Fréttasafn  • SSPlogo2012

15. sep. 2014

Ályktun stjórnar Samtaka sprotafyrirtækja

Ályktun stjórnar Samtaka sprotafyrirtækja

- vegna fjárlagafrumvarps 2015 og aðgerðaáætlunar Vísinda- og tækniráðs

Stjórn Samtaka sprotafyrirtækja fagnar áformum um eflingu Tækniþróunarsjóðs og áframhaldandi uppbyggingu endurgreiðslna rannsókna- og þróunarkostnaði skv. lögum nr. 152/2009 í fjárlagafrumvarpi 2015.

Jafnframt fagna samtökin þeirri stefnu sem birtist í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs í samráði við stjórnvöld og felur m.a. í sér að stefna að:

  • áframhaldandi uppbyggingu samkeppnissjóðanna á árinu 2016

  • auknum heimildum til endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar í tenglsum við skattkerfið skv. lög nr. 152/2009

  • skattalegri hvatningu til fjárfestingar í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja

  • efla stuðning og ráðgjöf við nýsköpunarfyrirtæki sem stefna á alþjóðlegan markað

Tækni- og hugverkaiðnaðar hefur eflst til muna á undanförnum árum og útflutningsverðmæti greinarinnar nemur nú um 20% af heildarútflutningstekjum landsins. Samtök sprotafyrirtækja leggja áherslu á mikilvægi þess að vinna einstaka liði í áætluninni í góðum tengslum við fulltrúa greinarinnar þannig að sem best verði staðið að innleiðingu umbóta og skilvirkni þeirra.

Samtökin benda jafnframt á mikilvægi þess að hraða framangreindum umbótum, enda um fjárfestingu að ræða sem er til þess fallin að auka tekjur ríkissjóðs bæði til skamms og langs tíma, fremur en að vera útgjaldaaukandi. Umbætur í umhverfi nýsköpunar gagnast ekki bara fyrirtækjum í tækni- og hugverkagreinum, því þær gegna einnig mikilvægu hlutverki við að auka framleiðni og verðmætasköpun í öðrum atvinnugreinum og í starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þá vilja samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að vinna að umbótum og meiri samfellu í fjármálaumhverfi fyrirtækja, lækkun fjármagnskostnaðar og afnámi gjaldeyrishafta.

Samtökin minna á virk sólarlagsákvæði í lögum nr. 152/2009 sem fella lögin sjálfkrafa úr gildi ef ekki kemur til endurnýjunar fyrir árslok 2014. Hér þarf því bregðast hratt við ef ekki á að koma til niðurfellingar heimilda á árinu 2015.

Ísland á að vera aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun. Við eigum í harðri samkeppni við þjóðir sem hafa markað sér skýra stefnu í þessu efni og sækja hart fram við að endurbæta starfsumhverfi sitt og laða til sín fólk og fyrirtæki. Mikilvægt er að hefja nýja sókn og keppa markvisst að því koma Íslandi í fremstu röð á þessu sviði. Þannig byggjum við samkeppnishæft atvinnulíf sem getur staðið undir þeirri velferð sem við Íslendingar viljum búa við.