Fréttasafn



  • Lettland-september-2008-055

11. jún. 2014

Þróun á endurvinnslumarkaði

Á undanförnum áratugum hefur þróun í úrgangsmálum verið hröð. Fyrst var aukin áhersla á endurvinnslu, orkuvinnslu og jarðgerð. Í upphafi aldarinnar var mikið rætt um flokkun á úrgangi, hvort venjulegt fólk gæti og vildi flokka úrgang og hvernig þetta yrði gert á sem hagkvæmastan hátt í fámennu landi með dreifða byggð. En þróunin heldur áfram. Umræðan snýst nú meira um að minnka úrganginn, nýta hráefni betur og hreinlega setja minna í ruslið. Það sterk tenging við úrgangsmálin því mörkin á milli úrgangs og hráefnis er óljósari en virðist í fyrstu.

Á 16 ára tímabili, frá 1995-2011, minnkar hlutfallsleg urðun úrgangs úr um 80% niður í um 30%. Það er fyrst og fremst endurvinnsla sem kemur í stað urðunar.

Stjórnvöld hafa beitt ýmsum tækjum til að ýta á þessa þróun en áhugi almennings er einnig aukinn. Betra aðgengi að flokkun, aukin umræða og þekking eykur þátttöku almennings.  Sett hafa verið markmið um endurvinnslu. Úrvinnslusjóður byggir á hugmyndafræði framleiðendaábyrgðar og er samkomulag stjórnvalda og atvinnulífs um leið til að ná þessum markmiðum. Með tilkomu Úrvinnslusjóðs verður ein af stóru breytingunum sem hefur áhrif á þróun í endurvinnslumálum en þá verður fjárhagslegur hvati til að safna úrgangi. Það gerir það að verkum að það verður hagkvæmt að safna flokkuðum úrgangi og senda til endurvinnslu. Breytingarnar eiga sér ekki bara stað hérlendis og á undanförnum árum hefur alþjóðleg verslun með endurvinnsluefni aukist. Þetta hefur orðið til þess að einkafyrirtæki blómstra á þessu sviði. Endurvinnsla þarf ekki að vera samfélagslegt verkefni í jafn miklu mæli og áður var. Markaðurinn getur séð um um þetta. Ekki er greitt fyrir þjónustuna með útsvarinu heldur við kaup á vöru, í gegnum úrvinnslugjald. Í sumum tilfellum borgar markaðurinn fyrir efnin því þau seljast á það háu verði að allt umstangið borgar sig.

Fyrirséð er að þessi þróun haldi áfram. Einkaaðilar tryggja sig í sessi, tækjabúnaður þeirra verður betri og þekking á markaðnum eykst. Menn koma auga á ný tækifæri og þreifa sig áfram á nýjum sviðum. Tækninni fleygir fram og möguleikar til endurvinnslu aukast. Hérlendis hefur tækniþróunin verið drifin áfram af einkafyrirtækjum sem hafa í samstarfi við sveitarfélög reynt nýjar leiðir og þróað lausnir sem henta smærri samfélögum. Einkaaðilar geta í auknum mæli tekið að sér flóknari verkefni. Fyrirtækin voru einu sinni kölluð gámafyrirtæki því þau voru fyrst og fremst að flytja gáma milli staða. Orðið gámafyrirtæki nær í dag einungis yfir lítið brot af því sem fyrirtækin gera  og ætti frekar að tala um endurvinnslufyrirtæki. Það er lífsspursmál fyrir einkafyrirtækin að standa sig í samkeppni svo þau leggja mikið í þróunarvinnu til að auka hagkvæmni vinnslunnar og finna ný viðskiptatækifæri. Þar er hvati til nýsköpunar og til verða góðar lausnir.

Vert er að líta til svokallaðra þróunarútboða. Þá kallar útboðshaldari eftir tæknilausn sem ekki er til á markaðnum. Opinberi aðilinn vinnur með fyrirtækjum við þróun á tækni sem mætir væntingum útboðshaldarans. Þetta er hugmyndafræði sem hefur verið beitt á sviði umhverfismála, enda eru markmiðin oft skýr um hverju á að ná fram. Segja má að nokkur verkefni hérlendis hafi verið í þessum anda og má þar nefna þróun mála í sveitarfélögunum á Snæfellsnesi og Akureyri.

Nýlega voru samþykktar breytingar á úrgangslöggjöf og fyrirséð er að fleiri breytingar verði á næstunni. Löggjöf endurspeglar þann tíma sem hún er skrifuð á og þá tækni sem er til staðar. Þegar svona miklar tæknibreytingar verða þá kallar það á að breyta þarf lögum og reglum til að fylgja eftir þróuninni.

Hér verða gerðar að umtalsefni tvær greinar sem nýlega komu inn í íslensk lög og eru í úrgangstilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2008. Önnur greininn heitir Lok úrgangsfasa (end of waste) og hin Aukaafurðir (by-produkt). Markmiðið með greinunum er að auka endurvinnslu og minnka magn úrgangs.  Ýmis fyrirtæki hafa svokallað zero-waste stefnu og hluti af því er að starfsmenn leita ljósum logum að tækifærum til að selja efni sem hráefni sem áður var hent. Þá er hráefni ekki lengur úrgangur heldur by-produkt. Þetta einfaldar verslun með efnin eykur möguleika á að koma því í vinnslu. Nokkur verkefni eru í gangi hérlendis sem miða að því að úrgangur hætti að vera úrgangur. Það hefur verið vandkvæðum bundið að fá staðfest að svo sé og því eru miklar vonir bundnar við að nýju lagaákvæðin greiði götu þessara áhugaverðu verkefna. Gríðarleg tækifæri eru falin í þessum lagagreinum sem geta komið hráefnum sem áður var fargað aftur inní efnishringrásina.

Þetta eru skemmtilegir tímar fyrir þá sem starfa í úrgangsmálum. Þegar svona miklar breytingar eru í gangi þá eru úrlausnarefnin mörg og það er gaman að vinna í málum sem vekja áhuga fólks.

Bryndís Skúladóttir