Fréttasafn29. nóv. 2013

Vöxtur fyrirtækja og frumkvöðla kallar á rétt umhverfi

„Við Íslendingar stöndum frammi fyrir fjölmörgum áskorunum, en erum líka mjög lánsöm. Vegna starfa minna er ég mikið á ferðinni erlendis, en alltaf þegar ég kem heim, sé ég hvað við eigum efnilega og flotta sprota og vaxtarfyrirtæki, sem svo sannarlega eiga möguleika á því að vaxa og dafna svo fremi sem þeim er búið umhverfi, sem byggir á stöðugleika, aðgengi að menntuðu fólki og fjármagni,“ sagði Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentor og stjórnarformaður Íslandsstofu við setningu málstofa, sem fram fóru á Grand Hótel Reykjavík í dag, fimmtudaginn 28. nóvember og voru haldnar í tilefni af SME Week, Evrópsku fyrirtækjavikunni. Vilborg er talsmaður SME Week á Íslandi.  

„Viltu vaxa?“ var yfirskrift viðburðarins, sem innihélt fjórar málstofur um útflutning, tengslamyndun, fjármögnun og rannsóknir og nýsköpun. Vöxtur í víðum skilningi var því þemað að þessu sinni og málstofugestir voru á einu máli um að ekki væri nóg að einblína á vaxta- og veltutölur fyrirtækjanna enda væri persónulegur vöxtur og velferð sjálfra frumkvöðlanna ekki síður mikilvægur þáttur í allri sköpun.

SME Week í 37 Evrópulöndum

Undanfarin fjögur ár hefur ein vika á ári verið helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu undir yfirskriftinni SME Week eða Evrópska fyrirtækjavikan. SME Week er haldin á vegum framkvæmdastjórnar ESB í 37 Evrópulöndum dagana 25.-30. nóvember. Markmið vikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig að ræða mikilvægi frumkvöðla og hvetja fleiri, sér í lagi ungt fólk, til að fara út í frumkvöðlastarf og síðast en ekki síst að veita frumkvöðlum viðurkenningu fyrir framlög sín til velferðarstarfa, nýsköpunar og samkeppnishæfni Evrópu. Samstarfsaðilar framkvæmdastjórnar ESB og framkvæmdaraðilar vikunnar á Íslandi eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofa, Rannís, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Þessi samstarfshópur úr íslenska stoðkerfinu hefur á þessum árum blásið í lúðra og haldið sameiginlegan viðburð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi. 

Mikill kraftur býr í íslenskri þjóð

Að mati Vilborgar býr sérstakur kraftur í íslenskri þjóð, sem hún sagði að kannski hefði eitthvað með umhverfið og veðrið að gera. Sá kraftur væri nauðsynlegur í alla nýsköpun og uppbyggingu fyrirtækja.  „Í McKinsey-skýrslunnni, sem kynnt var fyrir um ári síðan, kom fram að ef við Íslendingar ætluðum okkur að vera í hópi þeirra þjóða, þar sem lífskjör eru hvað best í heiminum, þá yrðum við að byggja upp þekkingarfyrirtæki, sem geta farið á erlenda markaði og safnað gjaldeyri. Greinilegt er hvar vaxtarfærin okkar liggja, samkvæmt McKinsey. Við erum með sjávarútveg í heimsklassa. Við eigum orkuna, sem þarf að huga að. Við erum með ferðaþjónustu, sem fer sífellt stækkandi. Og við erum með vaxtarfyrirtæki, sem byggja á nýsköpun og framþróun. Við þurfum að hlúa að þessum geirum til þess að geta verið með heilbrigðis- og menntakerfi í heimsklassa. Við höfum alla möguleika á því að setja okkur það markmið að vera með besta menntakerfi í heimi. Til að við náum að halda í hagvöxtinn og vera meðal fremstu þjóða, þurfa frumkvöðlar, fyrirtæki og fjárfestar að taka höndum saman til þess að láta þessa draumsýn rætast því við viljum vaxa á alla kanta,“ segir Vilborg.

Sem talsmanni SME Week á Íslandi, sótti Vilborg SME Week í Brussel í fyrra þar sem Evrópusambandið kynnti stefnu og áherslur um lítil og meðalstór fyrirtæki og frumkvöðlar deildu reynslu sinni, gleði og sorgum. „Þar bar við kunnuglegt stef. Mikil umræða spannst um menntun og mikilvægi þess að huga að því hvers konar menntun við erum að bjóða fólkinu okkar. Skortur á tæknimenntuðu fólki bar einnig á góma. Rætt var um hvað væri til ráða til að fjölga kvenfrumkvöðlum, sér í lagi í tæknigeiranum. Og menn ræddu aðgengi að fjármagni,“ segir Vilborg og bætti við að þetta væru allt áskoranir, sem ættu við á Íslandi. Áskoranirnar væru hinsvegar kannski örlítið fleiri á Íslandi en annars staðar því í Brussel ræddu menn ekki gjaldeyrishöft, háa vexti eða íslensku krónuna.

