Fréttasafn



8. mar. 2021 Almennar fréttir

Númer eitt er að slíta fjötra, hlaupa hraðar og sækja tækifærin

Númer eitt er að slítra fjötra, hlaupa hraðar og sækja tækifærin. Þetta er kjarninn í því sem við vorum að tala um á Iðnþinginu. Það er sannarlega umhugsunarvert að heyra af margvíslegum fjötrum sem að voru ræddir á Iðnþingu af félagsmönnum, fólki sem er í atvinnurekstri og rekst á hindranir á hverjum einasta degi. Fjötra sem valda því að við getum ekki hlaupið eins hratt og við viljum, fjötrar sem valda því að við erum ekki að sækja tækifærin. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali Kristjáns Kristjánssonar, í Sprengisandi á Bylgjunni, en í þættinum ræðir Kristján við Sigurð og Jökul Sólberg Auðunsson, frumkvöðul sem meðal annars stofnaði Planitor. 

Sigurður segir að til dæmis í byggingariðnaði megi finna fjötra sem valdi því að uppbyggingin er ekki nægilega hröð. „Það getur verið afgreiðsla eða menning hjá hinu opinbera, þannig að það eru lítil atriði og stór og allt þar á milli. Þannig að skilvirknin er ekki eins góð og hún á að vera. En það er hins vegar í mannlegu valdi að slíta þessa fjötra og það eigum við að gera á næstu mánuðum.“

33 tillögur að því hvernig hægt er að einfalda hluti - einföldunarbylting 

Í viðtalinu er sagt frá því að Samtök iðnaðarins hafi gefið út skýrslu þar sem lagðar eru fram 33 tillögur að aðgerðum sem hægt er að ráðast í nú þegar til að einfalda hluti. „Það var mjög áhugavert og ég fagna því að iðnaðarráðherra talaði í sínu máli á Iðnþinginu um einföldunarbyltingu sem næstu byltingu og skrifaði um það grein í Sunnudags-Moggann. Ég er algjörlega sammála því, það er mikið tækifæri þar.“

Aukin skilvirkni í stjórnsýslunni sparar gríðarlegar fjárhæðir

Í viðtalinu víkur Sigurður að myndbandi sem gert var fyrir Iðnþingið um hvernig talning íbúða fer fram þar sem starfsmaður Samtaka iðnaðarins keyrir um bæinn og telur íbúðir. „Gestir Iðnþings héldu að þetta væri grínskets en við þurftum að benda á það eftir þingið að það væri raunverulega svona sem talningin færi fram þannig að við hefðum einhverjar upplýsingar um það hvernig uppbyggingin væri. Annað dæmi sem var sýnt á Iðnþingi var dagur í lífi arkitekts sem þarf að prenta út stórar arkir sem tekur langan tíma, handskrifa, setja það í skottið, fara með á skrifstofu sveitarfélagsins til að fá samþykkt eða synjun, aðra undirskrift, þetta er skannað inn, svo fer þetta á verkstað og þar fer þetta inn í skáp af því allir nota rafrænu skjölin. Þetta getur tekið marga marga daga.“ Þá nefnir Sigurður að á Iðnþinginu hafi komið fram dæmi um að prentkostnaður í einu verkefni hefði numið mörgum milljónum. „Og við vitum alveg hver borgar þetta.“ Hann segir þetta dæmi um hvernig hægt er að einfalda hlutina. „Við erum ekki að tala um að einfalda regluverkið þarna eða draga úr kröfum varðandi byggingarnar heldur að auka skilvirknina í stjórnsýslunni því það sparar okkur alveg gríðarlegar fjárhæðir.“

29 þúsund ný störf fyrst og fremst í einkageiranum

Í viðtalinu segir Sigurður að í skýrslu Samtaka iðnaðarins þar sem lagðar eru fram 33 tillögur séu einnig sett fram efnahgasleg markmið til næstu 4 ára þar sem bent er á að það þurfa að verða til 29 þúsund störf á 4 árum og útflutningsverðmæti þurfa að aukast um 300 milljarða. „Þetta eru störf sem fyrst og fremst þurfa að verða til í einkageiranum. Leið vaxtar er sú leið sem mun auka efnahagslega velsæld og auka lífsgæði landsmanna á meðan leið aukinnar skattlagninar tefur endurreisnina. Leið vaxtar snýst að miklu leiti um það að hlúa að því sem fyrir er og sækja tækifærin.“ 

Hægt að ná meiri árangri með samhæfingu

Sigurður segir að það að hlúa að því sem fyrir er tengist því sem Jökull komi inn á í viðtalinu varðandi iðnaðarstefnu.  „Við erum sannfærð um það að með því að móta slíka stefnu, hvað sem hún heitir, að þá megi ná miklu meiri árangri og auka samkeppnishæfnina þannig að fyrirtækin geti þá fjölgað störfum og skapað aukin verðmæti. Í okkar huga þá snýst slík stefna fyrst og fremst um samhæfingu. Hún er nokkurs konar þráður í annarri stefnumótun. Þannig að þeir málaflokkar sem mestu skipta fyrir aukna framleiðni og samkeppnishæfni þar þarf umbætur með samt einhvern rauðan þráð að leiðarljósi. Það geta verið græn störf, efla hugverkaiðnað eða hvað það nú er en þarna þarf samhæfingu. Forsætisráðherra benti til dæmis á það í þinginu í vikunni að það væri of oft þannig að stofnanir og ráðuneyti næðu ekki að vinna nægilega vel saman. Þau væru þjónar samfélagsins alls og undir þetta tökum við heilshugar. Samhæfingin er svo mikilvæg.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.