Fréttasafn  • Borgartún 35

13. jún. 2014

Ólöglegar merkingar

Hinn 14. ágúst 2013 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið Drífa ehf., sem selur smávörur í verslunum hér á landi undir merkjunum Icewear og Norwear, hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Brotin fólust í því að gefa til kynna að ullarvörur sem fyrirtækið selur væru íslenskar og framleiddar úr íslenskri afurð. Var Drífu bönnuð notkun merkinganna án þess að uppruni vörunnar kæmi skýrlega fram.

Samtök iðnaðarins ráku málið fyrir hönd félagsmanna sem framleiða og selja íslenskar ullarvörur.

Í nóvember sama ár sendu SI bréf til Neytendastofu þar sem athygli var vakin á því að Drífa hefði ekki virt fyrrnefnda niðurstöðu Neytendastofu og væri enn að selja umræddar vörur með óbreyttum merkingum í stórmörkuðum, bensínstöðvum og fleiri verslunum. Var því farið þess á leit að Neytendastofa fylgdi málinu tafarlaust eftir í samræmi við fyrrnefnda ákvörðun sína.

Í samskiptum Neytendastofu og Drífu snemma árs 2014 kemur fram að Neytendastofa telur þær breytingar sem fyrirtækið sagðist hafa lagt í eftir ákvörðun Neytendastofu í ágúst 2013, þ.e. að líma myndmerki félagsins yfir íslenska fánann væru ekki fullnægjandi og gæfu það sama til kynna og að birta mynd af íslenska fánanum.

Í framhaldinu upplýsti Drífa að fyrirtækið hefði tekið ákvörðun um að bæta textanum „Designed in Iceland“ á þvottaleiðbeiningar á vörum frá félaginu. Neytendastofa taldi að með slíkum breytingum væri fyrirtækið að virða ákvörðun stofnunarinnar.

Samkvæmt fjölmörgum ábendingum sem SI hafa borist er enn, tæpum 10 mánuðum eftir ákvörðun Neytendastofu, víða í verslunum að finna vörur merktar Icewear og Norwear með ólöglegum merkingum. SI hefur fundað með Neytendastofu vegna málsins og upplýsti stofnunin á þeim fundi að hún hefði ekki framkvæmt vettvangsrannsóknir í verslunum er selja umræddar vörur Drífu ehf. Niðurstaða fundarins var sú að Neytendastofa myndi hafa eftirlit með fyrrnefndum vörum fyrirtækisins.

SI leggja áherslu á að þau fyrirtæki sem auglýsa vörur sínar sem íslenskar upplýsi að hvaða leyti viðkomandi vörur séu íslenskar. Það verður einnig að teljast með öllu ólíðandi að eftirlitsstofnanir sinni ekki sínu lögbundna eftirlitshlutverki. Sá mikli dráttur sem hefur orðið á meðferð málsins hjá Neytendastofu er óásættanlegur.