Fréttasafn



9. okt. 2014

Fæðubótarefni unnið úr jarðhitakísli

Fyrirtækið Geosilica hefur þróað nýtt fæðubótarefni sem fyrirbyggir beinþynningu. Efnið sem kemur á markað í nóvember inniheldur náttúrulegan jarðhitakísil sem unninn er úr affallsvatni Hellisheiðarvirkjunar. Slík nýting til matvælavinnslu er óþekkt annars staðar í heimunum. Varan var þróuð af stofnendum Geosilica, þeim Fidu Abu Libdeh og Burkna Pálssyni. Fida segir í samtali við Morgunblaðið í dag kísil vera þekktan fyrir áhrif sín á hár og neglur en að auki hjálpi hann öðrum steinefnum að koma sér fyrir í líkamanum og auki þar með beinþéttni.

Markmið fyrirtæksins er að framleiða hágæða kísil heilsuvörur úr affallsvatni jarðvarmavirkjana landsins, og hófst starfsemi við Hellisheiðarvirkjun í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur árið 2012.

Affallsvatnið svokallaða er afgangsafurð virkjunarinnar á Hellisheiði, og er því dælt aftur niður í jörðina eftir að gufa þess hefur verið nýtt til rafmagnsframleiðslu og upphitun húsa. Niðurdæling þessi er ekki án vandamála eins og margir vita en bæði landeigendur og aðrir íbúar í grennd við virkjunina kvarta mikið undan áhrifum hennar á umhverfið.

Einnig fylgir þessari niðurdælingu annars konar vandamál sem snúa að virkjuninni sjálfri. Í affallsvatni leynist nefnilega mikið magn kísils sem fellur út og sest innan á lagnir og annan búnað, og stíflast í kjölfarið. Þessu fylgir gríðarlega mikill kostnaður við hreinsun og endurnýjun búnaðar.

Markmið geoSilica snýst um að nýta affallsvatnið, þessa áður ónýttu auðlind sem uppfull er af steinefnum, til framleiðslu á kísilríkum heilsuvörum.