Fréttasafn



6. jún. 2014

Ályktun frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda sem haldinn var í vikunni.

Hilmar Sigurðsson hjá GunHil var endurkjörinn formaður, Guðrún Edda Þórhannesdóttir hjá Hughrif ritari og varaformaður, Guðný Guðjónsdóttir hjá Sagafilm gjaldkeri, Ingvar Þórisson hjá Hugó film og Anna María Karlsdóttir hjá Ljósbandi meðstjórnendur. Varamenn í stjórn eru Lilja Snorradóttir hjá Pegasus og Júlíus Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands. Á fundinum voru fjögur ný félög samþykkt inn í SÍK en þau eru Askja Films, Vintage Pictures, Skotta ehf og Halibut. Nú eru um 30 virk aðildarfélög innan vébanda SÍK og hafa aldrei verið fleiri.

Ályktun aðalfundar SÍK

Á aðalfundinum var rætt um mikilvægi þess að framlög í Kvikmyndasjóð verði aukin og eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.

„Mikilvægi þess að Íslendingar geti horft á efni á sínu móðurmáli sem endurspeglar þann veruleika sem við búum við, menningu okkar og sögu er ómetanlegt. Íslensk kvikmynda- og sjónvarpsverk gegna miklu hlutverki í nútíma áhorfi og afþreyingu og nauðsynlegt að Íslendingar geti notið sem mest af slíku efni.

Með því að renna styrkari stoðum undir Kvikmyndasjóð er unnið að því að slíkt sé gerlegt. Kvikmyndagreinin hefur fyrir löngu sýnt fram á að fjárfesting í Kvikmyndasjóði skilar sér fyllilega til baka á framleiðslutíma verkanna. Í því ljósi er skynsamlegt að efla og auðga innlenda menningu sem skilar ábata fyrir samfélagið allt.

Framleiðsla á innlendu efni á undir högg að sækja í ljósi breytinga í dreifingu og ólöglegu niðurhali á kvikmynduðu efni. Ljóst er að ef vilji er til að halda uppi framleiðslu á íslensku efni þarf að koma til framlag frá hinu opinbera og þar hefur Kvikmyndasjóður gegnt lykilhlutverki, sem eini innlendi samkeppnisjóðurinn á þessu sviði.

SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda leggur á það þunga áherslu að tryggð verði nauðsynleg hækkun á Kvikmyndasjóði þegar á næsta ári í samræmi við markmið og áherslur í samkomulagi við ríkisstjórn Íslands árið 2006 þar sem skýr markmið um framleiðslu á innlendu efni voru sett. Þannig ættu framlög á næsta ári að nema að lágmarki 1.180 m miðað við raungildi í maí sl. Jafnframt er það krafa okkar að samkomulag það sem nú er í gildi verði endurnýjað í samræmi við kröfu fagfélaga í kvikmyndagerð frá því í desember 2013.

Niðurskurður á kvikmyndasjóði milli ára um 35% hefur þegar valdið þungum búsifjum í framleiðslu á innlendu efni og er ljóst að í ár verða framleidd umtalsvert færri íslensk kvikmyndaverk en á síðustu tveimur árum. Áður hefur komið fram að með þessum niðurskurði á fjárfestingu í Kvikmyndasjóði hafi tapast um 200 ársverk í innlendri framleiðslu, auk tapaðra gjaldeyristekna og beinna skatttekna ríkissjóðs.

Í ljósi batnandi efnahags, er það eðlileg krafa að fjárfesting í Kvikmyndasjóði verði aukin aftur , sérstaklega í ljósi þess að efnahagurinn nýtur líka góðs af slíkri fjárfestingu og spennandi störf í skapandi greinum verða til.“

Samþykkt á aðalfundi SÍK 3. júní 2014