Fréttasafn



10. jún. 2014

Málstofa um orkustjórnun

Á Nýsköpunartorgi þann 23. maí sl. var haldin málstofa um orkustjórnun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á vegum Staðlaráðs, SI og CleanTech Iceland.

Orkureikningurinn getur vegið þungt í heildarrekstri fyrirtækja; rafmagn, hiti og eldsneyti á vélar og farartæki. Staðlaráð hefur gefið út bækling og leiðbeiningar um innleiðingu á orkustjórnun í takt við staðalinn ÍST EN ISO 50001:2011. Þar eru einfaldar leiðbeiningar um hvernig má greina orkunotkun, mæla, skrá og skoða hvar hægt er að hagræða. Einnig er fjallað um verklag við að stýra ferlinu en það er svipað og fyrir aðra ISO stjórnunarstaðla og því fellur orkustjórnun vel að rekstri fyrirtækja sem þegar vinna eftir t.d. gæðastjórnunarstaðli.

Nokkur fyrirtæki tóku þátt í verkefninu og kynnti Lilja Rut Traustadóttir reynslu Gæðabaksturs. Á tveggja ára tímabili minnkaði raforkunotkun um 20%, vatnsnotkun um 15% og olíunotkun um 30%. Þessi góði árangur náðist með annars vegar tæknilausnum og hins vegar breyttu verklagi. Í bakaríi eru ofnar orkufrekustu tækin svo athyglinni var sérstaklega beint að þeim. Betri mælingar og stýring var sett upp en einnig sú einfalda regla að kveikja ekki á ofnum fyrr en þörf er á. Áður var hefð að kveikt var á ofnum í upphafi dags en það gátu liðið allt að 3 tímar þar til bakstur hófs. Einnig voru keyptir sparneytnari bílar og sett upp flotastýring.

Á málstofunni kynntu fyrirtæki hvaða lausnir eru í boði. Ráðgjafar og verkfræðistofur bjóða aðstoð við að kortleggja notkunina. Í máli sérfræðinga frá Eflu og Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, VJI, kom fram að líta þarf til hita, ljósa og loftræstikerfa auk framleiðslutækja sem oft eru orkufrek. Skoða þarf bæði tæknilausnir, svo sem stýringar á ljósum og tækjum, sem og mannlega þáttinn. Með breyttum verklagsreglum og venjum má ná miklum árangri. Slökkva ljós, breiða yfir opna kæla, kveikja einungis á tækjum þegar þau eru í notkun og sinna viðhaldi og hreinsun á búnaði. Stærri fyrirtæki geta boðið út raforkunotkun og kannað hvaða taxti hentar þeim. Það getur borgað sig að laga starfsemina að tímaháðum taxta eða keyra ekki tvö orkufrek tæki á sama tíma til að minnka álagstopp.

Fjölmargar tæknilausnir bjóðast til að stýra og mæla orkunotkun, bæði í húsnæði og bifreiðum. ReMake Electric kynnti vöktun á einstökum tækjum eða rýmum. Það er forsenda þess að mæla og stýra notkuninni. Þegar upplýsingarnar liggja fyrir má setja markmið um sparnað. Tæknin nýtist t.d. í húsnæði þar sem eru nokkrir leigjendur. Með mælingum ReMake Electric er notkun hvers og eins leigjenda mæld svo ekki þarf að skipta orkureikning eftir t.d. fermetrum. Reynslan sýnir að þetta leiðir til orkusparnaðar. Sama á við þegar einstök tæki eru mæld og dæmi eru um yfir 60% sparnað í rekstri loftræstikerfa.

Sum fyrirtæki nýta sér hússtjórnunarkerfi og orkustjórnun er hluti af því. MainManager hefur 20 ára reynslu á því sviði. Algengt er að fyrirtæki nái 10 – 20% heildarsparnaði í orkunotkun og enn meira í einstökum tækjum eða einingum. Eftir miklu er að slægjast með því að greina notkun þegar engin starfsemi er í húsinu, finna grunnlínu notkunar sem alltaf er í gangi, oft engum til gagns.

Á málstofunni var einnig fjallað um eldsneytisnotkun skipa og bifreiða. Trackwell sérhæfir sig í flotastjórnun bifreiða. Það hefur sýnt sig að flotastjórnun bætir nýtingu á flota, bætir meðferð ökutækja og aksturslag. Allt þetta leiðir til minni eldsneytisnotkunar og sparnaðar.

Erfiðasti þátturinn í innleiðingu orkustjórnunar er mannlegi þátturinn. Það getur verið þungt að breyta venjum og hefðum. Reynslan sýnir þó að starfsmenn hafa almennt ánægju af því að taka þátt í verkefnum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif og líta á það sem merki um heilbrigðan vinnustað að hugað sé að umhverfismálum. Mikilvægt er að virkja starfsmenn og skapa jákvætt viðhorf til orkustjórnunar því sérfræðingarnir standa á gólfinu, þeir vita best hvar eru tækifæri til að spara orku.

Nálgast má leiðbeiningar Staðlaráðs hér

Hér má hlusta á viðtal við Bryndísi Skúladóttur hjá Samtökum iðnaðarins í Sjónmáli.