Nú þarf að líta til framtíðar og koma hugmyndum í framkvæmd
Árni Sigurjónsson, formaður SI, flutti ávarp í upphafi kosningafundar SI sem fór fram í Silfurbergi í Hörpu. Hér fyrir neðan er hægt að lesa ávarp hans:
„Rétt eins og fyrir rúmum þremur árum, í aðdraganda þingkosninga haustið 2021, boðum við til þessa fundar með formönnum þeirra flokka sem nú eiga sæti á Alþingi. Með þessum fundi vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til uppbyggilegrar umræðu í aðdraganda kosninga. Ég þakka formönnum flokkanna fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í umræðum um hvernig efla megi atvinnulíf og verðmætasköpun á Íslandi, nú þegar réttir 25 dagar eru þar til landsmenn ganga að kjörborðinu.
Áður en við hefjum umræðurnar, langar mig aðeins að ramma inn stöðuna í íslenskum iðnaði og helstu viðfangsefni okkar sem störfum í greininni.
Iðnaður er stærsta atvinnugreinin á Íslandi en í iðnaði starfa 51 þúsund manns sem er 22% af fjölda starfandi í landinu. Greinin skilar 884 milljörðum króna í verðmæti á ársgrundvelli og er stærst allra útflutningsgreina með 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins.
Miklar framfarir hafa átt sér stað á Íslandi á undanförnum áratugum. Með fjölbreyttar hugmyndir, metnað og samtakamátt að vopni voru teknar góðar ákvarðanir og þær framkvæmdar þjóðinni til heilla. Með elju og staðfestu tókst okkur að fjárfesta í innviðum, samgöngum, fjarskiptum, húsnæði, nýsköpun og menntun og með þessum ákvörðunum var skapaður frjór jarðvegur fyrir fjölbreytt atvinnulíf og velsæld. Uppskeran hefur á flesta mælikvarða verið góð en nú þarf að líta til framtíðar og halda áfram að sækja þau tækifæri sem við okkur blasa. Koma enn fleiri öflugum hugmyndum í framkvæmd og feta áfram braut framfara. Þannig verður Ísland Hugmyndalandið.
Félagsmenn Samtaka iðnaðarins, sem eru 1.800 talsins, eru á einu máli um mikilvægi þess að næsta ríkisstjórn skapi skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og þar með vaxta. Þetta kemur auðvitað ekki á óvart. Þá vilja tæp 80% að næsta ríkisstjórn leggi áherslu á að draga úr byrðum á fyrirtæki í formi skatta og gjalda. Þetta kemur fram í nýrri könnun meðal félagsmanna okkar. Hér upp á skjá sjáið þið einnig fleiri af helstu áherslumálum iðnaðarins: orkumál, innviðauppbygging, skattamál, regluverk, réttindamál hvað varðar iðnmenntun, húsnæðismál og menntamál. Allt málefni þar sem umbóta er þörf og verða vafalítið rædd nánar hér í dag.
Samtök iðnaðarins hafa nú gefið út 30 umbótatillögur undir yfirskriftinni Hugmyndalandið og er þeim öllum ætlað að stuðla að aukinni samkeppnishæfni Íslands. Þessar tillögur eru holl lesning fyrir alla frambjóðendur til þings, hvar í flokki sem þau standa, og verða vonandi sem flestum leiðarljós í þeim krefjandi verkefnum sem bíða á pólitíska sviðinu. Þá hafa samtökin gefið út upplýsingablöð með helstu staðreyndum um hugverkaiðnaðinn, húsnæðismarkaðinn og innviði landsins.
Og talandi um hugverkaiðnaðinn. Það er verkefni næstu ríkisstjórnar að skapa áfram frjóan jarðveg svo hugmyndum verði komið í framkvæmd, hugmyndum sem auka verðmætasköpun, skapa skilyrði fyrir framtíðarvöxt og þar með bætt lífskjör hér á landi. Hver er sinnar gæfu smiður. Á undanförnum fimm árum hafa útflutningstekjur hugverkaiðnaðar tvöfaldast og útlit fyrir að þær nemi 320 milljörðum króna í ár. Þetta eru frábærar fréttir fyrir landsmenn alla. Ef umgjörð og starfsumhverfi nýsköpunar verður áfram hvetjandi geta útflutningstekjur hugverkaiðnaðar tvöfaldast aftur á næstu fimm árum, ef rétt verður á málum haldið. Það er reyndar fátt því til fyrirstöðu að hugverkaiðnaður verði verðmætasta útflutningsstoðin við lok þessa áratugar.
Aðrar greinar iðnaðar; byggingariðnaður, matvæla- og framleiðsluiðnaður, leika einnig lykilhlutverk í þeim vexti sem við viljum sjá raungerast á næstu árum. Þegar við veljum íslenska vöru eða þjónustu skilar það sér aftur til okkar. Við eigum og verðum að styðja ötullega við íslenskan iðnað, framleiðslu og hugvit. Þannig skapast verðmæti og störf, samfélaginu okkar til góða.
Það verður áhugavert að heyra hvað formenn flokkanna hafa um þessi og fleiri mál að segja hér á eftir. Ég býð ykkur aftur velkomin til fundar og gef boltann yfir til Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem ætlar að stýra umræðunum.“