Fréttasafn  • SHB2012

14. feb. 2014

Tækifæri í iðnaði

Það eru liðin 30 á síðan ég stóð síðast á gólfi renniverkstæðisins í Héðni. Þá var ég rúmlega tvítugur nemi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands og hluti námsins var verkþjálfun. Vinna í vélsmiðju var krafa í verkfræðinámi þá, en er það því miður ekki lengur.

Fyrir nokkrum dögum kom ég sem formaður Samtaka iðnaðarins í heimsókn til vélsmiðjunnar Héðins. Á móti mér tók Guðmundur S. Sveinsson, framkvæmdastjóri, sá sami og á sínum tíma réði mig í sumarvinnu og gaf mér tækifæri til verkþjálfunar í Héðni.

Á sínum tíma kveið ég verkþjálfuninni því ég bjóst ekki við að nein vélsmiðja vildi taka stelpu í vinnu. Ég man enn hvað það var þægileg tilfinning að koma í Héðin og biðja um vinnu. Guðmundur þurfti ekki að hugsa sig lengi um og bauð mig strax velkomna til starfa. Bauð mér meira að segja vinnu við rennibekk, sem að mínu mati var sérstakur heiður vegna þess hve rennismíði er vandasöm og mikil nákvæmnisvinna. Í vélsmiðjunni unnu bara karlmenn og einu konurnar sem ég sá þetta sumar voru þær sem störfuðu í mötuneytinu. Auk þess að læra á rennibekkinn, fékk ég að kynnast öðrum þáttum í starfsemi fyrirtækisins, s.s. vélsmíði og rafsuðu.

Það var góð tilfinning að koma aftur í Héðin, koma inn á véla- og renniverkstæðið, sjá fólk vinna, heyra þægileg vélahljóð og finna olíuilminn. Flestir hinna 120 starfsmanna eru enn karlmenn með ýmis konar tækni- og verkmenntun, en konurnar hafa þó tekið yfir fjármál og bókhald. Í Héðni er starfsaðstaða til mikillar fyrirmyndar, enda húsakynni ný og sniðin að starfseminni. Andrúmsloftið er notalegt og hvort tveggja í senn nýtískulegt og þrungið sögu. Stórar myndir úr athafnasögu Íslands prýða glerveggi og segja sögu uppbyggingar og framfara.

Flest verkefni Héðins hafa í gegnum árin verið tengd sjávarútvegi. Nærri öll vinna er unnin skv. pöntunum viðskiptavina og á síðustu árum hefur fyrirtækið tekið að sér margvísleg verkefni fyrir norsk sjávarútvegsfyrirtæki. Um 30% af tekjum Héðins eru í erlendum gjaldeyri og nýsköpun og þróun tæknilausna er þrædd inn í æðakerfi fyrirtækisins. Í Héðni fer fram mikil sköpun – ný sköpun.

Á göngu minni um fyrirtækið hitti ég ungan mann sem hafði þá nokkrum dögum áður lokið sveinsprófi í rennismíði og er nú fastráðinn starfsmaður Héðins. Hann hafði á sínum tíma hringt og spurt hvort hægt væri að komast á samning í rennismíði hjá Héðni og var umsvifalaust boðið að koma á samning. Guðmundur, framkvæmdastjóri, sagði hins vegar að því miður væri það allt of sjaldan að slíkar beiðnir bærust og því miður sýndu stelpur engan áhuga á iðngreinunum sem sárlega vantar þó fólk í. Menntamál eru að hans mati eitt mikilvægasta mál íslenskra iðnfyrirtækja. Vegna skorts á menntuðu fólki hafa Héðinn og fleiri fyrirtæki þurft að flytja inn iðnmenntað fólk frá öðrum löndum. Svo virðist sem menntakerfið slái hér ekki taktinn með atvinnulífinu og ungt fólk fái ekki upplýsingar um þau góðu starfstækifæri sem í boði eru.

Það skipti mig miklu máli að fá á sínum tíma tækifæri til að kynnast rennismíðinni í Héðni. Það gerði mig að betri verkfræðingi. Rennismíðin er mikil nákvæmnisvinna og krefst þess að menn hafi gott form- og þrívíddarskyn. Nú eru flestir rennibekkir tölvustýrðir og hægt að forrita þá til að vinna ýmislegt sem áður aðeins menn með mikla reynslu hefðu getað gert. Það sama á við um vélsmíðina. Það er ótrúlegt hvað hægt er að hanna og smíða flotta og frumlega hluti með nútíma tækni og tækjum.

Þegar haft er í huga hve brotfall nemenda er mikið í þeim framhaldsskólum landsins sem byggja alfarið á bóknámi, er sorglegt að ekki skuli vera hægt að kynna betur tækifærin í verk- og tækninámi. Það er endalaust hægt að byggja ofan á slíkt nám, ef áhugi og vilji er til þess síðar. Tölvutæknina má t.d. þræða inn í flest nám og einstaklingar geta þannig náð mikilli og verðmætri sérþekkingu sem gefur tækifæri á að þróast enn meira í starfi. Skyldu foreldrar gunnskólabarna, kennarar og námsráðgjafar á grunnskólastigi gera sér nægjanlega vel grein fyrir þessu?

Hér býr mikill drifkraftur iðnaðar ef fólki og fyrirtækjum eru búin rétt skilyrði. Þennan drifkraft þarf að virkja betur.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI

Birt í Morgunblaðinu 14. febrúar 2014