Fréttasafn18. ágú. 2014

Framleiðslulandið Ísland færist efst á dagskrá - Rætt við Kristúnu Heimisdóttur, framkv.stj. SI

„Við héldum fjölsóttasta Iðnþing frá upphafi í mars sl. undir yfirskriftinni Drifkraftur nýrrar sóknar. Ég hef orðið vör við hve mörgum eru minnisstæðar styttri ræðurnar sem fluttar voru á þinginu þar sem forystufólk Sets, Kaffitárs, Kerecis og Jáverks sögðu söguna af því hvernig þeim auðnaðist að stýra fyrirtækinu farsællega gegnum hrunið. Sögurnar þeirra voru sögur miklu fleiri fyrirtækja. Boðskapur Iðnþings var að iðnaðinn þyrfti til að reisa efnahag landsins með verðmætasköpun frekar en bólumyndun. Í aðdraganda og eftir Iðnþingið skerptist síðan sú sýn hjá okkur jafnt stjórn SI og liðsheildinni á skrifstofunni að Samtökin ættu að setja framleiðniaukningu í landinu og forsendur hennar í forgang og kastljós samfélagsins og þangað er markmið nú sett.“

Hvernig ætlið þið að nálgast þetta verkefni?

„Við lítum hvorki á þetta sem stutt átak né flugeldasýningu heldur viljum við beina þjónustu okkar að fræðslu og vitundarvakningu meðal fyrirtækjanna og í aðildarfélögum og starfsgreinahópum. Við munum auka við það vottunarstarf sem þegar hefur verið unnið og Ferdinand Hansen hefur leitt af einstakri elju í meira en áratug. Hann hefur verið mörgum stjórnendum í byggingariðnaði og víðar ómetanlegur stuðningur við að stíga inn í það kerfi gæðakrafna og stjórnunar sem markaðurinn og stjórnvöld krefjast í sífellt meira mæli. Samtökin hafa auðvitað ávallt styrkt og stutt framfarastarf á sviði stjórnunar í iðnaði og LEAN-væðingin, sem nefnd er straumlínustjórnun á íslensku, fær líka enn aukna áherslu hjá okkur. Í okkar liði á skrifstofunni er líka Davíð Lúðvíksson sem gjörþekkir straumlínustjórnun bæði fræðilega sem kennari á háskólastigi og það sem gerist á gólfunum í íslenskum fyrirtækjum vítt og breitt um landið með innleiðingu LEAN. Samtökin eru m.a. vettvangur til eins konar jafningjafræðslu og það ætlum við að virkja/leggja áherslu á.

Ræðst ekki framleiðni bæði af stjórnun fyrirtækjanna og mannauðnum sem í boði er auk hinna almennu rekstrarskilyrða?

„Jú, skortur á starfsfólki með rétta starfsþjálfun og menntun er orðið raunverulegt vandamál hér á landi. Þess vegna eru menntamálin lykilatriði til að auka framleiðni.

Hvað með almennu rekstrarskilyrðin?

„Það er ytra sjónarhornið í þessu verkefni Samtakanna að gera stjórnvöldum eins konar tilboð um bætt starfsskilyrði og rekstrarumhverfi gegn aukinni framleiðni fyrirtækjanna. Stóru markmiðin eru t.d. samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi, að umbætur í umhverfismálum haldist í hendur við framleiðniaukningu, fjárfesting í upplýsingatækni auki framleiðni og samkeppni og nýsköpun hvetji til hins sama.Í nýsköpunarumhverfið skortir möguleikann á að umbætur í grónum fyrirtækjum ,sem hafa framleiðniaukningu að markmiði, teljist stuðningshæfari en nú er. Til að þetta gangi upp þarf líka vilja stjórnvalda til að skapa slíka hvata í umhverfinu með nálgun sinni í lagasetningu og hvers kyns stjórnvaldsframkvæmd. 

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir íslenskt samfélag?

„Við þurfum að vera framleiðsluland til að halda uppi lífskjörum sem eru samkeppnishæf. Við getum aukið drifkraftinn – allar greiningar hagfræðinga sýna það – og þurfum að gera það.“