á aldrinum 18-24 ára hefur mikinn eða nokkurn áhuga á að stofna eigið fyrirtæki. Ekki er marktækur munur á svörum fólks eftir kyni í þessum aldurshópi. Viðhorfið er annað ef allir aldurshópar eru skoðaðir. Þá vilja 49% karla stofna eigið fyrirtæki en aðeins þriðjungur kvenna. Jafnræði kynjanna í þessu efni meðal hinna yngri ber vott um þróun í rétta átt. Þetta vekur vonir um að í náinni framtíð megi vænta breytinga í atvinnulífinu og á vinnumarkaðnum, sem hefur til þessa verið mjög kynskiptur.
Viljinn til góðra verka
Viljinn til að stofna eigið fyrirtækið helst í hendur við viljann til að hafa stjórn á eigin lífi og móta umhverfi sitt eftir föngum. Það krefst áræðis og í því felst áhætta sem ungt og vel menntað fólk hlýtur að íhuga vel og búa sig vandlega undir. Eigi stærstu draumarnir að verða að veruleika getur reynst nauðsynlegt að fá fleiri til liðs við sig, semja með fleira en eigin hag að leiðarljósi, afla aukins fjármagns og stofna til nýrra viðskiptasambanda. Gera áætlanir til langs tíma, aðlaga stöðugt og breyta áætlunum eftir því sem fram vindur, nýjar áskoranir vakna á hverjum degi, sigrar og ósigrar, en stefna ávallt áfram að settu marki. Aðeins þannig næst árangur. En gleði frumkvöðulsins er engu lík og lífsganga hans snýst oft ekki um að ná hæsta tindi heldur miklu heldur um að eiga tilgangsríkt líf. Þáttur í því er að láta aðra njóta árangurs með sér.
Nú reynir á að vel takist til við mótun atvinnuskilyrða og framtíðaruppbyggingu iðnaðar á Íslandi. Velferð okkar mun á því byggjast og lífskjörin á komandi árum. Ungt fólk sér tækifæri í stofnun fyrirtækja hér á landi – og það er frábært. Það má bara ekki gleymast að hafa náungakærleikann – og síðan siðvitið – með í bland við hugvit og verkvit; nýta vitsmuni mannsins til góðra verka. Þá mun okkur farnast vel.