Fréttasafn19. sep. 2014

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill betri upprunamerkingar matvæla

Það skiptir meira en fjóra af hverjum fimm Íslendingum máli að upplýsingar um upprunaland séu á umbúðum matvæla við ákvörðun um kaup. Þar af telur tæpur helmingur (48%) að það skipti miklu máli og rúmur þriðjungur (35%) að það skipti nokkru máli. Aðeins 17% telja að það skipti litlu eða engu máli. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin sem eru í samstarfi um bættar upprunamerkingar matvæla. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga telur að bæta þurfi upprunamerkingar.

Smelltu til að stækka

Þá telja rúmlega sjö af hverjum tíu landsmanna að það sé óásættanlegt að upprunaland hráefnis sé ekki getið á umbúðum unninna matvæla. Dæmi um slíkar afurðir eru innfluttar svínasíður, reyktar og sneiddar niður í t.d. beikon, en samkvæmt gildandi reglum telst land vera upprunaland ef umtalsverð umbreyting vörunnar hefur átt sér stað. Tæpur helmingur (46%) telur slíkar merkingar algerlega óásættanlegar og fjórðungur (25%) telur þær að litlu leyti ásættanlegar.  Aðeins tíundi hver (11%) telur skort á upplýsingum vera að mestu eða öllu leyti vera í lagi.

Smelltu til að stækka

Loks telja tæplega níu af hverjum tíu (86%) það skipta miklu eða nokkru máli að fá upplýsingar um upprunaland aðalinnihaldsefnis í kjötvörum sem eru unnar úr fleiri en einu hráefni, s.s. áleggi, pylsum og bökum. Tíundi hver telur það skipta litlu máli en aðeins 4% telja að það skipti engu máli. 

Smelltu til að stækka

Samanburður við könnun árið 2006 sýnir vaxandi áherslu á upprunamerkingar

Árið 2006 var gerð norræn könnun á viðhorfum almennings til upprunamerkinga matvæla. Úrtakið þá var 1.000 einstaklingar. Niðurstöður hennar voru að áhersla Íslendinga á upprunamerkingar var heldur minni en hinna þjóðanna. En þessi könnun sýnir að áhersla Íslendinga á upprumamerkingar hefur aukist umtalsvert og er orðin svipuð og þá var meðal annarra Norðurlanda. Árið 2006 töldu 73% Íslendinga upprunamerkingar matvæla vera mikilvægar samanborið við 83% nú. Þar af töldu 34% árið 2006 merkingarnar vera mjög mikilvægar en 48% nú. Þá töldu 59% Íslendinga skort á upplýsingum um upprunaland hráefnis unninna vara vera óásættanlegan en 71% nú. Loks töldu fjórir af hverjum fimm (82%) árið 2006 það vera mikilvægt að upprunaland aðalhráefnis unninna kjötvara væri getið á umbúðum sem er svipuð niðurstaða og nú (86%).

U4.jpg

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin eru í samstarfi um bættar upprunamerkingar matvæla. Samtökin fóru þess á leit við Capacent Gallup að rannsaka viðhorf almennings til merkinga um upprunaland á umbúðum matvæla.  Þrjár spurningar voru lagðar fyrir svarendur:

  1.      Skiptir það þig miklu, nokkru, litlu eða engu máli að upplýsingar um upprunaland séu til staðar á umbúðum matvæla við ákvörðun um kaup?
  2.      Ákveðnar tegundir matvæla eru merktar landinu þar sem lokaafurðin er framleidd, en upprunaland hráefnis kemur ekki fram. Finnst þér slíkar merkingar á matvælum að öllu, mestu, nokkru, litlu eða engu leyti ásættanlegar?
  3.      Skiptir það þig miklu, nokkru, litlu eða engu máli að þekkja upprunaland aðal innihaldsefnis í unnum kjötvörum t.d. áleggi , pylsum eða bökum?

Könnunin var netkönnun gerð á tímabilinu 26. júní til 4. júlí 2014. Í úrtaki voru handahófsvaldir 1.400 einstaklingar á öllu landinu, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 842, þannig að þátttökuhlutfall var 60%.