Fréttasafn



29. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Nú er rétti tíminn fyrir auknar samgönguframkvæmdir

Samgönguáætlunin ber með sér að ríkisstjórnin ætli ekki að sinna því viðhaldi sem nauðsyn er á né ráðast í nýjar framkvæmdir. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka ferðaþjónustunnar sem send hefur verið umhverfis- og samgöngunefnd um samgönguáætlun 2019-2033 og 5 ára samgönguáætlun 2019-2023. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2019 er áætlað að verja 23,5 milljörðum króna til nýframkvæmda á vegum og brýns viðhalds. Þrátt fyrir að auka eigi framlög til samgöngumála á næstu árum eru framlögin engu að síður undir sögulegu meðaltali síðustu áratuga, sem hlutfall af landsframleiðslu. Samtökin telja aukninguna vera of litla miðað við þá miklu þörf sem er til staðar. Það þarf meira til og núna er rétti tíminn til að ráðast í auknar framkvæmdir. 

Verkum sé forgangsraðað eftir öryggi og umferðarmagni

Í umsögn samtakanna fimm er vísað til skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga, Innviðir á Íslandi - Ástand og framtíðarhorfur, sem gefin var út á síðasta ári en þar er að finna heildstæða greiningu á ástandi innviða landsins. Þar kemur fram að vegakerfi Íslands sé stórt miðað við íbúafjölda og áfangastaðir dreifðir. Þar kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf í þjóðvegakerfinu sé um 70 milljarðar króna. Sú tala inniheldur ekki nýfjárfestingar en þörfin fyrir slíkar fjárfestingar hleypur á hundruðum milljarða. Við þessu verður að bregðast og eru í skýrslunni settar fram góðar tillögur að úrbótum. Þar er tekið fram mikilvægi þess að verkum sé forgangsraðað eftir öryggi og umferðarmagni og að fram fari kostnaðar/ og ábatagreining á þeim verkefnum sem fjárfesta eigi í. 

Jákvætt að kanna eigi mögulega á aðkomu einkaaðila 

Þá kemur fram í umsögninni að samtökin vilja taka undir þau sjónarmið sem fram koma í 15 ára áætluninni um að skoða eigi fjölbreyttar leiðir til fjármögnunar stórra framkvæmda, m.a. í samstarfi við einkaaðila. Samtökin telja jákvætt að kanna eigi möguleika á aðkomu einkaaðila að stærri framkvæmdum sem samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila, þ.e. með svokölluðu „Public Private Partnership“ fyrirkomulagi.

Hér er hægt að nálgast umsögn samtakanna.