Fréttasafn



31. okt. 2014

STEFNUmót íslensks byggingariðnaðar

Samstarf er lykill að árangri

Á STEFNUmóti íslensks byggingariðnaðar sem haldið verður þriðjudaginn 4. nóvember á Grand Hótel verður brotið blað í sögu byggingariðnaðar þegar fulltrúar atvinnugreina, stofnana og hagsmunaaðila koma saman til að rýna stöðuna og meta mögulegar leiðir í átt að umbótum og framförum. Aldrei áður hefur jafn breiður hópur þátttakenda í byggingariðnaði komið saman til umræðu.

Á þriðja hundrað  manns hafa skráð sig til þátttöku en um tímamótaviðburð er að ræða. Annars vegar er þetta markverð tilraun fjölmargra hagsmunaaðila í byggingariðnaði til að móta sameiginlega skýra stefnu og forgangsraða til framtíðar. Á hinn bóginn verður ný aðferðafræði prufukeyrð á þinginu í samvinnu við Siðfræðistofnun og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Spurningakannanir verða lagðar fyrir þátttakendur í upphafi og lok dagskrár til að mæla viðhorfsbreytingu. Aðferðafræðin byggir á rökræðukönnunum eða „Deliberative democracy“. Þessi aðferðafræði hefur verið nýtt með góðum árangri víða erlendis en ekki verið notuð hérlendis svo að vitað sé.     

Íslenskur byggingariðnaður hefur alltaf verið gríðarlega sveiflukenndur en eftir efnahagshrun drógust umsvif saman um tugi prósenta. Sumar greinar iðnaðarins þurrkuðust hreinlega út og almenn umræða um greinina hefur verið á fremur neikvæðum nótum, s.s. umræða um galla, myglu, offramboð húsnæðis og brottflutning vinnuafls svo eitthvað sé nefnt.

Vöxtur er engu að síður að hefjast. Fjárfestingar hafa aukist á ný og atvinnugreinin er að taka við sér. Þeir sem í greininni starfa vilja gjarnan draga lærdóm af fortíðinni, vinna saman að því að bæta það sem betur má fara og byggja upp nýja og betri atvinnugrein í sátt við stjórnvöld og hagsmunaðila.  

STEFNUmótið byggir á stuttum fyrirlestrum og umræðum í vinnuhópum. Afraksturinn verður nýttur til að móta sameiginlega stefnu og forgangsraða á vettvangi þeirra fjölmörgu hópa sem starfa innan og í tengslum við íslenskan byggingariðnað.

Þátttaka í STEFNUmótinu er endurgjaldslaus og öllum opinn.

DAGSKRÁ