Fréttasafn26. maí 2014

Datamarket hlýtur VAXTARSPROTANN 2014

Fyrirtækið Datamaket ehf. hlaut Vaxtarsprotann 2014 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Fyrirtækið jók lutekjur sínar milli áranna 2012 og 2013 um 134%. Fyrirtækin Valka, Nox Medical og Skema fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt.

Viðurkenningar voru veittar í dag við hátíðlega athöfn á Nýsköpunartorgi sem fram fór 23 -24. maí í Háskólanum í Reykjavík. Vilborg Einarsdóttir stjórnarmaður hjá Samtökum iðnaðarins og Tækniþróunarsjóði afhenti fulltrúum fyrirtækjanna viðurkenningar.

Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2012 og 2013, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Skema og Datamarket viðurkenningu en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Nox Medical og Valka viðurkenningu.

Samtök iðnaðarins veita sérstaka viðurkenningu til sprotafyrirtækja sem velta í fyrsta sinn meira en einum milljarði króna. Fyrirtækið Nox Medical náði þeim áfanga á síðasta ári og var því brautskráð sem sprotafyrirtæki inn í úrvalsdeild íslenskra hátæknifyrirtækja. Áður hafa CCP, Betware, Nimblegen og NaustMarine hlotið þessa viðurkenningu.

Þetta er í áttunda sinn sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007. Áður hafa hlotið Vaxtarsprotann fyrirtækin Maroka 2007, Mentor 2008 og 2009, Nox Medical 2010, Handpoint 2011, Valka 2012 og Meniga 2013. 

Verðlaunagripur Vaxtarsprotans er farandgripur úr áli og steini gefinn af Samtökum iðnaðarins, en auk hans fylgir skjöldur úr sömu efnum til eignar. Fyrirtækin fjögur sem hlutu viðurkenningar fengu auk þess sérstök viðurkenningarskjöl. 

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Nánar um fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu

DataMarket ehf. er íslenskt einkahlutafélag, stofnað sumarið 2008 af Hjálmari Gíslasyni og Frosta Sigurjónssyni. Höfuðstöðvar DataMarket eru í Reykjavík og þar fer hugbúnaðarþróunin jafnframt fram, en fyrirtækið rekur þar að auki söluskrifstofu í Boston.

DataMarket safnar saman marvíslegum gögnum af ólíkum uppruna saman á einn stað og gerir þau aðgengileg á samræmdan hátt þannig að auðvelt sé að leita, bera saman, myndbirta og deila gögnunum í stærri eða smærri hópum eða með heiminum öllum.

DataMarket veitir þannig fyrirtækjum og stofnunum ítarlegt yfirlit yfir ytra viðskiptaumhverfi sitt, en skjótur og einfaldur aðgangur að öllum slíkum gögnum - hvort heldur er gögnum frá opinberum aðilum, gjaldskyldum gagnaveitum eða gögnum í eigu fyrirtækjanna sjálfra - tryggir að ákvarðanir séu ávallt teknar í ljósi bestu fáanlegu upplýsinga.

Datamarket ehf. hlýtur Vaxtarsprotann 2014 fyrir öfluga uppbyggingu á síðasta ári. Sölutekjur jukust úr tæplega 77.9 m.kr í rúmlega 182 m.kr. eða 134%. Starfsmenn eru 14 í dag. Fyrirtækið er gott dæmi um vaxtarsprota byggst hefur upp á nokkrum árum en tekur nú flugið með auknum umsvifum á erlendri grund með stofnun dótturfyrirtækis. Verkefnastyrkir Tækniþróunarsjóðs og endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarstarfsemi hafa komið í góðar þarfir og átt þátt sinn þátt í að byggja upp góðan árangur.

Datamarket hefur verið að hasla sér völl í Bandaríkjunum þar sem það virðist eiga bjarta framtíð fyrir höndum.

Fyrirtækið er því vel að því komið að vera útnefnt VAXTARSPROTI ársins 2014.

Skema ehf. var stofnað árið 2011 af Rakel Sölvadóttur, frumkvöðli og nörd ársins 2013.

Skema var stofnað í kjölfar þess að hugmyndin „Börnin í Undralandi tölvuleikjanna“ hlaut titilinn „Fræ ársins 2011“. Fyrirtækið hefur tekið mikinn vaxtarkipp á síðasta ári í kjölfar þess að setja upp nýja móðurstöð fyrirtækisins, í Washingt­on fylki í Banda­ríkj­un­um undir nafninu Rekode Educati­on.

Mikil þróunarvinna hefur átt sér stað innan fyrirtækisins bæði hvað varðar námskeiðspakka til barna og unglinga sem og innleiðingarpakka til skóla og fyrirtækja. Fyrir liggur að aðlaga innleiðingar- og þróunarpakka félagsins að Evrópumarkaði á næstu misserum og kemur Skema til með að stýra þeirri vinnu.

Skema sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum – með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi. Skema býður upp á fjölbreytt úrval tækninámskeiða fyrir ungt fólk á aldrinum 6-16 ára í ýmis konar leikjaforritun, tölvutætingi og vefsmíði og vinnur að því í gegnum þróunar- og innleiðingarverkefni sín, með skólum landsins, að kennsla í forritun verði í boði á öllum skólastigum.