Fjörugar umræður í fjórum málstofum

Í málstofu um útflutning töluðu Erlendur Steinn Guðnason, framkvæmdastjóri Stika, Inga Jessen, MSc í alþjóðaviðskiptum, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop og Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga. Málstofustjórinn Erlendur Steinn sagði í samantekt að líkja mætti áformum um útflutning við undirbúning maraþonhlaups. „Það þarf að skilgreina nákvæmlega hvaða árangri hlauparinn ætlar að ná og á hve löngum tíma. Það þarf að leita ráða hjá öðrum, sem hafa farið í svipaða vegferð áður, afla gagnlegra upplýsinga, vinna undirbúninginn vel og afla góðra samstarfsaðila. Útflutningur er vissulega langhlaup og gerist ekki á einni nóttu. Menn þurfa að vera tilbúnir í langt ferðalag til að koma vöru sinni á framfæri erlendis.“

Í málstofu um tengslanetið töluðu Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Norður & Co., Hildur Steinþórsdóttir, sem er í hönnunarteyminu „Klettur bekkur“, Arnheiður Hjörleifsdóttir, ferðafrömuður í Hvalfirði, og Haukur Guðjónsson, framkvæmastjóri Búngaló. Í samantekt málstofunnar sagði Garðar að tengslanetsmyndun snúist um að mynda langtíma sambönd sem byggðust á einlægni og heiðarleika auk sífellds endurmats á eigin getu og hæfni. „Öll tengslamyndun byrjar út frá manni sjálfum þar sem spurningarnar eru „Hver er ég?“, „Fyrir hvað stend ég?“ og „Hvern þekki ég?“ Og svo er mikilvægt að mynda tengsl á ólíklegustu stöðum með ólíklegasta fólki þar sem tveir heimar skarast. Í slíkum jarðvegi verða til nýjar hugmyndir og samskipti verða í fara í báðar áttir. Í þessu samhengi gefur klasasamstarf og aðstaða á setri góða möguleika fyrir ólíka geira að mynda tengsl, en fyrst og fremst snýst tengslamyndun um fólk og það að vera maður sjálfur“

Í málstofu um fjármögnun töluðu Árni Þ. Árnason, framkvæmdastjóri Oxymap, Ýmir Örn Finnbogason, fjármálastjóri Plain Vanilla, Guðmundur F. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keresis og Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGo. Málstofustjórinn Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður nýsköpunar- og stefnumótunarsviðs Samtaka iðnaðarins, sagði í sinni samantekt að mönnum væri gjarnan tíðrætt um stíflur á milli fyrirtækja og frumkvöðla í leit að fjármagni og svo fjármagnseigenda í leit að góðri arðsemi.  „Við eigum lífeyrissjóði, sem virðast hafa ótrúlega góð tök á því að finna sér lélegar fjárfestingar. Það þarf hinsvegar ekki nema smá neista til þess að kveikja á þeirri miklu orkusprengingu, sem getur orðið, ef fjármagnið og frumkvöðlarnir vinna saman því íslenska orkan er vissulega til staðar. Við þurfum bara að ná að beisla hana. Þeir Ýmir hjá Plain Vanilla og Guðmundur hjá Keresis sýndu fram á dæmi þar sem vel hefur tekist til með fjármögnun og sögðu grunn þess árangurs vera góða undirbúningsvinnu, öflugar viðskiptaáætlanir og óbilandi trú á viðskiptahugmyndina. Sú trú hafi smitast yfir til fjárfesta, sem hafi séð sér hag í að taka þátt í árangrinum.

Í málstofu um rannsóknir og nýsköpun töluðu Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknastjóri Zymetech, Björn L. Örvar, framkvæmdastjóri hjá ORF Líftækni, Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks og Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical. Fyrirlesarar fóru í gegnum þróunarsögu fyrirtækjanna, miðluðu reynslu sinni af stoðumhverfinu og voru sammála um að styrkir til þróunarvinnu væru fjárfesting til framtíðar. Málstofustjórinn Sigurður Björnsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís, sagði að vandamálið, sem við væri að glíma, væri skilningsleysi stjórnvalda. „Það er verið að samþykkja nýja stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem talað er um að auka þurfi fjárfestingu í rannsóknum og þróun og að auka þurfi alþjóðastarf. Hinum megin við borðið er verið að skera niður. Það er því mikil þversögn í stefnu annars vegar og framkvæmd hinsvegar. Það er ljóst að ef við ætlum að standa við 3-4% hagvöxt á ári, þarf að ýta undir nýsköpun. Nýsköpun er forsenda hagvaxtar.“