Fréttasafn



  • SHB2012

9. jan. 2014

Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar

Evrópskt efnahagssvæði í 20 ár

Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar

Evrópskt efnahagssvæði í 20 ár

Nú í ársbyrjun 2014 eru 20 ár liðin frá því Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Um er að ræða sameiginlegt markaðssvæði 31 Evrópuríkis sem komið var á með hinum svonefnda EES-samningi 1. janúar 1994.

Aðgangur Íslands að innri markaði Evrópu hefur haft afar mikla þýðingu, bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Sem dæmi um breytinguna má nefna  að Íslendingar þurftu landvistar- og atvinnuleyfi utan Norðurlandanna hvort sem þeir leituðu utan til vinnu eða náms. Stundum fengust ekki þessi leyfi. Nú þykir Íslendingum það sjálfsagt að flytja til annarra Evrópulanda vegna náms eða vinnu um lengri eða skemmri tíma. Með EES-samningnum voru Íslendingum tryggð frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsir fjármagnsflutningar, sameiginlegur vinnumarkaður og þar með frjálsir fólksflutningar. Oft er vísað til þessara þátta sem hins svokallaða fjórfrelsis.  

Fyrir daga EES-samningsins höfðu menn einkaumboð á Íslandi fyrir ýmsar vörur sem þýddi í mörgum tilvikum að einokun ríkti með einstakar vörutegundir. Með EES-samningnum voru í fyrsta sinn innleiddar samkeppnisreglur sem veita neytendum nokkra vernd gegn einokunartilburðum. Sem dæmi um ófrelsið sem hér ríkti var að útflutningur sjávarafurða var háður leyfum ríkisins og var ekki að því hlaupið að fá slík leyfi. Þetta var lagfært stuttu áður en samningurinn gekk í gildi. Afleiðingar þessa liggja m.a. í því að Íslendingar höfðu litla reynslu af frjálsum alþjóðlegum viðskiptum sem geta verið mjög ábatasöm. Líklega gætir afleiðinganna ennþá. Með hinum nýju gjaldeyrishöftum eru alþjóðleg viðskipti með þátttöku aðila á Íslandi orðin afar erfið og dæmi eru um fyrirtæki á þessu sviði sem hafa neyðst til að flytja starfsemi sína úr landi.

Samtök iðnaðarins 20 ára

Það er engin tilviljun að Samtök iðnaðarins á Íslandi tóku til starfa nákvæmlega sama dag og EES-samningurinn tók gildi. Stofnun samtakanna tók reyndar talsverðan tíma og krafðist vandaðs undirbúnings og mikillar faglegrar vinnu. Leysa þurfti ýmis erfið þrætumál og leggja varð minni hagsmuni og sérhagsmuni til hliðar. Það voru hinir stóru og sameiginlegu hagsmunir sem réðu því að það tókst að mynda stærstu samtök fyrirtækja á Íslandi.

Með stofnun Samtaka iðnaðarins skapaði íslenskur iðnaður sér sameiginlegan vettvang til að vinna að hagsmunamálum iðnaðarins og um leið sköpuðu fyrirtækin innan samtakanna sér stöðu sem samræmdist mikilvægi framlags þeirra til þjóðarbúsins. Menn töldu þá sem nú mikilvægt að snúa bökum saman í sókn á opna alþjóðlega markaði. Ennfremur töldu menn samtakamáttinn mikilvægan gagnvart innlendum stjórnvöldum, afl til að styrkja stöðu iðnaðarins andspænis hagstjórninni innanlands. Eitt af þeim málum sem heitast brann á stjórnendum fyrirtækja þá var sveiflujöfnun í íslensku efnahagslífi, þannig að gera mætti áreiðanlegri rekstraráætlanir. Eins og vel er þekkt, hefur enn ekki tekist að jafna efnahagssveiflur á Íslandi. Þar til það tekst búa íslensk fyrirtæki við lakari rekstrarskilyrði en samkeppnisaðilar þeirra erlendis sem kemur fram í lakari lífskjörum.

Innri markaður ESB

Víkjum nú aftur að Evrópska efnahagssvæðinu. Aðild að EES eiga öll 28 aðildarríki Evrópusambandsins, sambandið sjálft og 3 aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Sviss er eina EFTA-ríkið sem stendur utan EES þar sem aðild að samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi.

EES-samningurinn veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu. Fjórfrelsið svokallaða gildir á öllu svæðinu. Að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála – svo dæmi séu tekin.

Samkeppnisstaða Íslands

Nú í ársbyrjun 2014 er brýnt að koma auga á og nýta tækifæri til atvinnuuppbyggingar, nýsköpunar, verðmætasköpunar og aukinnar framleiðni – í hvaða atvinnugrein sem er. Fyrirtæki landsins og það fólk sem þar starfar eru hinir eiginlegu skaparar verðmætanna sem lífskjör þjóðarinnar byggja á. Annað eru afleiddar stærðir. Þó er til lítils að framleiða verðmæti ef ekki er hægt að koma þeim í verð á markaði. Þess vegna skiptir aðgangur að innri markaði Evrópu höfuðmáli fyrir lífskjör Íslendinga.

Evrópusambandið er í mikilli þróun og um leið er EES-samningurinn að úreldast smátt og smátt. Gott dæmi um það er fríverslunarsamningur ESB við Bandaríkin, sem Íslendingar munu ekki eiga aðild að. Við sem á Íslandi búum þurfum ekki aðeins að verjast heldur jafnframt að sækja fram og ná að nýta tækifærin sem bjóðast í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni, m.a. um fólk og fyrirtæki. Lífskjör okkar í framtíðinni byggjast á því að við stöndum okkur í þessari miklu samkeppni.

Til mikils að vinna

Það voru mistök að slíta aðildarviðræðunum við ESB, sem geta orðið þjóðinni dýrkeypt. Það hefði átt að leiða þær til lykta og fyrir því eru margar góðar ástæður. Sú fyrsta er sú að málið er og verður þrætuepli þar til úr því fæst skorið hver vilji þjóðarinnar er með atkvæðagreiðslu um samning sem liggur fyrir. Önnur ástæða er sú að okkur er einfaldlega hollt að rýna okkur til gagns þær kröfur sem ESB-ríkin gera til sambandsríkja sinna um góða hagstjórn. Á því byggir stöðugleikinn sem fyrirtækin innan Samtaka iðnaðarins hafa barist fyrir í 20 ár. Sannarlega er til mikils að vinna ef við getum bætt okkur í því efni. Ekki er víst að EES-samningurinn reynist það bjarg sem Íslendingar þurfa að byggja á til að tryggja aðgang að innri markaði Evrópu. Bregðist hann verður samningsstaða okkar  mun verri en nú er. Lífskjör munu snarversna og frelsi landsmanna meðal þjóða stórskerðast. Því þarf ríkisstjórnin að breyta stefnu sinni gagnvart ESB-umsókninni og hefja aðildarviðræðurnar á ný. Að þeim loknum getur þjóðin tekið afstöðu í einu afdrifaríkasta hagsmunamáli sínu.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins

Birt í Kjarnanum 9. janúar 2014