Fréttasafn



4. sep. 2014

Einingaverð eiga að vera trúnaðarmál

Gámaþjónustan hf. sem er aðili að Samtökum iðnaðarins hefur ásamt sveitarfélaginu Ölfusi ákveðið að höfða mál til ógildingar á úrskurði nr. A 541/2014 sem Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp nýlega.

Málið varðar aðgang að öllum tilboðsgögnum Gámaþjónustunnar hf. í opnu útboði á sorphirðuþjónustu fyrir sveitarfélagið Ölfus. Þar á meðal eru tilboðsskrár sem fyrirtækið skilaði sem trúnaðargögnum. Annar tilboðsgjafi, Íslenska gámafélagið ehf., krafðist þess að fá umrædd gögn afhent viku eftir opnun tilboða og örfáum vikum áður en opnuð voru tilboð í sambærilegt verk fyrir nágrannasveitarfélagið Hveragerði.

Í gögnum sem tilboðsgjafi leggur fram við opinber útboð eru oft viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem varða hann og stöðu hans á samkeppnismarkaði og eiga þessi gögn því að mati SI ekkert erindi til samkeppnisaðila. Hér getur verið um að ræða verð og verðútreikninga, tilboðskrár með einingaverði og upplýsingar um verktilhögun. Hingað til hefur verið hafið yfir vafa að tilboð frá einstökum verktökum væru trúnaðarmál milli hans og verkkaupa. Raunar var skýrt tekið fram í þessu útboði að svo væri en því fyrirheiti vill úrskurðarnefnd um upplýsingamál víkja til hliðar, þó að allir bjóðendur sem þátt tóku í útboðinu hafi í raun samþykkt þá tilhögun með þáttöku í útboðinu án athugasemda.

Verulegar líkur eru á að að afhending trúnaðargagna, sérstaklega strax í kjölfar opinberra útboða, geti haft mjög neikvæð áhrif á samkeppnisþátt slíkra útboða í framtíðinni og varða því hagsmuni verktaka, verkkaupa og almannahagsmuni. Óheftur aðgangur keppinauta að slíkum gögnum stríðir að öllu leyti gegn tilgangi og anda samkeppnislaga.

Samtök iðnaðarins hafa um árabil beitt sér fyrir bættum vinnubrögðum og skýrari verklagsreglum við opinber útboð og telja brýnt að öll tvímæli séu tekin af hvernig meðferð tilboða og annarra trúnaðargagna sem afhent eru verkkaupum við opinber útboð skuli vera háttað og verði háttað í framtíðinni.

Samtök iðnaðarins telja brýnt að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort upplýsingaréttur á grundvelli upplýsingalaga geti náð til afhendingar slíkra fjárhagslegra trúnaðargagna til keppinautar í opinberu útboði og það nánast tafarlaust eftir opnun útboðs.

Vegna fréttaflutnings í Fréttablaðinu og á visir.is sendi Gámaþjónustan frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Lesa yfirlýsingu hér.