Mikill kraftur á Litla Íslandi
Fullt var út úr dyrum á morgunfundi Litla Íslands sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í morgun. Litla Ísland er vettvangur smárra fyrirtækja sem vinna saman óháð atvinnugreinum. Á undanförnum vikum og mánuðum hefur Litla Ísland unnið að viðtækri stefnumótun. Niðurstöðum þeirrar vinnu má lýsa í einni setningu: Stóra lausnin í atvinnumálum þjóðarinnar er smá.
Einhverjum kann að þykja þetta brött ályktun en samkvæmt könnun sem gerð var fyrir Litla Ísland síðastliðið haust þá vilja lítil fyrirtæki á Íslandi fjölga störfum um 14.000 á næstu 3-5 árum. Verkefnið er vel viðráðanlegt því um helmingur fyrirtækjanna gerir ráð fyrir að fjölga um 2-4 starfsmenn á næstu árum.
Árið 2012 greiddu lítil fyrirtæki (með allt að 50 starfsmenn) 44% heildarlauna í atvinnulífinu eða 244 milljarða. Útreikningar Samtaka atvinnulífsins sýna að gangi áform litlu fyrirtækjanna eftir um fjölgun starfa munu launagreiðslur þeirra aukast um 60 milljarða og nema rúmlega 300 milljörðum á hverju ári.
14.000 ný störf þýða ...
- Launagreiðslur hækka um 60 milljarða
- Tekjur hins opinbera af tekjuskatti og útvari hækka um 25 milljarða m.v. ca. 40% skatt
- Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi hækka um 5 milljarða
- Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti hækka um 7 milljarða vegna aukinnar neyslu
Af þessum 60 milljörðum fá ríkið og sveitarfélög að lágmarki 37 milljarða króna til baka, um tvo þriðju, en við bætast tekjur af vörugjöldum og tollum svo upphæðin er án efa hærri.
Á fundi Litla Íslands í morgun kom fram að þetta væri án efa besta viðskiptaáætlunin sem byðist á markaðnum í dag. Það væri heilbrigð skynsemi að bæta starfsumhverfi lítilla fyrirtækja og um það þyrfti ekki að hefja neinar pólitískar deilur. Könnun Capacent sýnir t.d. að 94,4% Íslendinga eru jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja.
Allir vinna
Lítil fyrirtæki eru ein helsta uppspretta nýrra starfa og með því að bæta starfsumhverfi þeirra má hleypa auknum krafti í atvinnulífið ásamt því að gera það fjölbreyttara og skemmtilegra. Full atvinna mun nást á fáum árum, fleiri tækifæri verða í boði fyrir þá sem eru í leit að vinnu, bótagreiðslur lækka og álögur á fyrirtæki minnka. Þá munu ríki og sveitarfélög eiga auðveldara með að fjármagna grunnþjónustu sína.
Litla Ísland þakkar þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína í Hús atvinnulífsins í morgun, en fundurinn markaði upphafið að fundaröð Litla Íslands um hvernig bæta má starfsumhverfið. Næsti fundur verður haldinn föstudaginn 14. mars en þá verður fjallað um fjármögnun lítilla fyrirtækja.
Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki (1-50 starfmenn) vinna saman óháð atvinnugreinum. Litla Ísland var stofnað á Smáþingi 10. október 2013. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar þess en á fundinum í morgun var m.a. kynnt fjölþætt þjónusta samtakanna sem litlum fyrirtækjum stendur til boða.