Fréttasafn



5. nóv. 2014

Oceana – öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins

Undirritað hefur verið samkomulag um stofnun Oceana – öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins. Samtök iðnaðarins, CleanTech Iceland, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Reykjavíkurborg, háskólar, rannsóknastofnanir og fyrirtæki eru aðilar að samkomulaginu en undirritun fór fram í tengslum við alþjóðlegu Norðurslóðaráðstefnuna Arctic Circle sem fram fór í Hörpunni sl. föstudag.

Um er að ræða samstarfsvettvang um rannsóknir, þróun, framleiðslu og kynningu á tæknilausnum sem stuðla að vernd hafsins.

Markmiðið með stofnun setursins er að efla þátttöku og starf innlendra og erlendra aðila á alþjóðavísu að nýtingu grænnar tækni sem tengist hafinu og verndun þess. Hafa áhyggjur þjóða af mengun hafsins aukist mjög á undanförnum árum og áratugum og er mikil umræða á alþjóðavettvangi um nauðsyn þess að huga að umhverfismálum, sjálfbærni og verndun hafsvæða.

Að sumu leyti hefur umræðan borið árangur. Nýir samningar og stofnanir hafa litið dagsins ljós sem taka m.a. á þrávirkum lífrænum efnum, kvikasilfri, mengun frá skipum og mengun hafs frá landi. Einnig hafa menn beint sjónum að nýjum ógnum, s.s. af völdum rusls og plastagna í hafi og súrnun hafsins vegna kolefnislosunar. Íslendingar hafa átt erfitt með að fylgja þessu aukna starfi eftir sem skyldi og eru að sumu leyti ekki jafn virkir þátttakendur í umræðu og aðgerðum á þessu sviði á alþjóðavettvangi og áður. Æskilegt er að efla þátttöku og starf í þessum mæli að nýju og nýta í því skyni samvinnu fyrirtækja, háskólasamfélagsins, rannsóknastofnana og stjórnvalda.

Meðal annars er ætlunin að Oceana verði vettvangur til að nýta rannsóknir innan háskóla, opinberra stofnana og fyrirtækja til að þróa nýjar tæknilausnir og viðskiptatækifæri sem nýtast til verndar hafsins. Áhersla verður lögð á hagkvæma orkunýtingu, vöktun umhverfisgæða, endurnýjanlega orkugjafa og að koma í veg fyrir mengun hafsins. Auk þess að stuðla að umhverfisvernd er vonast til að með þessu verði hægt að fjölga verðmæltum störfum í tækni- og hugverkagreinum, draga að erlent rannsóknarfjármagn og auka við almennan skilning og þekkingu á hafinu og mikilvægi þess. Þá er markmiðið að styðja við stefnu stjórnvalda og ímynd Íslands sem fyrirmyndar lands hvað varðar hreint haf og vernd og sjálfbæra nýtingu lífríkis hafsins.

Nokkur íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl á sviði umhverfisvænnar tækni og sett fram viðskiptahugmyndir, byggðar á rannsóknum, sem tengjast vernd og sjálfbærri nýtingu hafsins. Með samstilltu átaki opinberra aðila, rannsóknarstofnana og atvinnulífs geta orðið til ný tækifæri og tæknifyrirtæki, þar sem saman fer traustur viðskiptagrunnur og metnaðarfull markmið um verndun og sjálfbæra nýtingu hafsins.