Fjöldi íslenskra skóla vinnur þegar náið með Skema með það fyrir augum að þróa og bjóða menntun í takt við tækniþróun innan sinna raða. Samhliða þessu er Skema að rannsaka þau áhrif sem kennsla í forritun hefur m.a. á sköpunargáfu, verkefnalausnir, þroska og námsgetu barna.

Aðferðafræði Skema byggir á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum við að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Yfirlýst markmið fyrirtækisins er að aðstoða markvisst við innleiðingu á tæknimenntun í takt við tækniþróun og sporna þannig m.a. við þeirri miklu vöntun sem er á tæknimenntuðu fólki. Fyrirtækið hefur sérstaklega unnið að því að auka aðsókn stelpna og kvenna í tækninám m.a. með því að bjóða sérsniðin námskeið fyrir stelpur sem byggja á samspili tækni og sjálfstyrkingar.

Jákvæður meðbyr hefur blásið ferskum vindum inn í fyrirtækið með fjölda viðurkenninga og verðlauna. Þann 30. janúar 2014 tók Rakel við hvatningarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu. Félagið hvetur Rakel þannig til áframhaldandi góðra verka í þágu atvinnulífsins á árinu 2014. Þann 6. febrúar vann Rakel fyrstu CYEA verðlaunin (Creative Young Entrepreneur Award) sem veitt hafa verið hér á landi en verðlaunin eru hluti af starfi JCI á Íslandi og er ætlað að hvetja unga, skapandi og samfélagslega þenkjandi frumkvöðla áfram í starfi sínu. Þá vann Rakel UT verðlaunin á UTmessunni sem haldin var í Hörpu 7. og 8. febrúar.

1. deild:

Nox Medical ehf. er stofnað á miðju ári 2006 af verkfræðingum og heilbrigðisvísindafólki sem áður unnu hjá fyrirtækinu Flögu. Flaga hafði þá á rúmum 10 árum frá stofnun, þróað hátæknilausnir til greiningar á svefntruflunum. Þegar mest lét voru starfsmenn Flögu á Íslandi vel á annað hundrað talsins en í lok árs 2005 var starfsemi Flögu flutt til Denver Colorado undir forystu bandarísks forstjóra félagsins. Við þá flutninga urðu íslenskir stafsmenn Flögu eftir á Íslandi.

Þeir einsettu sér að þróa nýja kynslóð svefngreiningalausna sem hentuðu við rannsóknir og meðhöndlun svefntruflana bæði barna og fullorðinna.

Svefngreiningatækið „Nox T3“ kom á markað í lok árs 2009, og hefur nú verið dreift í þúsundum eintaka, til svefnrannsókna- og læknastöðva í flestum heimshornum. Nýjar útgáfur komu til á síðasta ári sem renna enn styrkari stoðum undir öran vöxt félagsins. Nær allar tekjur félagsins eru af erlendri grund og á rekstrarárinu 2013 námu heildartekjur Nox Medical rúmum 1020 milljónum króna, og höfðu nær tvöfaldast frá fyrra ári.

Nox Medical er án efa orðið leiðandi fyrirtæki í heiminum á sínu sviði og eru starfsmenn Nox Medical 30 talsins. Starfsmannfjöldinn hefur nær tvöfaldast á rúmu ári. Langflestir starfsmenn er hátæknimenntaðir sérfræðingar sem flestir eiga langan starfsferil að baki, en það er gott til þess að vita að félagið hefur sótt til liðs við sig ungt, lagnskólagengið, efnilegt fólk sem hefur nýlokið sérfræðinámi erlendis og vill hvergi frekar búa og starfa en í okkar góða landi.

Valka ehf. var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi sem er jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins en þar starfa nú 20 manns.

Valka ehf. er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslur. Valka býður margskonar lausnir og búnað allt frá stökum vogum, innmötunarvélum og flokkurum yfir í heildarkerfi með heilfiskflokkurum, flæðilínum, skurðarvélum ásamt prenturum og pökkunarbúnaði. RapidFish hugbúnaðurinn er einfalt en öflugt framleiðslustjórnar- og pantanakerfi fyrir fiskvinnslur og sölufyrirtæki. Framleiðsla á tækjum Völku er að miklu leyti unnin af íslenskum verktökum en samsetning og prófanir fara fram í húsnæði Völku að Víkurhvarfi 8 í Kópavogi.

Á árinu 2012 kynnti Valka nýja röntgen stýrða beinaskurðarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Eftirspurn eftir sjálfvirkum beinaskurði er mjög mikil og er því reiknað með að sú lína muni styðja enn frekar undir framtíðarvöxt félagsins.

Valka hlaut nýsköpunarverðlaunin í fyrra en þau eru veitt af Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu byggða á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði.

Fyrirtæki var Vaxarsproti ársins 2012 þá í 2. deildinni og kemur nú aftur í top 2+2 hópinn með nýjan vaxtarsprett í fyrstu deildinni.